Föðurbróðir minn Kjartan Ögmundsson frá Kaldárhöfða er farinn. Síðastur fjögurra bræðra, fulltrúi íslenskrar bændamenningar í fegurstu merkingu þess orðs. Kjartan var fróður maður, víðlesinn og víðsýnn. Hann var íhugull og vandur að verkum sínum. Eitt af sterkustu persónueinkennum hans var einnig kímni og sterkur glampi augna hans, og brosið þegar eitthvað gaf gamansemi hans tilefni til, tilsvör og þátttaka í alls kyns sprelli. Veiðimaður var hann af ástríðu, einkum til stangveiði, enda alinn upp á bökkum Úlfljótsvatns og Þingvallavatns. Náttúrubarn var frændi, kannski öðru fremur. Hann undi hag sínum vel við berjatínslu á heiðum, en einkum og sér í lagi var hann ferðamaður. Fyrr á árum var hann landkönnuður, meðan hálendið var að mestu ókunnugt og ósnortið nútíma ferðamáta, og alla tíð var landkönnunin sterkur þáttur í ferðamennsku hans, bæði innan lands og utan. Í árbók Útivistar er frásögn hans af ferð yfir Sprengisand og í Vonarskarð. Margar aðrar ferðir eru aðeins í minningu um frásagnir s.s. á Litlu-Heklu. Á efri árum stundaði hann gjarnan ferðir eldri borgara á Selfossi og naut ekki síður en eigin ferða um hálendið sem hann hélt áfram alla tíð. Síðast ferð hans var ferð í Veiðivötn í sumarlok, sem hann sagði okkur frá með gleði og einstöku stolti yfir veiðifeng sonarsonar síns og nafna. Ljósmyndari var frændi með ágætum og tók mikið af myndum á hálendi Íslands á ferðum sínum. Ef til vill speglaðist þetta flökkueðli og ferðaþrá frænda í ævistarfi hans, en hann var bílstjóri hjá Mjólkurbúi Flóamanna um fjölmargra áratuga skeið. Alltaf hélt hann djúpri tryggð við heimahagana og sveitina sína og þrátt fyrir að hafa búið í þéttbýlinu meiri hluta ævinnar naut hann þess mjög að hafa kost á að taka þátt í bústörfum með vinum og frændum í Grímsnesi, heyskap, smölun, hestamennsku.

Minningar hrannast að. Kjartan og Inga buðu okkur systkinununum oft í gistingu á Kirkjuveginum, einnig var sjálfsagt að skjóta yfir unglinginn skjólshúsi færi hann á sveitaball og kæmist ekki heim. Bræðradætur saman í mjólkurbílnum með frænda upp í Þjórsárdal. Frændi í heyskap í Kaldárhöfða, það gekk mikið undan, maðurinn verklaginn og fylginn sér, heyið þyrlast upp í sæti og galta. Einhverntíma kom frændi einnig og vildi vitja um netin í Þingvallavatni í fjarvistum pabba. Og við fórum upp á vatn, stormur á vatninu, átök við að ná netunum, mikið var það skemmtileg ferð. Frændi að kenna áralagið: þú átt að róa hægan, þungan, þéttan og langan - og ekki taka of djúpt í. Ferðalögin við eldhúsborðið í Kaldárhöfða: Breitt úr kortum um eldhúsborðið, sagðar ferðasögur, lýst landslagi og staðháttum. Seinna upplifði ég jafnvel að vita hvernig ætti að aka yfir tiltekna á á ákveðnum stað, svo voru frásagnirnar skýrar og innlifun mín mikil. Myndasýningar voru fastur liður í jólaheimsókn. Seinna þegar ég var farin að ferðast mikið um hálendið sjálf, var jafnan fyrsta spurning frænda þessi: "Þú ert náttúrlega alltaf í Útivist, hvað ertu búin að fara núna nýlega?" Aldrei varð þó úr því að við færum saman yfir Fimmvörðuháls eins og við ætluðum. En okkur tókst þó að hittast einu sinni í Kaldárhöfða, mestöll fjölskylda Kaldárhöfðabræðranna, styrkja fjölskylduböndin og borða saman Þingvallavatnssilung.

Vertu sæll frændi, eftir þig er skarð, sem ekki verður fyllt. Hvíldu í friði.

Kæra Inga, Ég sendi ykkur Elís, Ragnheiði, Önnu, Bjarna, Guðmundi og Báru og fjölskyldum ykkar samúðarkveðjur okkar systkinanna.

Anna Soffía Óskarsdóttir frá Kaldárhöfða