Í dag kveðjum við Kjartan Ögmundsson, einn af frumherjum björgunar- og slysavarnastarfs á Selfossi, Hann var einn af stofnendum Björgunarsveitarinnar Tryggva á Selfossi fyrir rúmum 30 árum og stóð þar í stafni sem varaformaður í 10 ár.

Á þeim árum voru mörg verkefni leyst af félögum sveitarinnar, sum hver voru erfið og reyndi þá oft á hin mannlegu samskipti. Það var einkar gott að vinna með Kjartani að hinum ýmsu verkefnum. Fölskvalaus gleði hans leyndi sér ekki ef vel hafði til tekist. Og oft fannst mér sem veiðimannseðli hans nyti sín vel. Hann varð nefnilega þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa lært og tileinkað sér þá list veiðimannsins að bregðast við hinum margvíslegu aðstæðum, ásamt góðri greind. Á gleðistundum var hann hrókur alls fagnaðar og kunni þá list að gleðjast með vinum sínum á góðri stundu. Við sem með honum stóðum í þessu minnumst margra ánægjustunda þegar hann var að gefa okkur innsýn í heim bernsku sinnar að Kaldárhöfða. Þar mun hann hafa lært að lesa landið og skynja hver lífsfylling er í því fólgin að ganga um það með virðingu.

Ég hygg að það hafi verið meiriháttar gleðistundir þegar hann gekk að fallegu fjallavatni með veiðistöngina og renndi fyrir fisk.

Með þessum fáu línum þakka ég f.h. björgunar- og slysavarnastarfsins á Selfossi Kjartani hans góðu verk í þágu þess starfs sem hann gekk svo heill að.

Aðstandendum Kjartans Ögmundssonar öllum votta ég dýpstu samúð.

Ólafur Íshólm Jónsson