[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
SKJÓLGÓÐ yfirhöfn er framlag Íslands í Smirnoff-fatahönnunarkeppninar sem haldin verður í Hong Kong n.k. þriðjudag. Heiðurinn á Kristína Róbertsdóttir Berman nemi á öðru ári í textildeild Listaháskóla Íslands.

SKJÓLGÓÐ yfirhöfn er framlag Íslands í Smirnoff-fatahönnunarkeppninar sem haldin verður í Hong Kong n.k. þriðjudag. Heiðurinn á Kristína Róbertsdóttir Berman nemi á öðru ári í textildeild Listaháskóla Íslands. Hún gerði sér lítið fyrir og hannaði kápu úr þæfðri ull, sigraði síðan í undanúrslitum Smirnoff- keppninnar sem haldin var hér í lok sumars og er nú á leið til Hong Kong sem fulltrúi Íslands í lokakeppnina.

Sigurflíkin þykir afar "íslensk" í útliti auk þess sem hún er gerð úr íslenskri ull og er því vel við hæfi sem framlag Íslands í alþjóðlega fatahönnunarkeppni.

Aldrei áður hefur kápa verið hönnuð á þennan máta, að sögn hönnuðarins. "Ég nýtti mér lagskipta eiginleika íslensku ullarinnar og hafði kápuna í tveimur lögum, í ytra laginu er tog eða gróf hár sem ég raðaði eftir litum en í innra laginu er þel eða mjúk ull. Þetta var töluverð handavinna og flókið litaspil en á þennan máta er kápan bæði vatnsheld og hlý."

Kristína var beðin um að sýna tvær útfærslur af kápunni og hannaði því aðra sem er einfaldari og hentar vel til fjöldaframleiðslu.

Meistaranám og milljón í verðlaun

Á þriðjudaginn mun Kristína keppa við 30 unga fatahönnuði víðs vegar að úr heiminum um fyrstu verðlaunin. Mikið er í húfi en sá sem sigrar fær um eina milljón íslenskra króna í verðlaun en er auk þess boðið að taka meistarapróf í fatahönnun frá Central Saint Martains School of Art and Design í London en námið tekur tvö ár.

Keppnin leggst vel í Kristínu sem fór utan ásamt öðrum umboðsmanni Smirnoff-keppninnar á Íslandi, Bjarna Bragasyni. "Ferðin gæti orðið mikill örlagavaldur," segir hún, "ef vel gengur opnast ýmsir möguleikar fyrir mig, því í Hong Kong verða frægir hönnuðir en auk þess fjölmiðlar frá öllum heimshornum. Ef maður ætlar sér að ná langt sem fatahönnuður er þátttaka í þessari keppni kjörið tækifæri."

Linda Björg sigraði 1995

Íslendingar hafa tekið þátt í fatahönnunarkeppni Smir-noff undanfarin ár og sigruðu árið 1995 þegar Linda Björg Árnadóttir hannaði gegnsæjan kjól úr kindavömbum.

"Frammistaða mín veltur ekki síst á hvernig mér tekst að kynna hönnunina fyrir dómurunum. Þetta verður áreiðanlega mjög spennandi."

Kristína fékk bandarískan ljósmyndara, Israel Colone, til þess að mynda skjólflíkurnar tvær og fyrirsætuna Margréti Önnu hjá Icelandic models til þess að sitja fyrir.

Unnt er að fylgjast með árangri Kristínu á vefnum en slóðin er www.icelandicmodels.

hm