Í uppvexti mínum í Grímsnesi hafði ég fremur óljósa hugmynd um bræðurna fjóra í Kaldárhöfða. Þótt við værum sveitungar var býsna langt á milli bæja í þann tíð. Síðar, þegar ég flutti að Ljósafossi, tókust góð kynni við þá bræður, fyrst Ragnar og Óskar. Ragnar var mikill efnismaður og vann við Ljósafossstöðina, en lést í hörmulegu slysi. Bræðurnir Jón og Kjartan voru farnir að heiman þegar hér var komið sögu, en höfðu alltaf mikil tengsl við heimahagana. Jón gerðist síðar starfsmaður hjá Landsvirkjun við Sog og síðar borstjóri hjá Jarðborunum ríkisins, en Kjartan flutti að Selfossi og gerðist bílstjóri hjá Mjólkurbúi Flóamanna. Yngsti bróðirinn, Óskar, tók við búskapnum á Kaldárhöfða. Kaldárhöfðabræður þurftu snemma að taka til hendinni. Þeir höfðu ungir misst föður sinn, en studdu móður sína með ráðum og dáð við búskapinn. Þeir voru snillingar að draga björg í bú, ekki síst hvað varðaði silungsveiði í Sogi og Þingvallavatni. Minnisstætt er mér alla tíð þegar Jón sýndi mér stórurriða er hann hafði veitt í Þingvallavatni. Kjartan var einnig snjall veiðimaður og saman hófu þeir bræður veiðar í Þórisvatni fyrstir manna og sönnuðu að vatnið var aldeilis ekki fisklaust! Höfðu þeir veiðina á leigu í nokkur ár við allnokkra öfund. Jón var snjall hagyrðingur svo sem margir vita. Allir höfðu þeir bræður gott skopskyn og naut það sín vel í ýmsum kveðskap Jóns. Kjartani kynntist ég best og mest á ferðalögum, en báðir vorum við áhugamenn um ferðalög og þó helst óbyggðaferðir. Sjálfur átti ég Rússajeppa, en Kjartan Land-Rover. Fjölmargar ferðir fórum við Svava ásamt Kjartani og Ingu og fleira fólki um fjallaslóðir, en hæst ber ferðina um Sprengisand og Gæsavatnaleið árið 1960. þá leið fórum við 10 saman á þremur jeppum, hinn þriðji var Willys-jeppi, sem Sveinn Guðnason stýrði. Á þessum tíma var ekki búið að brúa Tungnaá eða Köldukvísl en vandinn leystur með því að ferja bílana á tunnum yfir Tungnaá við Hald. þetta var mikið ævintýri og ekki vandalaust en gekk allt í haginn. Kjartan var mjög vel að sér um örnefni á hálendinu og feiknafróður um sögur sem tengdust landinu og í einu orði sagt frábær ferðafélagi. Kjartan var vel ritfær og skrifaði ágæta frásögn um ferð þessa í jólablað þjóðólfs fyrir nokkrum árum. Aðra ferð vil ég nefna og ólíka, en það var vorið 1962. Undirritaður hafði fengið ársorlof frá kennslu og við hjónin tókum stefnuna á Finnmörku í Norður-Noregi. Heimsóttum við þar marga heimavistarskóla og fengum frábæra fyrirgreiðslu skólayfirvalda þar. Þaðan lá leiðin aftur til Kaupmannahafnar um miðjan maí og um sama leyti komu Kjartan og Inga með sinn Land-Rover ásamt Arnheiði Böðvarsdóttur frá Efri-Brú og var stefnan tekin á þýskaland og allt til Ítalíu í skemmtireisu. Var þetta í alla staði ógleymanleg ferð og gekk að óskum. Ingunn dóttir Arnheiðar bjó þá í Erlangen ásamt Bergi Jónssyni manni sínum og varð Arnheiður þar eftir.

Kjartan var eins og þeir bræður félagslyndur og var ásamt Ingu konu sinni einn af frumkvöðlum að stofnun félags eldri borgara hér á Selfossi. Er nú skarð fyrir skildi, því fram á þennan dag hafa þau hjónin verið áhugasöm og virk í félagsstarfinu. Betra en ekki var að hafa Kjartan sem fararstjóra og leiðsögumann og er mér minnisstætt hversu vel hann naut sín í ferð til Veiðivatna sumarið 1998 og hversu vel hann leiddi okkur um það sérstaka svæði bæði í sjón og sögu. Nú er hinn síðasti af Kaldárhöfðabræðrum horfinn yfir móðuna miklu. Blessuð sé minning hans og þeirra bræðra.

Ég flyt Ingu og eftirlifandi ástvinum innilegar samúðarkveðjur.

Böðvar Stefánsson