Egill fæddist 14. október 1925 að Hnjóti. Hann lést 25. október síðastliðinn á heimili sínu.

Foreldrar Egils voru Ólafur Magnússon frá Hnjóti, Örlygshöfn, f. 1. jan. 1900, d. 18. mars 1996, og Ólafía Egilsdóttir frá Sjöundá á Rauðasandi, f. 27. nóv. 1894, d. 20. okt. 1993. Ólafía lærði ljósmóðurstörf hjá Guðmundi Björnssyni landlækni í Reykjavík veturinn 1923-1924 og útskrifaðist frá Ljósmæðraskóla Íslands vorið 1924. Hún starfaði sem ljósmóðir í Rauðasandshreppi í aldarfjórðung eftir að hún lauk námi. Ólafur Magnússon var bóndi á Hnjóti þar sem þau bjuggu allan sinn búskap.

Systur Egils eru: Sigríður, f. 6. des. 1926, húsmóðir í Hafnarfirði, gift Ara Benjamínssyni, f. 15. nóv. 1917, fyrrverandi bifreiðastjóra í Hafnarfirði. Sigurbjörg, f. 12. des. 1929, húsmóðir í Reykjavík, gift Bjarna Þorvaldssyni, f. 3. júlí 1931, fyrrverandi starfsmanni Áburðarverksmiðjunnar í Gufunesi.

Eiginkona Egils er Ragnheiður Magnúsdóttir, f. 1. des. 1926, frá Flatey á Breiðafirði. Þau giftu sig 12. ágúst 1954. Synir þeirra Egils og Ragnheiðar eru: Ólafur, f. 4. mars 1954, var kvæntur Ásdísi Ásgeirsdóttur, f. 25. feb. 1952. Egill Steinar, f. 22. maí 1955, d. 18. júlí 1969. Kristinn Þór, f. 14. apríl 1958, kvæntur Kristínu Valgerði Gunnarsdóttur, f. 3. des. 1962. Gunnar, f. 9. júní 1962, kvæntur Alison Mary Anna Mills, f. 19. okt. 1960. Fyrir átti Ragnheiður Magnús Jónsson, f. 28. mars 1947. Sambýliskona hans er Edda Pálsdóttir, f. 13. sept. 1945.

Útför Egils fer fram frá Sauðlauksdalskirkju í dag og hefst athöfnin kl. 14.

ævi>

Kær vinur og samstarfsmaður er látinn.

Margs er að minnast þegar litið er yfir farinn veg samstarfs okkar Egils. Að leiðarlokum er okkur hjónum og starfsfólki Landgræðslunnar efst í huga söknuður og þakklæti fyrir áratuga vináttu og heilladrjúgt samstarf. Egill var um langt árabil, eða á fjórða tug ára, landgræðsluvörður í Vestur-Barðastrandarsýslu. Gegndi hann því starfi af einstakri elju og dugnaði enda unni hann náttúru landsins og gæðum þess. Hann sá árangur erfiðis síns í stöðvun sandfoks við Sauðlauksdal og Patreksfjarðarflugvöll. Egill naut þess að beisla sandinn og sjá hann gróa og lagði á sig erfiði og ómælda vinnu þrátt fyrir oft á tíðum lítinn skilning margra héraðsbúa á þörfinni fyrir verndun viðkvæms gróðurlendis. Það hefur löngum verið gæfa Landgræðslunnar að hafa í þjónustu sinni ósérplægna og trúa starfsmenn. Þar hefur verið að verki sú framvarðarsveit sem ótrauð axlaði erfiði og lagði grundvöll að betra og fegurra Íslandi. Í þessum hópi var Egill meðal hinna fremstu. Hann var sannur landgræðslumaður.

Hann átti viðburðaríka ævi, lifði og tók ötullega þátt í einu mesta breytingaskeiði þessa lands og var frumkvöðull í ræktun og búskap auk fjölda annarra framfaraspora þjóðfélagsins sem hér verða ekki rakin. Egill var vinsæll og vinmargur og þekktur um allt land sökum einstakrar elju við björgun menningarverðmæta. Þau hjónin voru höfðingjar heim að sækja og það er mikil birta í mínum huga þegar ég minnist hans og samstarfsins. Það var ógleymanlegt að fara um sandgræðslusvæðin fyrst 1959, aftur 1970 og síðan nær árlega og kynnast Agli og viðhorfum hans. Því miður dró úr þessari starfsemi á sviði sandgræðslu í umdæmi Egils nú á allra síðustu árum og þar með ferðum okkar vestur. Þar voru utanaðkomandi öfl að verki sem við Egill réðum ekki við. Áhugi hans og eldmóður í ræktun sandsins dvínaði samt aldrei þó að á móti blési um stund.

Við Oddný vottum Rögnu og börnum þeirra innilega samúð okkar. Megum við öll taka höndum saman og halda áfram að vinna að uppgræðslu lands með minninguna um Egil að leiðarljósi.

Oddný og Sveinn

í Gunnarsholti.

Mánudaginn 25. október sl. fékk ég lítið bréf frá Agli á Hnjóti, er varðaði málefni safnanna. Bréfi sínu lauk hann með hlýlegri kveðju, eins og jafnan og mér þótti vænt um að fá. Ekki síst vegna þess að síðla sama kvöld hafði Kristinn sonur hans samband til þess að tilkynna mér þá harmafregn að Egill vinur minn væri allur. Hefði andast um kvöldið þar sem hann sat við og skráði upplýsingar er vörðuðu sögu héraðsins.

Fallinn er í valinn einstakur og ógleymanlegur vinur, sem aldrei unni sér hvíldar í vinnu sinni að hugsjónum sínum; varðveislu minja frá fyrri tíð og verndun vestfirskrar þjóðmenningar, í þess hugtaks bestu merkingu.

Egill Ólafsson var sprottinn upp úr vestfirskum jarðvegi. Hann fæddist að Hnjóti í Örlygshöfn, bjó þar og starfaði nær allt sitt líf og lést þar á heimili sínu. Í umhverfinu sem hafði fóstrað hann og hann hafði sjálfur glætt með óbrotgjörnu starfi sínu, sem hafði borið hróður hans og byggðarinnar langt út fyrir landsins strendur. Egill kaus sér starf bóndans. Ræktunarmannsins sem unni nábýlinu við móður náttúru, gerði sér grein fyrir möguleikum hennar og var meðvitaður um skyldur bóndans við komandi kynslóðir. Hann var því landgræðslumaður í bestum skilningi þess orðs, ásamt því að búa góðu búi á föðurleifð sinni. Félagslyndur var hann í besta lagi og vildi leggjast á árarnar í þrotlausri baráttunni fyrir framfaramálum, ekki síst í héraði sínu. Oft ræddum við saman um þau mál og deildum áhyggjum yfir erfiðleikum í landbúnaðinum hin síðari árin. Fækkun fólks í sveitum var honum þung raun, en hann var líka meðvitaður um að nútíminn er breytingagjarn og að til þess að lifa af í slíkum heimi þurfum við geiglaus að takast á við breytingarnar. Starf hans verður að skoða í því ljósi.

Löngu áður en ég kynntist Agli hafði ég heyrt sögur af þessum jaxli sem hefði fyrir eigin atorku byggt upp óviðjafnanlegt safn muna, einkanlega úr vestfirskri fortíð. Menn höfðu við orð að þetta væri mesta safn af sínu tagi í eigu einstaklings á Íslandi. Kynni mín af Agli fylltu mig ómengaðri aðdáun á manninum. Þótt rólegur væri að dagfari leyndist manni ekki að þarna fór fullkominn eldhugi. Þegar talið barst að safninu og gildi þess að varðveita hluti frá gengnum tíma kom eldmóðurinn í ljós. Hann var óþreytandi að skýra út þýðingu þessa. Í hvert skipti sem ég kom að Hnjóti og við gengum um safnið fannst mér sem ótæmandi fróðleiksbrunnur birtist. Frásagnir Hnjótsbóndans gæddu fortíðina nýju lífi. Væntumþykjan og aðdáunin sem birtist í orðum hans er hann lýsti afreksverkum genginna kynslóða gleymist ekki þeim sem á hlýddu.

Árið 1973 tók Egill við starfi umsjónarmanns flugvallarins við Patreksfjörð, auk bústarfa. Þar með efldist áhuginn á því að halda utan um vestfirska flugsögu og raunar flugsögu landsins. Hann dró að sér muni sem tengdust sögu flugsins. Og brátt var risið á Hnjóti ótrúlegt flugsafn, sem hann ánafnaði Flugmálastjórn með bréfi. Um starfsemi safnsins var síðar smíðuð reglugerð og er það nú undir umsjón Flugmálastjórnar.

Uppbygging safnanna að Hnjóti hefur vakið undrun margra. En þá er þess að gæta að Egill fór ekki alltaf troðnar slóðir. Stundum var sem ekki væri hann einhamur, svo miklu fékk hann áorkað. Gildi þeirra gripa sem varðveittir eru á safninu er ómetanlegt og þeir bera vitni um að hann var vakinn og sofinn yfir viðfangsefni sínu og lét ekkert stöðva sig.

Lítil saga er til af því. Þáverandi flugmálastjóri sagði Agli að hið merka flugskýli í Vatnagörðum í Reykjavík hefði verið rifið og ætlunin væri að setja það í stálbræðslu. Egill mætti hins vegar eiga það gæti hann sótt það innan hálfs mánaðar. Þá voru góð ráð dýr. En innan hálfs mánaðar hafði Egill séð svo um, að niðurrifið skýlið, sem vó tugi tonna, var komið upp á bíl. Hann samdi við forráðamenn Eimskips um að flytja það án endurgjalds vestur á Patreksfjörð og þaðan var það flutt út í Örlygshöfn. Nú er skýlið loks að rísa, með öflugum styrk stjórnvalda, sem eins og allir aðrir hrifust með eldmóðinum sem fylgdi Agli þegar hann gekk erinda af þessu tagi.

Ég sagði stundum við Egil, að orðið nei væri ekki til í orðabókum hans, þegar kæmi að því að vinna að framgangi safnanna og varðveislu vestfirskrar þjóðmenningar. Ég veit að oft þótti mönnum nóg um hversu duglega hann fylgdi eftir erindum sínum, hvarvetna sem hann gat því við komið. En það er einmitt vegna þessarar árvekni og þrautseigju, að á Hnjóti í Örlygshöfn stendur nú óforgengilegur minnisvarði um ótrúlegt lífsstarf hugsjónamanns, sem bjargaði mörgum dýrgripnum frá glatkistunni. Þannig hefur hann átt ómetanlegan þátt í að skila komandi kynslóðum fróðleik um liðinn tíma. Fyrir það stöndum við öll í ævarandi þakkarskuld.

Egill leit svo á að starf sitt væri til þess fallið að skjóta nýjum stoðum undir atvinnu og mannlíf á Vestfjörðum. Hann gerði sér grein fyrir því, að Vestfirðir hefðu margt að bjóða og sýna. Hugsun hans var því ekki einasta bundin við varðveislu þjóðmenningarinnar. Hann sá starf af þessu tagi sem lið í því að efla byggð, treysta búsetu og búa í haginn fyrir komandi kynslóðir. Þar hafði hann á réttu að standa. Árlegar heimsóknir þúsunda gesta, jafnt innlendra sem erlendra, í söfnin á Hnjóti sýna það og sanna. Sannfærður er ég um að einmitt staðsetning safnanna að Hnjóti, í þjóðbraut þeirra þúsunda sem legga leið sína út á Látrabjarg, skapar í sjálfu sér aðdráttarafl og gefur söfnunum stóraukið gildi.

Með Agli Ólafssyni er nú genginn merkur maður, sem var hollráður vinum sínum og góður heim að sækja. Skyndilegt fráfall hans skilur eftir tómarúm, sem ekki verður fyllt. Ég veit að Egill leit svo á að framundan væri mikilvægt verk við skráningu minja, þar sem hann hlaut að gegna lykilhlutverki. Hann hafði lagt drög að ráðningu fasts menntaðs starfsmanns og hlakkaði til þess vinna að því að koma safngripum fyrir í nýbyggingunni. Hann sá líka fyrir endann á miklum áföngum. Vígsla flugskýlisins og nýbyggingarinnar er áformuð að sumri. Nú verður hann fjarri blessaður, sem drýgstan hlut átti að máli.

En þótt við samferðamennirnir söknum nú vinar í stað er mestur harmur kveðinn að Ragnheiði Magnúsdóttur konu hans, sonunum, eiginkonum þeirra, barnabörnum og ættmönnum öðrum. Egill og Ragnheiður bjuggu í ástríku hjónabandi í nær hálfa öld. Hennar hlutur í uppbyggingunni á Hnjóti var ómetanlegur, þótt ekki bæri alltaf mikið á því. Ég flyt þeim öllum hugheilar samúðarkveðjur mínar og fjölskyldu minnar og vona að minningin um einstakan heiðursmann megi verða þeim styrkur í þeirri raun sem ótímabært fráfall hans veldur.

Einar K. Guðfinnsson.

Snögg umskipti hafa orðið í hinu fámenna samfélagi í Rauðasandshreppi hinum forna.

Einn af burðarásum byggðarlagsins, Egill á Hnjóti, er horfinn úr þessari tilveru án þess þó að hafa sýnt neinn bilbug eða þreytumerki allt fram til hinstu stundar. Það tekur tíma fyrir samferðafólkið að átta sig og eru þessar línur færðar á blað til þess að staðfesta fyrir sjálfum okkur hvernig komið er. Egill tók við búi foreldra sinna á Hnjóti um miðja öldina og þótti snemma ötull og framfarasinnaður, svo að eftir var tekið. Af mikilli framsýni byggði hann upp öll útihús á jörðinni og stórt íbúðarhús að auki. Tæknina tók hann í þjónustu sína með fyrstu mönnum og rak sitt bú yfirleitt af slíkum stórhug og myndarskap að til var tekið langt út fyrir heimasveit.

En þó að Egill væri mikilvirkur í sínu starfi kom það ekki í veg fyrir virkni hans í félagslífi sveitarinnar, og má þar margt til nefna, svo sem landbúnaðarmál og almenn sveitarmál. Þá starfaði hann af alhug í Slysavarnadeildinni Bræðrabandinu, bæði inn á við og kom fram sem fulltrúi þess út á við, ef eftir því var leitað. Horfði hann þá ekki í að greiða sjálfur kostnað af þeim ferðum, þar sem hann þekkti sjálfur fjárhag deildarinnar, sem var ekki sterkur.

Þá er ógetið þess sem borið hefur hróður Egils víðast, en það er uppbygging minjasafnsins, sem við hann er kennt og gefur öllum þeim sem fara um þennan vestasta kjálka Evrópu innsýn í það líf, sem lifað var öldum saman í nánu sambýli við sollið haf og hamraflug. Óhætt er að fullyrða að öllu værum við fáfróðari, ef ekki alls ófróð, um þá hluti ef Egill hefði ekki unnið sitt dýrmæta björgunarstarf. Með starfi þessu sýndi hann ekki aðeins þeim kynslóðum,sem á undan höfðu gengið, sína dýpstu virðingu, heldur helgaði hann með þessu gyðju þekkingarinnar og viskunnar krafta sína af heilum hug. Egill var nefnilega forvitinn maður, í jákvæðustu merkingu þess orðs. Fróðleiksöflun var honum ástríða, en ekki var honum síður annt um að deila þekkingu sinni með öðrum.

Er nú brýnt að eftirkomendur haldi því til haga sem Egill aflaði, leggi rækt við það, auki það og efli, svo að komandi kynslóðir geti sem allra best kynnt sér lífshætti hinna stritandi forfeðra okkar í fjörðum vestur.

Eftirlifandi kona Egils er Ragnheiður Magnúsdóttir, ættuð úr sveitum Borgarfjarðar, og eru þrír synir þeirra á lífi, Ólafur, Kristinn Þór og Gunnar. Fjórði sonurinn, Egill Steinar, lést af slysförum á fermingarárinu sínu og var það mikið áfall fyrir foreldra, föðurforeldra, bræður og alla aðra aðstandendur. Foreldrar Egils, Ólafur og Ólafía, voru á Hnjóti meðan aldur entist. Nutu þau því samvista við son og barnabörn til æviloka og veittu í staðinn fjölskyldunni margháttaðan stuðning af mikilli gleði og fórnfýsi. Var það mikil gæfa fyrir Egil og fjölskyldu hans.

Við Hænvíkingar minnumst Hnjótsheimilisins með sérstakri þökk, er óhætt að segja að svo gott hafi verið á milli fjölskyldnanna að aldrei hafi borið skugga á. Hann var hjálparhella og stuðningsmaður í hverju sem á gekk, þó að stundum virtist hann eiga fullt í fangi með sín eigin viðfangsefni. Við hlið hans stóð hans hjartkæra eiginkona, Ragnheiður Magnúsdóttir, sem nú syrgir eiginmann sinn látinn, sjálf farin að kröftum og heilsu eftir erfiðan en farsælan starfsdag. Sem dæmi um lipurð og skjót viðbrögð Egils skal hér tilfærð ein dæmisaga. Hann starfaði um langt árabil sem flugvallarstjóri við Patreksfjarðarflugvöll, og eitt sinn þurfti bráðveikur sjúklingur að komast undir læknishendur suður til Reykjavíkur. Flugvél hafði verið pöntuð að sunnan, en vegna illviðris hafði hún orðið að snúa frá flugvellinum í Sandodda. Flugvallarstjórinn, Egill, sem var í sjálfu sér ekki aðili að málinu, tók málið að sér og segir: "Við prófum Hörð á Ísafirði." Hann lét ekki sitja við orðin tóm, hringdi norður og gaf Herði upp veður, sem ekki var gott. Eftir ótrúlega skamma stund var Hörður lentur á Patreksfirði, svo að sjúklingurinn fékk sína hjúkrun í tæka tíð.

Er þetta lítið dæmi um einurð Egils og hjálpsemi og væri hægt að segja slíkar sögur af honum án enda. Orðs er gjarna vant þegar miklir atburðir eiga sér stað. Nú höfum við kvatt þennan ótrauða brautryðjanda og trausta samferðamann. Hafi hann heila þökk fyrir alla sína hjálpsemi og allt annað sem hann hefur á sig lagt til þess að bæta umhverfi sitt. Samúðarkveðjur flytjum við Ragnheiði og sonunum sem sjá nú á bak ástríkum eiginmanni og umhyggjusömum föður. Megi huggarinn mikli veita þeim svölun í sorg sinni og gera þeim auðveldara að takast á við tómleikann, sem gjarna fylgir öllum ástvinamissi.

Hænvíkingar.

Mig langar til að rita hér nokkur kveðjuorð um látinn vin minn Egil Ólafsson, bónda og safnvörð á Hnjóti í Örlyshöfn.

Kynni okkar Egils eru orðin löng og hafa verið farsæl alla tíð enda sameiginleg áhugamál efst á baugi þegar fundum okkar bar saman.

Fyrst kom ég að Hnjóti 1963 með Lúðvík Kristjánssyni rithöfundi þegar við vorum að vinna að gerð hins mikla ritverks "Íslenzkir sjávarhættir". Sá fróðleikur og frásagnarlist sem Egill og faðir hans Ólafur miðluðu okkur var ómetanlegur. Minni Egils var einstakt, og það sem hann mundi um þá fágætu hluti sem eru í safni hans var með ólíkindum.

Allar þær ferðir sem við Egill fórum um nærliggjandi svæði voru ævintýri líkastar því hann þekkti sögu og mannlíf á hverri þúfu. Hinn eldheiti áhugi hans á að safna og halda til haga gömlum munum sem hendur horfinna kynslóða höfðu handfjatlað, var einstakur og ómetanlegur fyrir þjóðina. Hann var einn af þeim mönnum sem lét engar hindranir, eins og öfund og fordóma, standa í vegi fyrir sér, þegar hagsmunir safnsins voru annars vegar. Safnið á Hnjóti er í dag orðið eitt af merkustu söfnum landsins og þótt víðar væri leitað. Þarna er að finna hluti sem hvergi eru til annars staðar. Það var ekki alltaf dans á rósum að útvega fjármagn til nauðsynlegra framkvæmda, og skilningur ráðamanna oft lítill eða enginn. En Egill var þakklátur fyrir það sem hann fékk, og gat þá séð árangur erfiðis síns.

Þeir sem hafa áhuga á menningararfi okkar og lífi horfinna kynslóða, eiga oft undir högg að sækja, vegna skilningsleysis þeirra sem ráða fjármagninu.

Með fráfalli Egils Ólafssonar er horfinn einn af merkustu mönnum okkar á þessari öld og er það einlæg von mín að þjóðin beri gæfu til að sjá um að minjasafn hans verði komandi kynslóðum til góðs og varðveiti minningu mikils manns.

Að lokum færi ég og kona mín, ástvinum Egils okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Bjarni Jónsson listmálari.

Kveðja frá Félagi íslenskra safnmanna

Í Félag íslenskra safnmanna hafa ratað menn af ýmsum toga. Þarna eru jafnt sprenglærðir fræðingar sem brennandi áhugamenn úr héraði, menn af ólíkum uppruna og á ólíkum aldri. En öllum er þeim sameiginlegur óseðjandi áhugi á sögu lands og lýðs, atvinnu- og búsháttum, menningarminjum, og umfram allt því fólki sem hefur búið í þessu landi, á sambýli fólks og lands fyrr og síðar. Flestir vinna við söfn af einhverju tagi og kynslóðirnar hafa borið gæfu til að ræðast við og vinna saman, hver sem undirstöðumenntunin er, læra hver af annarri.

Í þessum hópi eru nokkrir eldhugar sem verða öðrum minnisstæðari, vegna þess hversu sérstætt lífsverk þeirra hefur orðið, vegna þess að þeir hafa haft orku til að hlúa að þeim verðmætum sem ekki verða umsvifalaust látin í askana en skila sér til lengri tíma, vegna þess að þeim hefur tekist, oft nánast af eigin rammleik einum, að byggja upp þá minnisvarða sem geta orðið nokkur kjölfesta íslenskri þjóðarvitund á tímum mikilla breytinga og mikillar alþjóða- og gróðahyggju.

Einn þessara góðu manna er nú genginn, Egill Ólafsson á Hnjóti. Áhugamál hans voru víðfeðm. Auk búskaparins vestra vann hann bæði að samgöngumálum og landgræðslu- og náttúruverndarmálum um langa hríð. En auðvitað verður hans þó fyrst og fremst minnst fyrir safnið á Hnjóti. Safnið var formlega opnað 1983, en safn verður aldrei til í einni sjónhendingu. Egill hafði vitaskuld lengi dregið að gripi, einkum þá sem tengdust sjósókn og búskap - og svo kom hann þarna upp fyrsta flugminjasafni á Íslandi. En hann safnaði ekki aðeins munum og minjum úr sveitinni heldur og sögulegum fróðleik og frásögnum, og það sýnir best framsýni Egils, að hann lét setja nokkrar merkar frásagnarheimildir héraðsins á vefsíðu safnsins þar sem þær hafa verið aðgengilegar öllum netvæddum áhugamönnum. Þó að söfn sem það á Hnjóti segi kannski óskipulega þjóðarsögu, eru þau þó kjarni þess sem öll fróðleiksmiðlun og öll fræðimennska á þessu sviði mun síðar styðjast við. Og - gleymum ekki einu: héðan af vita allir hvar Hnjót við Örlygshöfn er að finna.

Félag safnmanna varð til fyrir 18 árum og gerðist Egill á Hnjóti fljótt félagi. Þar reyndist hann lifandi og áhugasamur þátttakandi og mörgum mun minnisstæð sú kurteisi sem honum var í blóð borin en ýmsum gengur illa að tileinka sér á langri ævi. Fyrir rúmum áratug hóf félagið að standa fyrir farskóla, sem eru nokkurra daga námsstefnur, haldnar árlega að hausti, sóttar hvaðanæva af landinu og haldnar víða um land. Í haust áttum við góða daga í Borgarfirði, þar sem Egill átta drjúgan þátt í því að sú dagskrá sem þar var skipulögð, blönduð fróðleik og skemmtan, tókst svo vel. Á næsta ári verður skólinn haldinn í menningarborginni Reykjavík, en síðan hafði Egill boðið að farskóli Safnmannafélagsins yrði þar næst haldinn á hans heimaslóðum. Mennirnir gera sínar áætlanir en Guð ræður. Og hvar sem sá skóli verður haldinn, mun andi Egils svífa þar yfir vötnunum og hans verða minnst fyrir sitt mikilsverða frumherjaverk.

Blessuð sé minning Egils safnvarðar á Hnjóti.

Þóra Kristjánsdóttir.

Með Agli á Hnjóti er genginn merkur brautryðjandi og hugumstór hugsjónamaður sem skilur eftir sig ómetanlegt ævistarf fyrir sveit sína og íslenskt samfélag. Það sýnist ekki langur tími frá því Egill hóf að safna munum og minjum, sem verið höfðu uppistaðan í daglegum störfum forfeðranna, en voru óðum að hverfa, og hver að verða síðastur að taka þá og geyma. Þegar ég kom fyrst að Hnjóti voru safngripirnir á efri hæð íbúðarhússins. Það var einstök og ógleymanleg upplifun að skoða safnið í samfylgd Egils, njóta leiðsagnar hans og skynja einlæga gleði hans yfir að hafa bjargað þessum þjóðlegu verðmætum frá glötun. Árin liðu og safnið óx og er nú orðið slíkt að umfangi og orðspori að erfitt er að hugsa sér Vestfirðinga án þess. Með óþrjótandi áhuga og eljusemi náði Egill ótrúlegum árangri og lyfti byggðarlagi sínu og Vestfjörðum öllum í vitund þjóðarinnar. Straumur ferðafólks sem leggur leið sína vestur á firði vex með hverju árinu og mér segir svo hugur um að safnið á Hnjóti eigi stóran hlut þar í. Það má vel vera að allir, sem hlut eiga að máli, séu ekki búnir að gera sér grein fyrir þessum mikilvæga þætti málsins. Nú reynir á vestfirska og aðra íslenska ráðamenn að þeir sjái til þess að hið mikla brautryðjendastarf verði ekki látið koðna niður að Agli gengnum, þess í stað verði haldið áfram hinu merka söfnunar- og varðveislustarfi, óbornum kynslóðum til ómetanlegs fróðleiks um íslenskt þjóðlíf fram að dögum tæknibyltingarinnar sem hélt innreið sína á fyrri hluta þessarar aldar.

Vinátta okkar Egils óx með árunum og tilfinning mín frá okkar fyrstu kynnum um hjartahlýju hans, einlægni og vinfestu styrktist. Þar fór maður sem var vinur vina sinna og lét sig ekki muna um að rétta hjálparhönd þar sem því varð við komið. Hann var óhræddur við að mæta mótspyrnu. Þegar hann barðist fyrir framgangi þess sem hann bar fyrir brjósti, var hann jafnframt búinn lagni, sveigjanleika og lipurð til þess að takast á við hvers konar andspyrnu og erfiðleika og ná sínu fram að lokum án þss að skugga bæri á mannleg samskipti.

Egill stóð ekki einn í sínu mikla þjóðnytjastarfi. Við hlið hans stóð eiginkonan, Ragnheiður Magnúsdóttir, hverrar hlutur er ekki smár. Ég færi henni og fjölskyldunni samúðarkveðjur okkar hjóna.

Örlygur Hálfdanarson.

Við Egill Ólafsson á Hnjóti höfðum þekkzt í rúm 35 ár, allt frá því ég kom fyrst að Hnjóti vorið 1964 og naut þar alþekktrar gestrisni þeirra hjónanna Ragnheiðar Magnúsdóttur og Egils og vináttu og greiðvikni heimilisfólksins alls. Þá varð mér ljóst hið mikilsverða menningarstarf Egils við að bjarga minjum og heimildum um mannlíf og sögu byggðarlags síns, þar með þjóðarinnar allrar. Margt var í heimili á Hnjóti, þar voru þá einnig gömlu hjónin foreldrar Egils, Ólafur Magnússon og Ólafía Egilsdóttir, hann fæddur þar en hún var frá Sjöundá á Rauðasandi. Þau kunnu margt að segja frá lífi og lifnaðarháttum fyrri tíðar fólks vestur þar, höfðu búið á Hnjóti langa hríð en nú látið bú í hendur syni og tengdadóttur og áttu enn mörg ár ólifuð.

Egill tók fræðaáhuga í arf. Hann var búfræðingur frá Hvanneyri og bjó hér góðu búi, enda Hnjótur mesta búskaparjörð í sveitinni eins og nú var komið. En hann átti sér áhugamál jafnhliða búskapnum, söfnun og varðveizlu hvers kyns muna frá lífi fólks og fyrri búskaparháttum þar um slóðir. Agli var þó ekki aðeins umhugað að safna gripum og varðveita, heldur aflaði hann heimilda um sögu þeirra og notkun. Öllu þessu hélt hann til haga og var þá orðinn manna fróðastur um líf og sögu fólks þar vestra þótt enn væri ungur að árum. Safngripina varðveitti hann á efri hæð í íbúðarhúsinu á Hnjóti, í skápum undir súð og hvar sem fyrir varð komið. Gaman var og fróðlegt að heyra Egil skýra frá og sýna muni sína. Margt var þarna nýstárlegt og margt lærði ég þá, mér áður ókunnugt.

Ég dvaldist nokkra daga þar á Hnjóti og Egill sýndi mér sveitina. Það var mikils um vert að kynnast þeirri kynslóð sem síðust lifði þar við forna búskaparháttu, heyra til dæmis frásagnir Látrabænda af bjargsigum, eftir fugli og eggjum eða með fé í fitubeit í Bjarginu. Egill þekkti þetta einnig vel, hafði sjálfur ungur að árum átt hlut að hinu mikla björgunarafreki er togarinn Dhoon fórst undir Bjarginu, og síðar er togarinn Sargon strandaði undir Hafnarmúla, og verða þau atvik lengi í minnum höfð. Egill gerði ekki mikið úr sjálfs sín afreki við þessar aðstæður, en síðar beitti hann sér fyrir því að reistur var minnisvarði þar við safnið á Hnjóti um þessi sjóslys og þá er fórust.

Agli var einkar lagið að ræða áhugamál sín, og mér var ávallt til mikillar uppörvunar að ræða við hann. Hann naut þó líklegast ekki almenns skilnings framan af við söfnun sína, enda voru eldri kynslóðir frekar aldar upp við að fórna kröftum sínum til brýnustu lífsbjargar. Hann gat hins vegar leyft sér að eiga þessa tómstundaiðju, söfnunin jókst jafnt og þétt og brátt gat loftsrýmið í húsinu á Hnjóti ekki tekið við meiru. Þá var ráðizt í byggingu sérstaks safnhúss, enda naut Egill nú styrks heimahéraðs. Safnið hlaut og viðurkenningu sem raunverulegt byggðasafn og Egill fékk sjálfur ýmsa viðurkenningu á opinberum vettvangi. Margur vildi styrkja hann í verki sínu, enda varð hann brátt víðkunnur fyrir safnið. Hann kynntist mörgum, ekki sízt er hann var orðinn flugvallarstjóri á Patreksfjarðarflugvelli. Margur hvatti hann og sífellt færðist hann meira í fang, og hann lagði í stórvirki sem flestir aðrir hefðu veigrað sér við.

Í safnið á Hnjóti koma þúsundir gesta árlega. Á sumrum er mikil umferð fólks vestur á Látrabjarg. Þá er farið um hlaðið á Hnjóti, þar stanza menn og skoða safnið og þá ræddu menn við Egil. Margur nefndi þá ánægju er hann hefði af að koma í safnið að Hnjóti.

Fyrir nokkrum árum afhentu þau Egill og Ragnheiður Vestur-Barðastrandarsýslu safn sitt, er síðan ber hið formlega nafn Minjasafn Egils Ólafssonar. Egill bar safnið samt sem fyrr mest á sínum herðum og sá um vöxt þess og viðgang. Hann gerði þó enn meira, stofnaði flugminjasafn á vegum Flugmálastjórnar og þótti þó ýmsum sem ofverk væri í reynd einum manni að standa undir því stórræði. En Egill hafði óbeygðan áhuga og vilja, hafði gott lag á að fá menn til liðs, því kom hann mörgu í verk sem fáir aðrir hefðu náð.

Egill stefndi að því að nýir menn tækju við umsjón safnsins. Hann vissi manna bezt að enginn yrði eilífur og hann vildi sjálfur geta fengið öðrum verk sitt í hendur.

Aðrir munu taka upp merkið en ekki verður nú kölluð fram sú þekking sem Egill bjó einn yfir. Þótt margt væri um safnið skráð og komið í bækur er hitt þó margfalt meira sem hann vissi einn og hvergi komst á blað eða bók. En örlögin gripu þá svo skyndilega inn í.

Við Egill ræddum oft saman í síma og hittumst stundum. Hann ræddi þá helzt um safnið og viðgang þess, skýrði frá því sem honum hafði orðið ágengt eða leitaði ráða og aðstoðar. Oft var hann þó sjálfur búinn að finna leiðir og ákveða og hvikaði þá lítt frá því sem hann taldi réttast.

Síðast kom ég að Hnjóti fyrir rúmu ári. Þá hafði Egill orðið var við leifar af skipsflaki undir Hafnarmúla, sem hann hafði áður óljósar hugmyndir um. Hann var ekki í rónni nema tækist að ná upp þessu vogreki, sem hann taldi að gæti verið frá 18. öld. Við vözluðum þarna, Egill og Kristinn sonur hans, í hnédjúpu vatni í Vaðlinum og komum böndum á flakið sem síðan var híft á land. Mikil var gleði safnmannsins Egils er þessir skipsviðir náðu að komast heim á hlað á Hnjóti og hann gat búið þeim stað. Þótt menn stæðu votir og fengju yfir sig gusur gerði hann að gamni sínu er heim var komið, ánægður yfir enn einum feng, einu smábroti úr menningarsögu þjóðarinnar, er sér hefði tekizt að bjarga úr klóm eyðileggingarinnar.

Nú er hann brottu kallaður, að okkur finnst langt um aldur fram, því að hann var í miðjum klíðum starfsins og virtist óbilaður að heilsu og kjarki. En enginn veit sitt skapadægur.

Egill Ólafsson færði stoðir undir menningararf þjóðar sinnar. Starf hans má verða okkur mörgum til eftirbreytni. Þjóðminjavarzlan á honum mikið að þakka.

Þór Magnússon.

"Skjótt hefur sól brugðið sumri." Svo orti Jónas við hið snögga og óvænta fráfall Bjarna vinar síns Thorarensen. Þessa minntist ég, er mér var tilkynnt hið snögga og óvænta fráfall Egils, á þriðja degi vetrar, degi, sem hann gekk glaður og reifur til starfa, en að snöggu augabragði var hann allur að kvöldi.

Flugvöllurinn á Sandodda hafði ekki verið lengi í notkun, þegar Egill tengdist honum og flugi til Patreksfjarðar. Það var árið 1973, og hafði gengið á ýmsu um flug þangað, og oft snúið frá vegna veðurs. Í framhaldi af því var Egill beðinn um að taka að sér rekstur vallarins sem flutvallarvörður, sem og talstöðvarviðskipti við flugvélar, sem þangað komu. Þarna getur orðið vindasamt, og varasamt í sumum áttum. Engar reglur voru um hámarksvind. Egill útbjó vindrós, með takmarkandi hámarki í vissum áttum, sem enn er notast við að mestu leyti. Með þessum ráðstöfunum, ásamt veðurgleggni og góðum veðurlýsingum, mátti heyra til undantekninga, ef farþegaflugvélar Flugfélags Íslands, og síðar Flugleiða, þyrftu að snúa frá. Ef ekki var fært, var beðið lags. Sjálfur kynntist ég nákvæmni Egils þremur árum síðar og næstu átta ár, er ég starfaði við innanlandsflug Flugleiða. Hann naut mikils álits flugstjóra Flugleiða. Ég minnist þess, er ákveðinn flugvallarvörður hafði gefið veðurlýsingu, sem ekki stóðst, svo menn urðu að snúa frá, þá sagði einn "kollegi": "Já, en hann er nú heldur enginn Egill." En burtséð frá farþegafluginu, þurfti að vaka yfir sjúkra- og neyðarflugi, vera viðbúinn dag og nótt, og flugvöllur og tæki hans að vera í lagi.

Ég hygg, að flugmenn hafi fáa átt tryggari að vinum en Egil og fjölskylduna að Hnjóti. Hann tók þeim öllum jafn ljúfmannlega, og ef menn þurftu að bíða, þá bauð hann heim, og mátti raunar segja, að þau hjónin sætu um þjóðbraut þvera. Þar stjórnaði Ragnheiður þeirra stóra heimili með einstakri rausn og skörungsskap, og aldrei minnst á borgun. Mörg börn voru þarna í fóstri, m.a. margra flugmanna. Hef ég þar sjálfur mikið fyrir að þakka.

Egill var löngu þekktur af minjasöfnun sinni. Söfnun varð snemma hans ástríða - og köllun. Framan af varð hann að geyma allt heima hjá sér. En í júní 1983 opnaði forseti Íslands Minjasafn Egils. Það var stór stund - og áfangi. Síðar stofnaði hann hið einstæða Flugminjasafn Egils Ólafssonar. Þar er verið að leggja lokahönd á uppsetningu hins þýska Junkers-flugskýlis, sem Flugfélag Íslands nr. tvö reisti í Vatnagörðum laust fyrir 1930. Fjölmörg voru framleidd, en þetta mun vera hið eina varðveitta - í öllum heiminum.

Egill var ótrúlega ráða- og úrræðagóður. Hvort sem um var að ræða að koma þrjátíu tonna tréskipi í hlað, sem lið í atvinnusögunni, eða setja upp stýrishúsið af seglskipinu Hammoníu, sem sr. Stefán Eggertsson tók í notkun á Þingeyrarflugvelli. Margir efuðu, að honum tækist margt. Sjálfur efaðist ég um, að honum tækist að bjarga flugskýlinu, og reisa það. En orðið "ómögulegt" var ekki viðurkennt í hans orðasafni. Mikill tími fór einnig í að halda söfnunum fjárhagslega á floti, og gekk á ýmsu. En allt var að snúast til betri vegar. Ég hringdi í hann á sl. afmælisdegi hans, það var sem honum hefði vaxið ásmegin við stuðning nýrra yfirvalda, flugskýlið væri í lokafrágangi, og nýr safnvörður væntanlegur, sem hann gæti þjálfað og sagt til. Honum svall hugur í brjósti.

"Skjótt hefur guð brugðið gleði góðvina þinna." Víst er vinum hans brugðið. Hinn mikli fróðleikur og öll skráning hans, sem framundan var, er glatað. En þakka ber hans góða dagsverk og samfylgd alla. Það sannast á Ragnheiði orð skáldsins: "Maðurinn einn er ei nema hálfur." Hún var hans örvun og drifkraftur. Henni, og vandamönnum öllum, votta ég dýpstu samúð.

Ámundi H. Ólafsson.

Í örfáum orðum langar mig til að heiðra minningu Egils Ólafssonar á Hnjóti. Með honum er farinn hluti íslensks fróðleiks. Ég var svo lánsamur að kynnast Agli fyrst sem leiðsögumaður á Íslandi. Hann uppfræddi mig um margt og síðar meir varð samvinna okkar meiri þegar við unnum að kvikmynd fyrir franska sjónvarpið "Íslandsmenn" sem var sýnd hér nýlega. Ég kunni að meta einlægni hans og glaðværð. Þrátt fyrir söknuð minn vil ég geyma í huga mér mynd af manni sem var örlátur og athugull. Hann var stoltur af safninu sínu sem hann hafði komið upp af mikilli nákvæmni. Ákveðni hans að varðveita þjóðararfinn var einstök. Á okkar tímum þar sem allt viðgengst, þá vissi hann betur en nokkur maður hvað þýddi "skylda okkar gagnvart þeim látnu".

Ég kveð þig að hætti Jónasar Hallgrímssonar: "Adieu, l'ami", Egill.

Ég og franska kvikmyndaliðið sendum Ragnheiði Magnúsdóttur okkar innilegustu samúðarkveðjur og þökkum henni enn á ný fyrir gestrisni hennar.

Jean-Yves Courageux.

Í dag er Egill Ólafsson safnvörður á Hnjóti borinn til grafar. Ég kynntist honum fyrst þegar hann var flugvallarstjóri á Patreksfirði og leiðbeindi sjúkraflugvélum niður á flugvöllinn gegnum ýmis veður. Yfirgripsmikil þekking hans á veðurfari á þessum slóðum nýttist þá vel og í vondum veðrum réð reynsla hans oft úrslitum. "Varla er það gott, en engan drepur það," sagði hann stundum við slíkar aðstæður og var þá að vitna í gamlan sjómann á Patreksfirði, sem var að leggja út í tvísýnt veður og leist ekki meira en svo á blikuna. Þetta góða skynbragð hans á veður tengdist stærsta áhugamáli hans, atvinnu- og byggðasögu þjóðarinnar. Hann var safnari af guðs náð og honum tókst með ótrúlegum dugnaði að setja á stofn heilsteypt minjasafn um atvinnuhætti liðinna tíma.

Framsýni hans í þessum efnum var með eindæmum. Margir hristu höfuðið í forundran þegar hann hirti gamla flugskýlið á Patreksfirði, sem átti að fara að rífa, og flutti það heim að Hnjóti. Hann einn áttaði sig á því að hér var um að ræða eitt af fyrstu sérsmíðuðu flugskýlum landsins og þess vegna verðmætan safngrip. Þetta flugskýli var upphafið að flugminjasafni hans, sem nú er landsfrægt orðið. Þegar varðveisla minja var annars vegar átti hugmyndaauðgi hans sér engin takmörk. Það þarf meira en meðalmann til að láta sér detta í hug að kaupa úr sér gengna rússneska flugvél og láta lenda henni á söndunum í Örlygshöfn, draga hana síðan heim að safni og hafa þar til sýnis. Þessi flugvél stendur þarna enn og dregur að sér athygli allra sem eiga leið um staðinn. Við söfnun sína þurfti Egill að hafa samskipti við marga og með ljúfmennsku sinni átti hann auðvelt með að fá fólk á sitt band. Hann safnaði ekki aðeins gömlum munum heldur einnig frásögnum af lifnaðarháttum fyrr á tímum og skráði þær niður. Síðasta verk Egils í lifanda lífi var að skrá niður sögur af vegavinnu á Vestfjörðum. Söfnin tvö á Hnjóti eru árangurinn af ævistarfi hans og munu þau halda nafni hans á lofti um ókomin ár.

Hallgrímur Magnússon, læknir, Grundarfirði.

Þær sorgarfréttir bárust okkur í síðustu viku að hann vinur okkar Egill á Hnjóti væri látinn. Við höfðum ekki þekkt Egil lengi en mátum það mikils að hafa fengið að kynnast honum. Hann var höfðingi heim að sækja og þar átti ekkjan hans, Ragnheiður, stóran þátt. Egill tilheyrði þeirri kynslóð manna sem voru brautryðjendur í íslenskum safnamálum og beinlínis björguðu verðmætum frá glötun. Slíkir menn voru og eru safnarar af lífi og sál eins og sést best á Minjasafninu á Hnjóti. Egill var gæddur þeim fágæta eiginleika að drífa fólk með sér og vekja hjá því áhuga á því sem hann var að fást við. Nú mun minjasafnið hans standa sem minnisvarði um elju og dugnað þessa merka manns. Að standa á Hnjóti og horfa yfir söfnin hans vekur með manni undrun og aðdáun á því hvað hægt er að gera þegar viljinn er fyrir hendi. Auðvitað gerði hann þetta ekki alveg einn, hann naut trausts stuðnings fjölskyldu sinnar og vina.

Við gleymum því seint þegar við komum að Hnjóti fyrsta sinni. Okkur var tekið með kostum og kynjum, og að góðum og gömlum sið vorum við spurðir hverra manna við værum. Það kom strax í ljós að hann vissi meira um ættir okkar en við sjálfir og fann m.a. út að amma annars okkar væri Barðstrendingur, sem honum þótti góðar fréttir. Undanfarin ár ferðuðumst við um Vestfirði að skoða fornleifar og annað skemmtilegt. Fórum við víða og sáum margt. Þekking Egils var með eindæmum og dýrmætt fyrir okkur unglingana að fá að njóta nærveru hans og reynslu. Þessum ferðum ætluðum við að halda áfram um alla eilífð, en án Egils er ljóminn farinn af slíkum ferðum.

Okkar síðustu samvistir með Agli voru á Farskóla íslenskra safnmanna þar sem hann lék á als oddi. Þar brölluðum við margt og hlógum að skoplegum hliðum mannlífsins. Þannig viljum við minnast Egils, eldhugans sem gat líka séð skoplegu hliðarnar á lífinu.

Við færum ekkju hans, börnum og vinum okkar innilegustu samúðaróskir og kveðjum hann með þessum ljóðlínum, sem leiknar voru við minningarathöfn hans.

Þú fagra minning eftir skildir eina,

sem aldrei gleymist, meðan lífs ég er.

Magnús S. Sigurðsson, Bjarni F. Einarsson.

...

reistu í verki

viljans merki, -

vilji er allt, sem þarf.

(Einar Benediktsson.)

Þessar ljóðlínur úr Íslandsljóði Einars Benediktssonar koma ósjálfrátt upp í hugann þegar minnst er Egils Ólafssonar á Hnjóti. Hann hefur sýnt okkur það í gegnum árin að vilji er allt sem þarf. Þessi orð eru lýsandi fyrir lífsstarf hans og hugsjón að safna munum og minjum úr sögu okkar Íslendinga til að þeir sem á eftir koma geti betur gert sér grein fyrir lífi og starfi genginna kynslóða. Fyrir þrautseigju og dugnað Egils í gegnum árin eigum við eitt besta minjasafn landsins hér í Örlygshöfn, safn sem ber nafn Egils Ólafssonar og mun bera vitni um ókomin ár framsýni hans og áhuga á sögu okkar.

Ég kynntist Agli fyrst sem fræðimanni þegar nemendur í leiðsögunámi á Vestfjörðum komu í heimsókn á safnið til hans vorið 1994. Hann leiddi okkur um safnið og sagði okkur sögur af hlutunum sem þar voru til sýnis og sagði okkur frá mörgu forvitnilegu. Það var auðséð á öllu að þar fór maður sem unni starfi sínu og hafði á því brennandi áhuga og vildi fræða aðra um það sem fyrir augu bar. Síðan hafa kynni okkar Egils aukist í gegnum ferðaþjónustuna og nú síðast sem samstarfsaðilar í stjórn Minjasafnsins á Hnjóti. Alltaf var jafngott að koma að Hnjóti, hvort sem var sem leiðsögumaður með hóp af fólki eða á fundum safnstjórnarinnar, og ber þar einnig að þakka konu Egils, Ragnheiði Magnúsdóttur, sem átt hefur sinn þátt í uppbyggingu safnsins og hann ekki lítinn.

Minjasafn Egils Ólafssonar á Hnjóti hefur vaxið og dafnað undir handleiðslu Egils, fyrst til húsa í herbergi í íbúðarhúsi þeirra hjóna á Hnjóti og seinna meir í húsnæði sem reist var fyrir safnið á Hnjóti og vígt hinn 22. júní 1983. Það húsnæði reyndist þó fljótlega of lítið og undanfarin ár hefur verið unnið að viðbyggingu þess, sem enn er ekki búið að taka formlega í notkun, en Egill var þó búinn að vinna mikið við uppsetningu á munum í viðbyggingunni og móta þær sýningar sem þar verða í framtíðinni. Minjasafn Egils hefur vakið mikla athygli þeirra sem þar koma fyrir fjölda og fjölbreytni þeirra muna sem þar eru til sýnis og margir hverjir eru ómetanlegir dýrgripir úr sögu okkar sem hefðu glatast að fullu og öllu ef Egils hefði ekki notið við. Þar eru munir víðsvegar að úr sýslunni sem Egill gerði sér grein fyrir að höfðu sögu að segja og fyrir hans tilstilli eru nú varðveittir til að við og þeir sem á eftir okkur koma geti virt þessa hluti fyrir sér og rifjað upp sögu þeirra. Hann vildi ávallt hag safnsins síns sem bestan og til að tryggja framtíð þess færði hann Barðastrandarsýslu safnið að gjöf. Hann sinnti safnvörslunni sjálfur að mestu leyti en fékk starfsmenn sér til aðstoðar við afgreiðslu á sumrin og við uppsetningar á munum. Egill fann þó að aldurinn færðist yfir og í haust var að hans frumkvæði ákveðið að ráða nýjan safnvörð að safninu og átti eitt af fyrstu verkum hans að vera skráning þeirra muna sem óskráðir voru og saga þeirra til að hún glataðist ekki. Því miður vannst Agli ekki aldur til að vinna við það verk og víst er að mikill fróðleikur hefur glatast við fráfall hans. Við Hjörleifur Guðmundsson, félagar Egils í stjórn minjasafnsins, viljum þakka fyrir samstarfið við hann og votta Ragnheiði Magnúsdóttur konu hans og sonum þeirra og fjölskyldum okkar innilegustu samúð og biðjum Guð að styrkja þau á erfiðum stundum. Blessuð sé minning Egils Ólafssonar.

Lilja Magnúsdóttir, formaður stjórnar Minjasafns Egils Ólafssonar á Hnjóti.

Fyrir tveimur árum þegar ég fór að vinnna fyrir Tálknafjarðarhrepp var eitt af mínum fyrstu embættisverkum að heimsækja Minjasafn Egils Ólafssonar á Hnjóti. Það reyndist vera hið skemmtilegasta verk, þar sem safnið var miklu stærra og glæsilegra en mig hafði órað fyrir. En kannski var það jafnvel skemmtilegra að hitta Egil og Ragnheiði konu hans og fá þar höfðinglegar móttökur.

Egill hafði gefið sveitarfélögunum í Vestur-Barðastrandarsýslu Minjasafnið. Eru fá byggðarlög á Íslandi sem eiga slíka gersemi. Á engan er hallað þegar ég segi að hann hafi gert meira til þess að varðveita sögu og minjar sýslunnar en nokkur annar.

Egill var stórhuga maður og sást það ekki bara á safninu heldur einnig á öllu sem hann tók sér fyrir hendur. Menn er þekktu hann sögðu mér að hann næði alltaf því marki sem hann setti sér, og efaðist ég aldrei um það eftir viðkynni okkar. Minjasafnið er ekki bara safn áhugaverðra og einstakra muna, heldur einnig minnismerki um merkilegan mann sem náði marki sínu.

Ég ætla fyrir hönd Tálknafjarðarhrepps að bera fram samúðarkveðjur til Ragnheiðar og fjölskyldunnar.

Björn Óli Hauksson, sveitarstjóri Tálknafjarðarhrepps.

Kveðja frá Fornbílaklúbbi Íslands

Frænda minn Egil Ólafsson á Hnjóti hefði með sanni mátt kalla safnvörðinn á heimsenda. Með ótrúlegri elju og útsjónarsemi tókst honum að reisa eitt vandaðasta byggðasafn þjóðarinnar á einum afskekktasta og strjálbýlasta stað landsins. Með tilkomu þess margfaldaðist fjöldi ferðamanna sem leið sína lögðu um Örlygshöfnina, þrátt fyrir erfiðar samgöngur, og þeirra á meðal voru fornbílamenn. Á liðnum árum hefur Fornbílaklúbburinn í tvígang farið með hóp roskinna bíla í ferðalag um Vestfirði, sem að sjálfsögðu hefur lagt leið sína til Egils á Hnjóti og notið þar frábærrar leiðsagnar um forna búskaparhætti og tækniþróun tuttugustu aldarinnar. Einn fárra áhugamanna um fornminjar hafði Egill einnig dálæti á tæknilegum minjum og lét sér fátt óviðkomandi í þeim efnum. Á síðasta ári lagði ég á mig langt ferðalag til að koma forláta flugvélatúrbínu í hendur Egils og flug
minjasafns hans. Dvaldi ég fjóra daga í frábæru yfirlæti Egils og fjölskyldu, kynnti mér minjasafnið vel og framtíðaráform hans varðandi uppbyggingu og rekstur flugminjasafnsins. Mun sú reynsla nýtast mér vel nú þegar Fornbílaklúbburinn hyggur á byggingu bílasafns í Reykjavík. Því miður entist Agli ekki aldur til að sjá flugminjasafn sitt fullmótað, né bílasafn okkar í Reykjavík, en það er eindregin ósk mín og annarra fornbílamanna að byggða- og flugminjasafn Egils Ólafssonar á Hnjóti megi vaxa og dafna um ókomin ár, sem eilífur minnisvarði um einn mesta brautryðjanda og hugsjónamann í varðveislu íslenskrar verkmenningar.

Örn Sigurðsson formaður.

Hann féll í valinn óvænt - maður að vestan í fullu fjöri. Þessi mikilfenglegi eldhugi og hugsjónamaður, sem hafði frá unga aldri aldrei hvikað frá settu marki og barizt við sinnuleysi - skilningsleysi samferðamanna sinna í leit að andlegum auðæfum íslenzkrar þjóðar aftanúr fyrndinni og fram til okkar daga - hann er nú allur og að honum slík eftirsjá, að torvelt sýnist að bæta missinn.

Egill Ólafsson, löngum kenndur við lénið Hnjót í Örlygshöfn í V-Barðastrandarsýslu, var sérstakur maður - karakter á heimsmælikvarða, en rammíslenzkur í orðsins fyllstu merkingu. Hann drýgði dáðir með minja- og flugminjasafni sínu, bjargaði menningarlegum, félagslegum og háandlegum verðmætum þjóðar okkar í örugga höfn og skapaði þeim varanlega tilvist. Heiður sé hinum gengna um ár og síð.

Eftir tveggja daga náið samband við Egil heima hjá honum nú nýverið og báða dagana könnun á safni hans, sem er bæði kraftaverk í listrænum stíl og ólýsanlegt menningarlegt ævintýri, er sál skoðandans svipað og skírð í hugsjónaeldi og sígildri fegurð. Það minnir einna helzt á hafið, sem er eins og eilífðin. Hugsjónir Egils hafa rætzt og orðið eilífar.

Egill Ólafsson var lifandi maður og návist við hann var örvandi. Eins og góð bók, lífsbók, sem gefur manni trú.

Það er illt að hafa misst hann úr þessu lífi - hann virtist eiga svo margt eftir ósagt. Hann var einn þessara manna, sem hafði til að bera andlegt hugrekki, sleitulausan kjark til að sjá heiminn og lífið í nýju og nýju ljósi eins og skapandi listamaður og stór hugsuður. Hann virtist ráða yfir aðgangi að guðdómnum á óskýranlegan hátt þarna í glæsifögru umhverfi á Hnjóti á Rauðasandinum, sem býr yfir snertikrafti og töfrum. Safnið hans góða gæti á vissan hátt staðizt samjöfnuð við British Museum eða eitthvað ámóta úti í hinum stóra heimi.

Það er drottinleg skylda menntunarlega leitandi Íslendinga, ungra sem aldinna, að kynnast þessari stórfenglegu orkustöð.

Minja- og flugminjasafn Egils á Hnjóti sem tilheyrir höfuðstaðnum fyrir vestan, Patreksfirði alias Örlygshöfn í Vesturbyggð. Þarna er vin og meira en það. Þarna er sönnun þess, að Íslendingar unnu, sköpuðu sér í aldanna rás tilverurétt með þjóðháttum sínum og lífsbaráttu til sjós og lands meira en orð fái lýst.

Egill á Hnjóti sannaði, að erfiðustu hlutina í lífinu gerir maðurinn einn og yfirgefinn með víkingslund.

Guð blessi minningu Egils Ólafssonar á Hnjóti, guð blessi hans eiginkonu. börn hans og fjölskyldu.

Steingrímur St.Th. Sigurðsson.

Í hvíta vöku

vaktir þú

um dag þíns dags

dulúð alda,

töfrastein.

Við töfrasteininn

tíminn kvaddi

son sinn heim.

Ólafur Thóroddsen.