Hinn 20. október síðastliðinn dreymdi mig draum, þar var í aðalhlutverki afa systir mín Gunna á Vestara Hóli í Fljótum. Ekki get ég nú sagt að mér hafi verið sérstaklega brugðið, því oft hefur mig dreymt þá ágætu konu. En þegar mig dreymdi hana aftur næstu nótt og reyndar næstu nætur þá þóttist ég vita að þetta sætti einhverjum tíðindum. Ég hringdi í bróður minn sem býr fyrir norðan og reyndar fleiri og spurðist frétta af heilsu Gunnu og svörin voru á þá leið að þeir vissu ekki annað en að hún væri frísk. Ég var ekkert farinn að reyna að ráða þessa drauma mína þegar fregnir bárust af andláti Gunnu, og þykir mér nokkuð ljóst að þar með sé ráðningin í höfn.

Ég læt hugann reika aftur um svo sem 30 ár, þá var ég póstur sveitarinnar og gekk á skíðum á vetrum og hjólaði á reiðhjóli á sumrin, hringinn í Flókadalnum. Oft var veðrið og færið erfitt á vetrum og oft var lítill stubbur orðinn ansi þreyttur þegar komið var fram að Vestara Hóli, en þar beið mín ég held að mér sé óhætt að segja alltaf eithvert góðgæti hjá henni Gunnu, stundum matur og einu sinni allavega kyrrsetti hún mig og sagði að ekki væri neitt vit í að halda áfram för sökum veðurútlits, enda sagði hún að væri norðanbylur í aðsigi. Ég var ekkert sérlega hress með þessa ákvörðun og hélt að lítið mál væri fyrir mig að komast á leiðarenda áður en veður versnaði, en það var einsog við manninn mælt að stuttu síðar brast á aftaka veður svo að vart sá handa skil. Þá hefði ég ekki viljað vera á ferð. En Gunna vissi hvað hún var að gera, þarna var ég látinn bíða af mér veður til morguns.

Mér hefur oft verið hugsað til þessa atviks á seinni árum, ekki er gott að segja hvernig eða yfirleitt hvort mér hefði yfirleitt gengið hefði Gunna ekki gripið inní. Gunna var ákveðin manneskja og hafði fastmótaðar skoðanir á mönnum og málefnum, en skoðanir hennar voru ekki neinar skyndiákvarðanir, þær voru byggðar á langri reynslu og miklu raunsæi, þess vegna bar að hlusta vel á það sem hún hafði fram að færa, ég verð alveg að játa að ég mundi vilja muna meira af okkar samskiptum frá fyrrgreindum árum.

Nú er Gunna komin til nýrra heimkynna, og þá eru þau öll systkinin komin heim ef svo má segja. Ég kveð merka konu og þakka henni alla velvildina í minn garð. Guð gefi henni góða ferð.

Ég votta Sigmundi og öðrum ættingjum samúð mína.

Gylfi Björgvinsson