Elsku pabbi minn, nú er komið að kveðjustund um sinn. Ég er viss um að nú ert þú á góðum stað þar sem við munum síðar hittast og njóta þess að vera saman, en þær stundir í gegnum árin sem við höfum átt hafa gefið mér mikið og mun ég í hjarta mínu geyma þær því minningin um þig, pabbi minn, er svo góð, að um ókomna framtíð mun ég geyma hana í hjarta mínu sem mitt leiðarljós og mun hún veita mér styrk þar til við hittumst á ný.

Ég minnist áranna þegar ég sem lítill drengur fór með ykkur mömmu í ferðalög um landið, oftar en ekki í óbyggðirnar, veiðiferðirnar sem við áttum saman þá og síðan ávallt, árin sem ég átti hestana og þú helltir þér af alefli út í hestamennskuna með mér og hélst áfram að eiga þínar sælustundir með hestunum þínum eftir að ég fór að sinna öðrum hugðarefnum. Ég minnist einnig þeirra stunda þegar þú hjálpaðir mér, með ótrúlegri seiglu, að koma fyrsta húsinu upp sem við Ragnheiður bjuggum í og síðan þeirra ótal stunda sem þú veittir mér aðstoð, við nánast allt sem ég var að fást við í gegnum tíðina. Við ræddum ekki innilega tilfinningar okkar hvors í annars garð í orðum en á milli okkar voru, að mínu viti, sterk bönd sem tengdu okkur tilfinningalega saman og gáfu sterkari skilaboð en nokkur orð hefðu áorkað.

Á svona tímamótum leita minningarnar á mann og tilfinningar sem ég hef ekki fundið í langan tíma sækja á mig en ég hugga mig við það að þú þurftir ekki að liggja lengi inni á sjúkrahúsi, aðeins níu daga, í þessari lokaorustu við krabbmeinið sem lagði jafnvel þig að velli. Mikill skóli hefur verið að lifa með þér þennan tíma, allt frá því að þú fórst í aðgerðina í apríl, eiga með þér sumarið vitandi að tíminn yrði ekki langur, fylgjast með þér síðan síðustu vikurnar þegar sjúkdómurinn lagðist á fullum þunga á þig þar til yfir lauk. Ég veit að þú fórst sáttur við allt og alla, saddur lífdaga, með fullri meðvitund, og skynsemi æðruleysisins þar til kallið kom. Ég er þér ævarandi þakklátur hversu góður og heill þú varst börnunum mínum þremur. Ekki kom til greina annað í hugum okkar Ragnheiðar en fyrsta barnið okkar héti í höfuðið á þér því við erum svo stolt af þér, pabbi minn, að orð fá því ekki lýst. Ávallt gættir þú þess að gera ekki upp á milli barnanna en stundirnar sem þið nafnarnir hafið átt saman, veiðiferðirnar, hesthúsferðirnar og svo endalaust margt annað, munu lifa. Auk þess erum við ólýsanlega ánægð yfir að börnin okkar hafa veitt þér þá auðsýndu gleði og lífsfyllingu sem þú naust síðustu árin. Pabbi minn, þú varst náttúrubarn af guðs náð, enda var í þínum uppvaxtarárum ekki um annað að ræða en lifa af náttúrunni heima í Kaldárhöfða, lifa af því sem landið og vatnið gaf, þér leið best í náttúrunni og teygaðir í þig lífskraftinn með því að ferðast um hana eða við veiðar og munt þú í mínum augum ávallt verða mesti veiðimaður heimsins auk þess sem ég mun að eilífu minnast þín sem heiðursmanns, í víðasta og marktækasta skilningi þess orðs. Nú ert þú síðastur af Kaldárhöfðabræðrunum sem ferð héðan, en ég veit að Ragnar, Jón og Óskar munu nú þegar hafa hitt þig og einnig veit ég að andi þinn mun vera mér og mínum nálægur um ókomna framtíð þannig að ég segi af heilum hug, takk fyrir allt og megi Guð varðveita þig, pabbi minn.

Þinn sonur,

Elís