Afi minn Kjartan Ögmundsson lést síðastliðinn laugardag á sjúkrahúsinu á Selfossi. Mér er sagt að kvöldið áður hafi hann séð á veggnum á móts við rúmið fallegt landslag, og þangað trúi ég að hann sé nú kominn.

Ég minnist afa, ýmist á ferðalagi, við fjölskyldan ásamt ömmu, afa og Elís, í veiði eða seinna meir með afa í hestamennskunni. Minningar um ömmu í framsætinu á gamla Land Rovernum með harðfisk og suðusúkkulaði, syngjandi "Ó,ó, óbyggðaferð" á meðan afi og pabbi voru að vaða árnar til að gá hvort þær væru færar. Afi var sannkallaður ferðagarpur, fróður og víðlesinn um náttúru landsins.

Okkur krökkunum þótti mikið sport að fá að fara með honum í vinnuna á mjólkurbílnum. Þá sagði hann gjarna frá nöfnum á fjöllum og ám á leiðinni inn úr og dekraði við mann á leiðinni. Það er fræg setning í okkar fjölskyldu þegar Heimir bróðir var lítill, þá þurfti hann ekki annað en segja "ég er sveittur" þá fékk hann kók.

Á hverjum sveitabæ sem við stoppuðum á í mjólkurferðunum þusti barnaskarinn til hans og lumaði hann þá gjarnan á kókómjólk og gaf sér tíma til að spjalla við þau. Barngæska var honum í blóð borin og þess fengum við að njóta í ríkum mæli. Börn þeirra Elísar og Ragnheiðar voru hans sólargeislar og naut hann þess fram á síðasta dag að vera í samvistum við þau. Það yrði langur listi að telja upp alla mannkosti afa, en greiðvikni, hjálpsemi og manngæska ásamt góðum skammti af elju og dugnaði nálgast kannski að lýsa honum.

Það var afi sem kom því til leiðar að langþráður draumur minn um að komast í sveit rættist, hjá góðu fólki að eystri Pétursey í Mýrdalnum.

Það var líka afi sem kom því til leiðar að draumurinn um að hafa hest á húsi í Reykjavík rættist. Áður var ég búin að vera eins og grár köttur á Selfossi að ríða út með afa og Elísi. En afi útvegaði mér hest til láns eftir að ég hafði lesið að það kostaði jafnmikið að reykja og að reka hest, reykingunum var því fórnað á stalli fyrir hestamennskuna og hef ég ekki enn séð eftir þeim skiptum.

Hestarnir voru vinir og sálufélagar afa, hann umgekkst þá af virðingu, festu og umhyggju. Ég er svo lánsöm að fá að hafa lifandi minningu um afa minn hjá mér, en það er hesturinn hans, Léttir, 14 vetra, stór og stæðilegur, enda alinn á mjólk frá unga aldri. Afi var vanur að hirða dreggjarnar úr mjólkurtankinum og gefa klárnum þegar hann var trippi.

Í vor teymdi afi, þá orðinn veikur, hinn hestinn, Draum, 21 vetra, til aflífunar, en sá hestur fékk 17 góð ár með afa þegar hann fyrir tilviljun lenti hjá honum í biðstöðu eftir að tamningamenn höfðu dæmt hann til slátrunar. Lengi vel gat enginn nálgast hestinn nema afi, hann blés eins og naut á alla aðra. Seinna fékk ég að hafa þennan hest í bænum, eftir að minn hestur heltist. Það var svo sérstakt að hesturinn þekkti mig alltaf, sama hvað leið langur tími milli þess sem ég sá hann, allt uppí sex ár meðan ég var erlendis í námi. Hann þekkti mig líka í vor þegar ég kvaddi hann og sótti Létti.

En núna þegar ég kveð afa minn þá sé ég hann fyrir mér leggja á Hæring, gamla gæðinginn sinn, með Draum í taumi, fara ríðandi á nýjan áfangastað og það er sólskin, fuglasöngur og endalaus náttúrufegurð allt í kringum hann.

Fyrir hönd okkar systkinanna,

Dagný Bjarnardóttir