Baldur Möller, fyrrverandi ráðuneytisstjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, fæddist í Reykjavík 19. ágúst 1914. Hann lést á Landspítalanum 23. nóvember síðastliðinn og fór útför hans fram frá Hallgrímskirkju 1. desember.

Með Baldri Möller er genginn nestor íslenskra skákmanna, mikill öðlingur og heiðursmaður. Lokið er farsælu lífshlaupi sem spannaði mestan hluta aldarinnar sem nú er senn á enda. Í huga okkar sem muna þá tíma þegar Baldur var að vinna sína glæstustu sigra - um miðja öldina - mun ávallt leika ljómi um nafn hans og enginn vafi leikur á því að afrek hans hafa átt drjúgan þátt í því að skapa þann skákáhuga sem íslenskt skáklíf býr að enn í dag. Ég minnist þess að sumarið 1946 þegar ég var að stíga mín fyrstu spor í skákinni og farinn að taka þátt í æfingum og skákmótum hjá Taflfélagi Reykjavíkur var Skákþing Norðurlanda háð í Kaupmannahöfn. Þangað sendu Íslendingar nokkra sinna fremstu skákmanna. Vel var fylgst með þessu móti og ekki dofnaði áhuginn þegar fréttir fóru að berast af velgengni íslensku keppendanna. Baldur var frá upphafi með í baráttunni um efsta sætið í landsliðsflokki og eftir spennandi keppni við finnska skákmeistarann, Osmo Kaila, uppskar hann að lokum 2.-3. sætið. Þetta voru ánægjuleg tíðindi, en Baldur átti eftir að bæta um betur.

Ef ég man það rétt var það í fjöltefli sem Baldur tefldi í Þórscafé síðla árs 1946, eftir mótið í Kaupmannahöfn, sem fundum okkar bar fyrst saman. Í lítilli frétt í reykvísku dagblaði frá þeim tíma segir að yngsti keppandinn í fjölteflinu hafi verið Friðrik Ólafsson. Hafi skákin við hann staðið lengst, en eftir 66 leiki hafi Friðrik gefið skákina og hafi þeir Baldur þá verið orðnir einir eftir.

Mér er þetta fjöltefli minnisstætt fyrst og fremst fyrir þá sök hversu Baldur gaf sér góðan tíma að "stúdera" með mér skákina á eftir og benda mér á hvar mér höfðu orðið á mistök, því að staðan var jú alls ekki sem verst hjá mér á tímabili. Þetta gerði hann svo alúðlega og af mikilli háttvísi að ég var fljótur að gleyma allri sút vegna tapsins. Þetta voru fyrstu kynni mín af Baldri og þau áttu eftir að haldast um aldur og ævi. Úrslitin á Norðurlandaskákmótinu í Örebro 1948 mörkuðu þáttaskil í íslenskri skáksögu. Baldur var mættur til leiks í landsliðsflokki og bar sigur úr býtum eftir harða baráttu við sænska skákmeistarann Ored Karlin. Baldur varð því skákmeistari Norðurlanda fyrstur Íslendinga en jafnframt var árangur hans merkilegur fyrir þá sök að þetta var í fyrsta skipti sem Íslendingur bar sigur úr býtum í alþjóðaskákmóti. Við sem heima sátum fögnuðum að sjálfsögðu mjög þessum úrslitum og smám saman rann upp fyrir mönnum hvað þetta í rauninni merkti. Baldur hafði sýnt fram á að Íslendingar stóðu fyllilega jafnfætis bræðraþjóðunum á Norðurlöndunum í skák - og við þyrftum ekki að vera með neina vanmetakennd.

Eftir frækinn sigur Baldurs í Örebro þótti sjálfsagt að næsta skákþing Norðurlanda yrði haldið á Íslandi. Í fyrsta lagi átti Baldur titil að verja og í öðru lagi átti Skáksamband Íslands 25 ára afmæli á því ári. Þetta var fyrsta alþjóðakeppni sem Íslendingar höfðu haldið frá upphafi vegar og í leiðara sem birtist í dagblaðinu Vísi að móti loknu sagði m.a. svo: "Hér í höfuðstaðnum hefir að undanförnu verið háð skákkeppni milli Norðurlandanna. Úrslit þessarar keppni liggja nú fyrir með þeim árangri að Íslendingar eiga tvo efstu menn í öllum flokkum. Þetta er mikill og merkilegur sigur fyrir Íslendinga, sem þreytt hafa keppni við harða mótstöðumenn. Með sigri sínum í landliðsflokki hefur Baldur Möller í annað sinn fært Íslandi meistaratitil Norðurlanda í skák en hann vann þennan heiðurssess áður í keppni í Svíþjóð árið 1948. Ekki fer á milli mála að þessi frækilega frammistaða Baldurs hleypti af stað skákbylgju og varð mikil lyftistöng fyrir skáklífið á Íslandi. Um það get ég vitnað því að ég fylgdist grannt með öllu og tók reyndar þátt í Norðurlandaskákmótinu 1950 í meistaraflokki. Mér hefur alltaf fundist þetta tímabil, sem ég hef lýst hér, marka þáttaskil í íslenskri skáksögu. Í mínum huga mun það ávallt verða tengt nafni Baldurs og halda hróðri hans á loft.

Baldur var maður hógvær og yfirvegaður í fasi en engum duldist einbeitnin og sigurviljinn sem undir bjó þegar út í skákina var komið. Hann var að mínu mati frumkvöðull faglegra vinnubragða í skákinni og vel að sér í byrjanafræðunum. Þannig varð hann öðrum íslenskum skákmönnum hvatning til dáða og eftirbreytni, þ.á m. þeim sem þessar línur ritar. Ég átti því láni að fagna að njóta samfylgdar Baldurs um langt árabil - bæði á vettvangi skákarinnar og í starfi - og kynnast miklum mannkostum hans. Á kveðjustund minnist ég hans með söknuði og virðingu og þakka trausta vináttu sem aldrei bar skugga á. Hann verður mér ávallt minnisstæður - ekki eingöngu fyrir afrek sín á skáksviðinu - heldur líka fyrir eðlislæga ljúfmennsku sína og leiftrandi hugsun sem gerði allt svo bjart í kringum hann.

Við Auður sendum Sigrúnu og öðrum ástvinum innilegustu samúðarkveðjur.

Friðrik Ólafsson.