Kay Redfield Jamison er bandarískur háskólakennari í sálfræði og meðal þekktustu sérfræðinga heims í geðsjúkdómum. Hún háði harða og þrotlausa baráttu við geðhvarfasýki allt frá unglingsárum.

Kay Redfield Jamison er bandarískur háskólakennari í sálfræði og meðal þekktustu sérfræðinga heims í geðsjúkdómum. Hún háði harða og þrotlausa baráttu við geðhvarfasýki allt frá unglingsárum. Geðveikin hélt henni í heljargreipum og hafði næstum svipt hana lífinu. En hún barðist áfram, náði tökum á sjúkdómnum og öðlaðist hugrekki til þess að segja öðrum frá baráttu sinni, þjáningum og sigrum. Um reynslu sína ritaði hún bókina An Unquiet Mind sem nú er komin út á íslensku og nefnist Í róti hugans. Þýðandi er Guðrún Finnbogadóttir en útgefandi Mál og menning. Hér birtast þrír stuttir kaflar úr bókinni.

Það er alveg sérstök tegund þjáningar, upphafningar, einsemdar og ógnar sem einkennir þetta afbrigði af geðveiki. Það er stórkostlegt að vera hátt uppi. Hugmyndir og tilfinningar spretta fram og fuðra upp eins og geimsteinar. Maður fylgir þeim eftir og sleppir þeim svo þegar betri og enn skærari steinar koma í ljós. Feimnin hverfur og allt í einu finnur maður réttu orðin og réttu hreyfingarnar á réttu augnabliki og er alltaf sannfærður um persónutöfra sína. Maður finnur eitthvað athyglisvert í fari hversdagslegasta fólks. Allt er þrungið nautn og þráin eftir því að tæla og vera sjálfur tældur er ómótstæðileg. Vellíðan, innileiki, vald, unaður, fjárhagsleg öryggiskennd og sæluvíma flæða um mann allan. En allt í einu breytist þetta. Hugsanagangurinn verður alltof hraður og hugsanirnar alltof margar. Skýr hugsun hverfur og yfirþyrmandi ruglingur kemur í stað hennar. Minnið glatast. Gleðin og áhuginn sem áður mátti greina í svip vinanna breytast í kvíða og áhyggjur. Allt sem áður var auðvelt verður nú barningur. Maður verður uppstökkur, kvíðinn, kjarklaus, missir stjórn á sér og tapar svo áttunum í dimmustu afkimum hugans sem maður hafði ekki hugmynd um að væru til. Þetta tekur aldrei enda vegna þess að geðveikin skapar sinn eigin veruleika.

Þetta heldur áfram og áfram og loks er ekki annað eftir en minningar annarra um skrýtna, ofsafengna, óviðeigandi hegðun manns, vegna þess að með geðhæðinni er sem betur fer lögð sú líkn að minnið hverfur að nokkru leyti. Hvað verður þá eftir lyfjameðferðina, geðlækninn, örvæntinguna, þunglyndið og ofskammtinn? Allar ótrúlegu tilfinningarnar sem maður verður að greiða úr. Hver er of kurteis til þess að segja hvað? Hver veit hvað? Hvað gerði ég? Hvers vegna? Og svo spurningin sem kvelur mann mest af öllu: Hvenær gerist það aftur? Þar við bætast óþolandi áminningar um að nú eigi að taka lyf sem maður vill ekki taka en tekur þó að lokum. Svo gleymist aftur að taka það, maður neitar því aftur en lætur svo alltaf undan. Lokað er á greiðslukortin, innistæðulausar ávísanir þarf að greiða, gefa útskýringar á vinnustað, afsökunarbeiðnir, minningahrafl (hvað gerði ég eiginlega?), vinátta sem hefur brunnið upp eða horfið, eyðilagt hjónaband. Og svo alltaf aftur og aftur sama spurningin. Hvenær gerist þetta aftur? Hverjar af tilfinningum mínum eru sannar? Hvað er mitt sanna ÉG?

Til starfa í háskóla

Ég vaknaði ekki upp einn góðan veðurdag við það að ég væri orðin geðveik. Svo einfalt er lífið ekki. Ég vaknaði smám saman til vitundar um það að ég væri að missa stjórn á lífi mínu og huga. Fyrsta sumarið mitt í háskólakennslunni fór allt úr böndunum svo úr varð algjör, stjórnlaus glundroði. En umbreytingin frá hugarflugi til algjörrar upplausnar var hæg og átti sína sérstöku töfra. Í fyrstu virtist allt vera fullkomlega eðlilegt. Ég hóf kennslu við geðlækningadeild Kaliforníuháskóla í Los Angeles (UCLA) í júlí 1974, eftir að ég lauk doktorsprófi og var ætlað að starfa við eina af sjúkradeildunum fyrir fullorðna sjúklinga, bæði sem aðstoðarkennari og sálfræðingur. Það var gert ráð fyrir því að ég leiðbeindi læknum í sérnámi í geðlækningum og nemum í klínískri sálarfræði. Ég átti að kenna þeim sjúkdómsgreiningartækni, sálfræðilegar prófanir og sállækningar og vegna þess að ég hafði stundað nám í geðlyfjafræði tók ég líka til meðferðar ýmislegt sem snerti eiturlyfjaprófanir og lyfjagjöf. Ég var líka, fyrir hönd háskóladeildarinnar, tengiliður á milli geðdeildarinnar og svæfingadeildarinnar en þar stundaði ég bæði ráðgjöf og kennslu og kom á laggirnar rannsókn sem snerti sálfræðilegar og læknisfræðilegar hliðar sársauka. Mínar eigin rannsóknir voru aðallega fólgnar í því að koma á blað rannsóknum á eiturlyfjaneyslu sem ég hafði gert í framhaldsnáminu. Ég hafði engan sérstakan áhuga á klínískri vinnu né heldur rannsóknum sem snertu geðsveiflur og þar sem ég hafði verið svo til alveg laus við þær í meira en ár, gerði ég ráð fyrir því að þessi vandamál tilheyrðu fortíðinni. Þegar manni finnst maður vera heilbrigður í nokkuð langan tíma gefur það manni vonir sem reynast næstum því alltaf vera tálvonir.

Ég hóf nýja starfið mjög bjartsýn og full orku. Ég hafði ánægju af kennslunni og þótt mér þætti í fyrstu vera dálítið einkennilegt að hafa eftirlit með klínískri vinnu annarra, fannst mér það líka ánægjulegt. Mér fannst alls ekki jafn erfitt og ég hafði haldið að fara úr sæti nemanda í kennarastólinn og umskiptin voru að sjálfsögðu auðveldari vegna þess hve launahækkunin var upplífgandi. Ég fékk tiltölulega mikið frelsi til að geta sinnt mínum eigin vísindalegu áhugamálum og það var vímukennt. Ég vann mjög mikið og ég held að ég hafi sofið lítið. Styttri svefn er bæði einkenni og orsök geðbrigðasýkinnar en það vissi ég ekki þá og líklega hefði það ekki breytt miklu þótt ég hefði vitað það. Ég hafði oft sofið skemur á sumrin og verið hærra stemmd en þetta sumar komst ég enn hærra og náði geðveikin sjúklegri hæð og fór yfir hættumörk. Sumarið, svefnleysið, óhófleg vinna og sérlega viðkvæm gen sendu mig að lokum langt út yfir mörk eldmóðsins sem var mér eðlislægur og inn á litskrúðugar lendur geðveikinnar.

Óheftur eldur

Einu sinni á ári hélt háskólarektor garðveislu til þess að bjóða nýja kennara velkomna til starfa. Ég veit ekki hvaða tilviljun réð því að maðurinn, sem síðar átti eftir að verða geðlæknirinn minn, var líka í garðveislunni en hann hafði þá nýverið tekið við stöðu við læknadeild háskólans. Þetta varð áhugavert dæmi um hyldýpisgjána sem staðfest var á milli sjálfsskynjunar minnar og kaldari, yfirvegaðri athugunar reynds geðlæknis á hegðun fyrrverandi nemanda síns, sem hann hafði haft eftirlit með árinu áður þegar hann var aldursforseti aðstoðarlækna. Nú sá hann mig æða um með trylling í augum. Þegar ég rifjaði þetta boð upp fannst mér ég hafa verið dálítið æst en það sem ég minntist fyrst og fremst var allt fólkið sem ég talaði við, allir drykkirnir sem ég innbyrti, hvernig ég þaut frá einu hlaðborðinu til annars og fannst ég vera ómótstæðilega töfrandi. Ég talaði lengi við rektorinn. Hann hafði auðvitað enga hugmynd um hver ég var en hvort sem það var af einstakri kurteisi eða til þess að sanna hjartaknúsaraorðið sem af honum fór, þá talaði hann lengi við mig. Burtséð frá því hver var hin raunverulega ástæða, þá var ég viss um að honum þætti ég óendanlega heillandi.

Ég átti líka langar og ansi skrýtnar samræður við deildarforsetann. Mér fannst þær alveg stórkostlegar. Hann var sjálfur ekki laus við að vera léttur í máli og hann hafði ímyndunarafl sem ekki var rígbundið við beitilönd hreinnar læknisfræði. Hann var frægur fyrir það meðal geðlyflækna að hafa í ógáti drepið leigðan sirkusfíl með LSD. Þetta var flókið, dálítið ævintýralegt mál þar sem við sögu komu stór jarðarspendýr um fengitímann, kirtlar tengdir heilanum, áhrif of- skynjunarlyfja á ofbeldishegðun og misreiknað rúmmál og yfirborð. Við helltum okkur út í langt samtal sem teygði anga sína vítt og breitt en kjarni þess voru áætlanir um rannsóknir á fílum og klettagreifingjum. Klettagreifingjar eða stökkhérar eru smádýr í Afríku sem líkjast fílum ekki neitt en eru samt talin vera nánustu lifandi ættingjar þeirra. Sú fullyrðing byggist á athugunum á tannmynstri þeirra. Ég man ekki helminginn af öllum þeim flóknu rökum og sameiginlegu áhugamálum sem voru grundvöllur þessara einkennilegu og ákaflega fjörugu samræðna en ég man samt vel að ég bauðst til þess af mikilli rausn að hafa uppi á öllum greinum, sem birst hefðu í vísindalegum tímaritum um klettagreifingja, en þær skiptu hundruðum. Ég bauðst líka til þess að gera athuganir á atferli dýra í dýragarðinum í Los Angeles og verða aðstoðarkennari á námskeiði í atferlisfræði og öðru í lyfja- og atferlisfræði.

Í endurminningunni var garðveislan stórkostlega skemmtileg og ég hafði verið sprellfjörug, töfrandi og örugg með mig. En þegar geðlæknirinn minn talaði við mig löngu síðar, sagðist hann eiga aðrar minningar frá þessu boði. Hann sagði til dæmis að ég hefði verið áberandi glannalega klædd, allt öðruvísi en þegar hann hafði kynnst mér árinu áður þegar ég var fremur íhaldssöm í klæðaburði. Ég var miklu meira máluð en venjulega og honum virtist ég vera æst og upprifin og fram úr hófi málglöð.

"Það er engu líkara en Kay sé geðhvarfasjúklingur," sagðist hann hafa hugsað með sér. Mér hafði aftur á móti fundist ég vera alveg ómótstæðileg.

Fram í dagsljósið

Í bók sinni rekur Kay Redfield Jamison ítarlega harða baráttu sína við geðhvarfasýkina, allt þar til hún náði tökum á henni með því að taka inn litíum. Og hún gekk feti lengra, hún öðlaðist smám saman hugrekki til að segja öðrum frá baráttu sinni:

Það lágu margar ástæður til þess að ég var treg til að tala opinskátt um geðveikina. Sumar voru persónulegar, aðrar tengdust starfinu. Persónulegu ástæðurnar voru að miklu leyti tengdar friðhelgi einkalífsins, einkum vegna þess að geðveikin sem um ræðir er ættgeng og þar á ofan finnst mér almennt séð að einkamál manns ættu ekki að vera á allra vitorði. Ég hef líka haft áhyggjur af því, og þær kannski of miklar, að vitneskjan um það að ég hafi þjáðst af geðhvarfasýki kynni að hafa áhrif á afstöðu fólks gagnvart mér og starfi mínu. Það eru hárfín mörk á milli þess sem er talið vera svolítið skrítið og þess sem stimplað er með orðinu "óviðeigandi" sem er í sjálfu sér meinlaust orð en felur í sér afdráttarlausan dóm. Þegar einhver fær orð fyrir að vera svolítið æstur og duttlungafullur líður ekki á löngu þar til hann er stimplaður sem truflaður á geðsmunum og látið þar við sitja. Það er ef til vill hégómlegt en mig hryllti við því að litið væri á sjálfmorðstilraun mína og þunglyndi sem merki um veikleika eða taugabilun. Þótt undarlegt kunni að virðast finnst mér skárra að vera álitin geðveik með köflum en vera stimpluð sem veiklynd og taugaveikluð. Síðast en ekki síst óttast ég að opinber ræðuhöld eða skrif um hluti sem snerta einkalíf mitt svo náið láti þá dofna í minningunni og glata merkingu sinni bæði vitsmuna- og tilfinningalega. Ef ég kemst of oft í þá aðstöðu að verða að tala án þess að draga neitt undan gæti mín eigin reynsla að lokum orðið sjálfri mér fjarlæg og óhöndlanleg og horfið í fjarskann langt að baki mér. Ég óttast að reynsla mín hætti að tilheyra mér einni.

En aðaláhyggjur mínar í sambandi við umræður um sjúkdóminn eru þó tengdar starfinu. Í upphafi starfsferilsins óttaðist ég að læknaráð Kaliforníu veitti mér ekki starfsleyfi ef vitað væri að ég hefði verið haldin geðhvarfasýki. Nú orðið er ég ekki lengur jafnhrædd við slíkar skráveifur frá hendi skrifstofubáknsins en það er fyrst og fremst vegna þess að ég hef komið mér upp flóknu kerfi varnagla á deildinni. Ég trúði nánustu samstarfsmönnum mínum fyrir þessu og ræddi við geðlækninn minn fram og aftur í það óendanlega um allt sem hugsanlega gæti komið upp og hvernig best væri að takast á við það. Ég kveið því æ meira að "faglegu hlutleysi" mínu væri hætta búin hvað varðaði kennsluna og rannsóknirnar. Við UCLA til dæmis stjórnaði ég göngudeild þar sem ég kenndi sérfræðinemum í geðlækningum og sálfræðinemum og hafði eftirlit með vinnu þeirra. Við Johns Hopkins-háskólann kenni ég aðstoðarlæknum og læknastúdentum á legudeildum, á göngudeildinni held ég námskeið um geðsveiflur. Það fer hrollur um mig þegar ég hugsa til þess að nemendur mínir láti vera að segja hvað þeir hugsa í raun og veru eða spyrji ekki spurninga sem þeir vildu gjarnan spyrja af ótta við að særa það sem þeir halda að séu tilfinningar mínar.

Fordómarnir hverfa

En þetta á líka að nokkru leyti við rannsóknir mínar og skrif. Ég hef skrifað óteljandi greinar um geðhvarfasýki í lækna- og vísindatímarit. Munu starfsbræður mínir álíta ritsmíðar mínar hlutdrægar vegna sjúkdómsins? Þetta er afar óþægileg tilhugsun en sem betur fer er einn af kostum vísindanna sá að það sem maður hefur fram að færa er annaðhvort tekið til greina eða fellur í gleymsku. Þannig hverfa fordómarnir af sjálfu sér með tímanum. Ég kvíði því samt hver viðbrögðin kunni að verða hjá starfsbræðrum mínum eftir að ég hef talað opinberlega um veikindi mín. Setjum sem svo að ég sé stödd á ráðstefnu vísindamanna og komi með fyrirspurn eða geri athugasemd við mál einhvers fyrirlesarans. Verður þá farið með mál mitt eins og það komi frá manneskju sem hefur rannsakað og tekið þátt í að lækna geðbrigðakvilla í fjöldamörg ár eða verður litið á það sem einstaklingsbundið, hlutdrægt álit manneskju sem sé að gæta eigin hagsmuna? Það er langt frá því að vera ánægjuleg tilhugsun að vera neitað um vitsmunalega hlut- lægni. Það er satt og rétt að reynsla mín og tilfinningar hafa haft gífurleg áhrif á starf mitt, mótað kennsluna, hugsjónastarf mitt, klíníska vinnu og það svið sem ég hef kosið að rannsaka, það er að segja geðhvarfasýki almennt og sérstaklega sjálfsmorð, persónuleikabrenglun, sálfræðilegar hliðar sjúkdómsins og meðferð hans, höfnun litíums, jákvæðar hliðar geðhæðar, geðsveiflna og afstöðu til sállækninga.

En það sem er erfiðast í klínísku starfi mínu og ég hef orðið að taka til rækilegrar athugunar er spurningin: Tel ég í raun og veru að manneskja sem hefur þjáðst af geðsjúkdómi ætti að leyfa sér að fást við að lækna geðsjúka?

Samviskuspurningar

Þegar ég fór frá UCLA til Washington veturinn 1986 var mér mikið í mun að halda áfram að kenna og fá stöðu við læknadeild stórs háskóla. Richard, eiginmaður minn, hafði stundað læknanámið við Johns Hopkins-háskólann og hann var viss um að þar yrði ég ánægð. Að hans ráði sótti ég um kennarastöðu við geðlæknadeildina og byrjaði að kenna þar nokkrum mánuðum eftir að ég flutti frá Kaliforníu. Richard hafði haft rétt fyrir sér. Ég varð strax heilluð af háskólanum. Eins og hann hafði grunað var ein af ástæðunum fyrir því hvað ég var ánægð með stöðuna sú hve kennsluskyldum var sinnt þar af mikilli alvöru. Önnur ástæða var sú hve göngudeildirnar þar voru til fyrirmyndar. En ég þurfti að taka á þolinmæðinni. Það var viðbúið að spurningin um klíníska ábyrgð kæmi upp fyrr eða síðar.

Ég starði á blöðin fyrir framan mig og fann fyrir sömu óþægindum og alltaf koma yfir mig þegar ég þarf útfylla umsóknareyðublöð fyrir stöðu á sjúkrahúsi. JOHNS HOPKINS SJÚKRAHÚSIÐ stóð efst með stórum upphafsstöfum þvert yfir síðuna. Þegar ég leit niður eftir blaðinu sá ég að þetta var umsókn vegna klínískrar ábyrgðar. Ég vonaði hið besta þótt ég byggist við öllu illu og ákvað að leggja fyrst í einföldustu spurningarnar. Ég merkti við "nei" á löngum lista spurninga um slysatryggingar og málarekstur tryggingafélaga vegna gáleysis í starfi. Hafði ég einhvern tíma verið lögsótt fyrir vanrækslu í starfi eða vítavert gáleysi? Voru einhver skilyrði sett fyrir slysatryggingunni? Hafði starfsleyfi mitt einhvern tíma verið takmarkað, tekið af mér, háð einhverjum skilyrðum, ekki verið endurnýjað, afturkallað, háð reynslutíma og hafði ég sætt ábyrgð fyrir vanrækslu, formlega eða óformlega? Hafði nokkur heilbrigðisstofnun stefnt mér fyrir agabrot? Var mál á hendur mér fyrir aganefnd nú?

Guði sé lof var auðvelt að svara öllum þessum spurningum. Ég hafði komist hjá því að vera kærð fyrir gáleysi þrátt fyrir öll þessi hlægilegu málaferli sem nú tíðkast. Ég fékk aftur á móti hjartslátt þegar ég sá yfirskriftina "persónulegar upplýsingar" á næsta kafla og áður en varði hafði ég fundið spurninguna sem ég sá að krefðist meira en þess að setja kross við "nei"-dálkinn. Hún var á þessa leið:

Þjáist þú nú af eða færðu meðferð við einhverjum kvillum eða sjúkdómum, að ofneyslu vímuefnaog/eða áfengis meðtalinni, sem gæti skert hæfni þína til þess að rækja skyldur þínar og axla ábyrgð þína á spítalanum?

Fimm línum neðar kom svo klásúlan örlagaríka:

Mér er fullljóst að allt sem ég hef gefið rangar upplýsingar um eða vikist undan að svara í þessari umsókn getur orðið til þess að mér verði neitað um stöðu eða vikið formálalaust úr stöðu á spítalanum.

Ég las aftur spurninguna sem byrjaði á: Þjáist þú af . . . hugsaði mig lengi um og skrifaði síðan aftan við hana: Í athugun hjá forseta geðdeildar. Síðan hringdi ég með hjartað í buxunum í deildarforsetann og spurði hann hvort hann vildi borða með mér hádegismat.

Spilin á borðið

Um það bil viku síðar hittumst við á veitingahúsi spítalans. Hann var ræðinn og skemmtilegur eins og alltaf og við áttum fyrst fjörugar samræður um það sem var að gerast á deildinni og í kennslunni og töluðum um rannsóknarstyrki og stefnuna í geðheilsumálum almennt. Ég kreppti hnefana í vösunum og hjartað barðist ótt og títt þegar ég sagði honum frá umsóknareyðublaðinu, veikindum mínum og meðferðinni sem ég fékk.

Nánasti starfsfélagi minn við háskólann vissi um veikindi mín. Ég hef alltaf sagt þeim læknum sem ég starfa mest með frá þeim. Þegar ég starfaði við UCLA ræddi ég til dæmis í smáatriðum um veikindi mín við læknana sem ég átti samstarf við um að koma á fót göngudeild fyrir geðsveiflur við háskólaspítalann og síðan við lækninn sem var yfirlæknir deildarinnar svo að segja öll þau ár sem ég veitti henni forstöðu. Forseti deildarinnar við UCLA vissi líka að ég var í meðferð vegna geðhvarfasýki. Mér fannst þá alveg eins og nú að það ættu að vera fyrir hendi varnaglar ef svo kynni að fara að dómgreind mín skertist vegna geðhæðar eða alvarlegs þunglyndis. Ef ég hefði ekki sagt þeim allt af létta hefði bæði umönnun sjúklinganna verið stefnt í hættu og ég hefði sett starfsfélaga mína í óþolandi aðstöðu og látið þá taka bæði faglega og lagalega áhættu.

Ég útskýrði vel fyrir öllum læknunum sem ég átti náið samstarf við að ég væri í umsjá frábærs geðlæknis, tæki lyf og ætti ekki við nein vandamál að stríða vegna vímuefna- eða áfengisneyslu. Ég bað þá líka að hika ekki við að spyrja geðlækninn minn um allt sem þeir teldu nauðsynlegt að vita um veikindi mín og starfshæfni mína og ég bað geðlækninn minn að gera mér eða hverjum þeim sem honum þætti þurfa viðvart ef hann teldi starfshæfni minni vera ábótavant vegna dómgreindarbrenglunar. Starfsfélagar mínir höfðu líka lofað að segja mér það hreint út ef einhver vafi kæmi upp, svipta mig þegar í stað allri ábyrgð og láta geðlækninn minn vita. Ég held að þeir hafi allir talað við hann, að minnsta kosti einu sinni, til þess að fá upplýsingar um veikindi mín og meðferðina. Til allrar hamingju þurfti aldrei neinn að hafa samband við hann vegna þess að hann áliti mig ekki hæfa til þess að umgangast sjúklingana. Ég hef aldrei þurft að skila starfsleyfinu enda þótt ég hafi stundum orðið að seinka eða aflýsa viðtölum sjálf þegar mér fannst það vera sjúklingunum í hag.

Ábyrg hegðun

Ég var bæði lánssöm og varkár. Sá möguleiki er alltaf fyrir hendi að sjúkdómur minn, eða hvaða starfandi læknis sem er, hafi áhrif á dómgreind í starfi. Spurningar vegna starfsleyfis á sjúkrahúsi eru hvorki ósanngjarnar né óþarfar. Mér finnst ekki gaman að svara þeim en þær eru mjög skynsamlegar. Starfsleyfi er nákvæmlega það sem í orðinu liggur, leyfi til þess að starfa. Hin raunverulega hætta stafar frá þeim læknum (eða reyndar líka frá stjórnmálamönnum, flugmönnum, kaupsýslumönnum eða öðrum sem bera ábyrgð á velferð og lífi annarra) sem hika við að fá geðræna meðferð vegna þess að þeim þykir það vera smánarblettur eða vegna þess að þeir óttast uppsögn eða brottvikningu úr læknaskólum, framhaldsnámi eða kandídatsstöðu. Margir þeirra veikjast hastarlega ef þeir eru ekki undir læknishendi eða eftirliti og stofna oft bæði sínu eigin lífi og lífi annarra í hættu. Þegar læknar reyna sjálfir að draga úr eigin geðsveiflum með lyfjum enda þeir oft sem áfengis- eða eiturlyfjasjúklingar. Það er ekki óalgengt að læknar sem þjást af þunglyndi gefi út lyfseðla á þunglyndislyf fyrir sjálfa sig. Afleiðingarnar geta verið hörmulegar.

Eigin heilsuvernd heilbrigðisstétta

Sjúkrahús og aðrar heilbrigðisstofnanir ættu að taka til athugunar í hve mikla hættu læknar, hjúkrunarfræðingar og sálfræðingar sem ekki fá læknismeðferð sjálfir stofna sjúklingum sínum. En það þarf líka að hjálpa þessu fólki til þess að fá viðeigandi meðferð og koma á fót varnarkerfi og skynsamlegu eftirliti án niðurlægjandi umhyggju. Geðbrigði eru hættuleg bæði sjúklingum og læknum. Alltof margir læknar, sumir hverjir á meðal þeirra bestu, svipta sig lífi. Nýleg könnun hefur leitt í ljós að Bandaríkin missa þannig á ári hverju jafngildi heils árgangs í meðalstórum læknaskóla. Flest sjálfsmorðin má rekja til þunglyndis eða geðhvarfasýki en báðir þessir sjúkdómar eru auðlæknanlegir. Því miður eru læknar sú þjóðfélagsstétt þar sem tíðni geðbrigðakvilla er mest og þar að auki eiga þeir greiðari aðgang en aðrir að áhrifamiklum meðulum til þess að fyrirfara sér.

Læknar ættu auðvitað að byrja á því að stunda eigin heilsuvernd en góð læknismeðferð ætti einnig að vera þeim sem aðgengilegust svo þeir nái heilsu. Heilbrigðisstjórnvöld ættu að hvetja starfsmenn sína til þess að leita meðferðar, sjá þeim fyrir læknismeðferð undir eftirliti en vanrækslu í starfi ætti ekki að líða né heldur að umönnun sjúklinga sé stofnað í hættu. Eins og deildarforsetinn minn er vanur að segja ættu læknar að lækna fólk og sjúklingarnir ættu ekki að þurfa að bera kostnað af vandamálum og þjáningum lækna, hvorki í bókstaflegri né óeiginlegri merkingu. Ég er honum hjartanlega sammála um þetta og þess vegna kveið ég dálítið fyrir viðbrögðum hans þegar ég sagði honum að ég væri með geðhvarfasýki og þyrfti að tala við hann um starfsleyfið. Ég horfði á hann og reyndi að sjá á honum hvað hann væri að hugsa. Allt í einu beygði hann sig fram, rétti höndina yfir borðið, lagði hana ofan á mína og brosti. "Kay mín," sagði hann, ,ég veit að þú ert geðhvarfasjúklingur." Hann þagði andartak. "Ef við losuðum okkur við alla geðhvarfasjúklinga sem starfa við læknadeildina yrði ekki aðeins kennaraskortur heldur yrði deildin líka miklu leiðinlegri," sagði hann svo og hló.

Frásögn bókarinnar er eilítið stytt. Millifyrirsagnir eru blaðsins.