VIGDÍS Ásgeirsdóttir og Drífa Harðardóttir voru einu Íslendingarnir sem unnu til gullverðlauna á alþjóðlega badminton-mótinu sem fram fór í TBR-húsinu um helgina. Þær stöllur unnu sannfærandi sigur í tvíliðaleik kvenna. Brynja Pétursdóttir, Sveinn Sölvason og Tómas Viborg, sem keppa að því að komast á næstu Ólympíuleika náðu ekki í úrslit í einliðaleik kvenna og karla. Brynja og Tómas féllu út í 8-manna úrslitum en Sveinn í undanúrslitum.

Framganga Vigdísar og Drífu í tvíliðaleiknum kom mest á óvart, en þær eru ekki vanar að leika saman, þar sem Drífa býr í Danmörku en Vigdís hér á landi. Þær hafa þó leikið einu sinni saman áður, í landskeppni fyrir þremur árum. Vigdís leikur að jafnaði með Rögnu Ingólfsdóttur. Það var hins vegar vilji Brodda Kristjánssonar landsliðsþjálfara að Vigdís og Drífa lékju saman að þessu sinni.

"Mestu réð að við verðum að eiga tvö sterk kvennapör til þess að leika með landsliðinu í landsleikjum síðar í vetur og því datt mér í hug að þær reyndu sig saman og útkoman var frábær," sagði Broddi eftir sigur Vigdísar og Drífu, á Svisslendingunum Santi Wibowo og Judit Baumeyer í úrslitum, 15:5, 9:15, 15:4. Wibowo og Baumeyer unnu Elsu Nielsen og Brynju Pétursdóttur í undanúrslitum, 7:15, 17:14, 15:8. Í sömu umferð lögðu Vigdís og Drífa írsk/enska parið, Elaine Kiely og Elizabeth Cann, 15:3, 15:7. Þar áður höfðu Vigdís og Drífa lagt írskt par að velli.

Eins og tölurnar gefa til kynna var sigur Vigdísar og Drífu í úrslitaleiknum öruggur. Í fyrstu og þriðju lotu réðu þær lögum og lofum. Önnur lotan var jöfn upp í 9:9 en þá virtist viljinn vera meiri hjá Wibowo og Baumeyer enda hefur frumkvæðið heldur verið þeirra megin.

"Ég var orðin þreytt í annarri lotu, en í oddalotunni var ekkert um það að ræða. Þá var málið að einbeita sér að sigri," sagði Vigdís glaðbeitt að henni lokinni. "Fyrirfram áttum við ekki von á að komast svona langt í keppninni, en með sigurinum á írska parinu í fyrstu umferð jókst sjálfstraustið og leikur okkar small saman.

Úrslitaleikurinn var okkar, við sóttum fast og smössuðum af ákveðni. Í annarri lotu tókst Svisslendingunum að hægja aðeins á leiknum, en við létum til skarar skríða á ný í oddalotunni," sagði Vigdís ennfremur.

Náðu vel saman

Drífa hefur búið í Álaborg í Danmörku í níu ár og æfir og leikur með félagsliðinu Abc þar í borg. "Það er fínt að vera í Danmörku og æfa badminton þar sem áhuginn á íþróttinni er margfalt meiri en hér á landi," sagði Drífa sem reiknar ekki með að flytja heim á næstunni. Hún býst heldur ekki við því að koma heim til þess að taka þátt í Íslandsmótinu síðar í vetur, en þegar hún hefur leikið hér á landi hefur hún keppt undir merkjum ÍA á Akranesi þar sem hún hóf að stunda badminton, barn að aldri. "Ég er mjög ánægð með árangurinn, hann er mun betri en ég þorði að vona fyrir mótið og við Vigdís náðum vel saman, þannig að þetta var frábært," sagði Drífa.

Sveinn Sölvason náði lengst íslensku spilarana í einliðaleik, í 4-manna úrslit. Þar tapaði hann illa fyrir Frakkanum Bernrand Gallet, 15:1, 15:2. Í 8 manna úrslitum lagði Sveinn Þjóðverjann Conrad Huecksraedt, 3:15, 15:8, 15:8. Conrad tapaði komst í úrslit með sigri á Sveini en varð að sætta sig við silfurverðlaun eftir tap fyrir Svíanum Rasmus Wengberg í úrslitum, 10:15, 15:6, 15:4.

Wengberg lagði Tómas Viborg í átta manna úrslitum í hörkuleik þar sem Tómasi nægði ekki að sýna sinn besta leik í mótinu, lokatölur, 11:15, 15:2, 15:10. Í 16 manna úrslitum hafði Tómas hins vegar unnið góðan sigur á Andrew Dabeka, Kanada, 12:15, 15.8, 15:8.

Brynja Pétursdóttir féll úr í 8 manna úrslitum líkt og Tómas eftir tap fyrir Söndru Dimbour, Frakklandi, 11:2, 11:2. Brynja náði sér ekki á strik í leiknum eftir að hafa leikið feikivel í 16 manna úrslitum og lagt þar Spánverjann Dolores Marco, 6:11, 11:5, 11:6, en Marco er mun framar á heimslista badmintonkvenna en Brynja.

Sara Jónsdóttir lék vel í einliðaleik kvenna og komst nokkuð óvænt í undanúrslit þar sem hún varð að játa sig sigraða í leik við Karolinu Eriksson, Svíþjóð, 11:2, 11:1, en Eriksson vann síðar kvennaflokkinn eftir að hafa borið sigur úr býtum í úrslitaleik við Dimbour, 8:11, 11:5, 13:10.

Ívar Benediktsson skrifar