12. desember 1999 | Sunnudagsblað | 2365 orð | 1 mynd

Einar Þorsteinsson forstjóri Íslandspósts segir bréf ekki koma til með að hverfa af sjónarsviðinu

Teljum Netið gullið tækifæri en ekki nema takmarkaða ógn

Einar Þorsteinsson, forstjóri Íslandspósts: "Viðfangsefni á flutningamarkaði eru mjög ögrandi; við vitum að verslunarhættir hafa breyst og munu breytast enn frekar; birgðahald er minna, sendingar minni og örari og það krefst öruggs þjónustukerfi
Einar Þorsteinsson, forstjóri Íslandspósts: "Viðfangsefni á flutningamarkaði eru mjög ögrandi; við vitum að verslunarhættir hafa breyst og munu breytast enn frekar; birgðahald er minna, sendingar minni og örari og það krefst öruggs þjónustukerfi
BRÉFBERAR hafa alltaf meira að gera á þessum árstíma en öðrum vegna þeirrar gömlu hefðar að fólk sendir hvert öðru jólakort. Og jólakortið lifir þó einhverjir kunni að láta rafræn-kort duga síðan sú merkilega uppfinning, Netið, tók völdin í heiminum.
BRÉFBERAR hafa alltaf meira að gera á þessum árstíma en öðrum vegna þeirrar gömlu hefðar að fólk sendir hvert öðru jólakort. Og jólakortið lifir þó einhverjir kunni að láta rafræn-kort duga síðan sú merkilega uppfinning, Netið, tók völdin í heiminum. Eftir helgina hefst aðalatið vegna jólapóstsins og þá koma margir til starfa hjá Íslandspósti í þetta tímabundna verkefni. "Við erum einn stærsti vinnuveitandi landsins. Þegar krakkarnir verða komnir til starfa eftir helgina verðum við með hátt í 2.000 manns á launaskrá, " sagði forstjórinn, Einar Þorsteinsson, í samtali við Morgunblaðið í vikunni.

Rekstur póstþjónustunnar á Íslandi hefur gengið mjög vel þau tæplega tvö ár síðan Pósti og síma var skipt í tvö fyrirtæki, en áður var þjónustan alltaf baggi á fyrirtækinu.

Olnbogabarn

"Pósturinn var alltaf olnbogabarn hjá Pósti og síma. Reksturinn gekk illa og miklir peningar töpuðust; það var alltaf sagt að Síminn borgaði Póstinn og talið að Pósturinn gæti ekki staðið á eigin fótum. Enda var staðan í reikningum þannig við uppgjör að Pósturinn tapaði 650 milljónum króna árið 1995 og 839 milljónum árið eftir. 1997, eftir að Pósturinn var orðinn nokkuð sjálfstæð eining innan fyrirtækisins, var tapið 93 milljónir en á fyrsta ári eftir að þetta varð að sjálfstæðu hlutafélagi, 1998, tókst okkur hið ótrúlega: að snúa rekstrinum yfir í hagnað, sem nam 44 milljónum.

Einar segir margar ástæður fyrir þessum umskiptum. "Í fyrsta lagi er nokkuð ljóst að Pósturinn var látinn taka óþarflega mikinn þátt í sameiginlegum kostnaði við yfirstjórn." Núverandi forstjóri Íslandspósts hóf störf hjá Pósti og Síma hf. 1997, tók þá við stjórn póststarfseminnar. Ég fékk svo tækifæri til að fylgja því eftir þegar Íslandspóstur varð sjálfstætt félag.

Þá fórum við í mikla markaðsvæðingu, náðum að leiðrétta gjaldskrár sem höfðu verið niðurgreiddar og svo hófust hér strax miklar hagræðingaraðgerðir, sem við höfum verið í á fullu síðan , og eru að skila mjög góðum árangri.

Það sem skiptir mestu máli fyrir okkur er að við teljum fyrirtækið ekki vera gamalt, þungt og deyjandi fyrirbæri - eins og ímynd manna er kannski; að tölvupósturinn sé algjörlega að taka við - heldur framsækið þjónustufyrirtæki sem sinnir þremur meginþáttum.

Í fyrsta lagi sinnum við því að reka grundvallar póstþjónustu: því að flytja bréf og smápakka manna á milli um allan heim; við tökum þátt í því neti sem alþjóðasamstarfið er. Þetta er auðvitað grunnurinn og skiptir gífurlegu máli. En þar fyrir utan sinnum við öðrum mjög spennandi hlutum: við erum farin að skilgreina póstinn öðruvísi en áður. Í dag er ekki bara talað um bréf heldur notum við hugtökin viðskiptapóstur og auglýsingapóstur.

Viðskiptapósturinn er allur gluggapósturinn svokallaði, skilaboð og alls kyns staðfestingar sem er mjög stór hluti þess sem við flytjum, og svo er það auglýsingaþátturinn. Við erum nefnilega að keppa á auglýsingamarkaði. Fjölpósturinn sem við köllum, dreifiritin og markpósturinn:

Kæri Skapti, af því að þú ert blaðamaður ætlum við að gera þér þetta tilboð...! Þetta er að vaxa mjög mikið og við erum í mikilli sókn á þessum vettvangi."

Netið

"Það sem skiptir okkur svo ekki síst máli erþróunin á Netinu, sem við lítum á sem gullið tækifæri en ekki nema takmarkaða ógn. Það er með ólíkindum hvaða tækifæri búa þar. Netið ógnar auðvitað ákveðnum viðskiptum að einhverju leyti, breytir til dæmis bankaþjónustu svo dæmi sé tekið."

Einar segir mikil tækifæri verða í viðskiptapósti og bögglapósti varðandi verslun á Netinu. "Þreföldun hefur verið í Netverslun milli ára og þróunin erlendis bendir til þess að vöxturinn verði ævintýralegur. Aukningin gæti orðið hundraðföld og þegar fólk hefur pantað sér vöru á Netinu er augljóst að einhver þarf að koma henni til viðskiptavinarins. Þar sjáum við stærsta tækifæri framtíðarinnar og munum leggja mikla áherslu á þetta atriði.

Það er mjög spennandi við Íslandspóst að við erum að taka gamla stofnun, sem allir hafa einmitt litið á sem stofnun með stóru s-i, sköpum henni nýja ímynd með útliti; merkjum, litum og auglýsingum og hefur tekist að okkar mati mjög vel." Einar nefnir að í haust hafi Íslandspóstur tekið upp nýjung í tilraunaskyni; að keyra ábyrgðarbréf og pakka heim til fólks á afmörkuðu svæði að kvöldi til. "Ef okkur berst ábyrgðarbréf til einhvers fær viðkomandi ekki lengur senda tilkynningu um það og þarf svo sjálfur að ná í bréfið á pósthús heldur keyrum við það heim til viðtakandans þegar hann er heima. Við erum að prófa okkur áfram með þetta, byrjum á höfuðborgarsvæðinu og öðrum stærri þéttbýlisstöðum. Við erum sem sagt að breyta þessu stóra, þunga kerfi sem var alltaf rekið með miklu tapi í framsækið þjónustufyrirtæki. Þannig við sjáum við framtíða fyrirtækisins."

Einar segir að erlendis sé þróunin á sviði póstþjónustu mjög mikil og hröð. "Segja má að þrjár stórar blokkir séu að myndast í Evrópu, hugsanlega fjórar. Þýski pósturinn sem er gríðarlegt bákn, Royal Mail í Bretlandi, hollenski pósturinn er þriðja stóra blokkin og jafnvel má tala um franska póstinn sem þá fjórðu. Þjóðverjarnir og Hollendingarnir hafa verið iðnir við að kaupa landflutningafyrirtæki upp á síðkastið, að minnsta kosti eitt á viku, og Þjóðverjarnir ætla sér að verða flutningafyrirtæki númer eitt í Evrópu. Þýski pósturinn verður líklega einkavæddur á næsta ári, hollenska póstinn er þegar búið að einkavæða - hollenska ríkið á 35% í fyrirtækinu, sem er þegar á markaði - en Bretarnir eru að færa sig yfir í hlutafélagaformið eins og við gerðum hérna heima. Umræða er um það í Danmörku að selja danska póstinn - en hann var gerður að hlutafélagi fyrir tíu árum. Þetta er allt saman er að þróast í þessa átt og við trúum því að þróunin verði í sömu átt hér. Evrópusambandið hefur sagt að í síðasta lagi árið 2003 verði einkaréttur á bréfapósti, sem ennþá er við lýði, meðal annars hér, líklega felldur. "Við hvetjum eindregið til þess að einkaréttur verði afnuminn sem allra fyrst vegna þess að ef samkeppnisreglur eru sanngjarnar verður samkeppnin rekstrinum og viðskiptavinunum til góðs."

Einar orðar það svo að fyrsta rekstrarár Íslandspósts, 1998, hafi í raun snúist um að stofna fyrirtækið. "Við tókum við stórum grunni, póstþjónustunni sem starfað hefur á Íslandi í yfir 200 ár, en þurftum að byggja utan um hana alla aðra þætti eins og fjármálakerfi, tölvukerfi og annað sem þarf til að reka sjálfstætt starfandi hlutafélag. Við vorum til dæmis hluti af tölvukerfi Pósts og síma - erum reyndar að reka stærsta víðnet landsins út af öllum útibúunum - en breytingarnar gengu satt að segja eins og í lygasögu. Á þessu ári höfum við svo breytt grunnskipulagi pósthúsanna, fórum að skilgreina þau á mismunandi hátt, annars vegar sem stjórnunarpósthús og hins vegar afgreiðslustaði tengda því, sem hafði mikil áhrif á uppbyggingu stjórnunarþáttarins. Svo var það ansi stór bylting þegar við tókum dreifingarþáttinn og vinnslu tengda honum frá pósthúsunum og gerðum að sjálfstæðum einingum; á Grensásvegi erum við með stóra dreifingamiðstöð fyrir nánast alla miðborg Reykjavíkur og aðra á Mýrargötu fyrir allan vesturbæinn og Seltjarnarnesið, sem hafa ekkert með pósthúsið að gera lengur. Pósthúsið er því sífellt að breytast og afgreiðsluþátturinn að verða ráðandi í starfsemi þess. Lang stærsta breytingin á þessu ári varð svo þegar við fluttum póstmiðstöðina sjálfa - alla vinnsluna - úr Ármúlanum í nýtt hús upp á Jörfa. Þá fluttum við 200 manna vinnustað á einni helgi og samt var unnið allan tímann. Það var lyginni líkast hve vel þetta gekk, fyrir utan einn poka frá Tryggingastofnun sem varð útundan og týndist tímabundið. Og varð frægur fyrir vikið!

Svo er það þessi tilraun með heimkeyrslu, sem við höfum verið að þróa í haust, og mun án efa þróast lengra á næsta ári. Það teljum við stóru byltinguna í okkar rekstri."

Afkoman viðunandi

Gert var ráð fyrir svipaðri afkomu á rekstri fyrirtækisins á þessu ári og í fyrra, en Einar segir að reiknað sé með að hún verði ívið lakari en áætlanir gerðu ráð fyrir. "Ástæðan er fyrst og fremst atvinnuástandið; þenslan á höfuðborgarsvæðinu hefur verið okkur erfið. Það er erfitt að fá fólk til starfa og mikil hreyfing er á fólki, sem kostar mikla peninga, en sölu- og magnaukning hefur að mestu leyti náð að vinna það upp þannig að við trúum því enn að við verðum réttu megin við núllið í ár líka - sem er ákaflega mikilvægt fyrir þróun fyrirtækisins. Að við höfum arðsemissjónarmið að leiðarljósi en ekki eitthvað allt annað." Einar nefnir einmitt að stefnt sé að því að arðsemi eigin fjár verði 8% en fyrsta starfsárið var hún 1,9%.

Einar segir viðbrögð við þeirri tilraun fyrirtækisins að aka ábyrgðarbréfum og pökkum heim til fólks hafi verið gríðarlega góð. "Það eru alltaf einhverjir sem vilja engu breyta en í heildina er mikil ánægja með þetta. Segja má að við höfum stigið fyrsta skrefið fyrir jólin í fyrra með jólapakkatilboðinu okkar; þá gerðum við tilraun með að keyra jólapakka heim til fólks. Jólapakkana til ömmu fyrir norðan eða frá ömmu að norðan og suður svo dæmi sé tekið; við bjóðum upp á þetta aftur núna. Fólk setur pakkana í góðar umbúðir, borgar 450 krónur fyrir núna og pakkinn berst heim að dyrum."

Blaðamaður nefnir að starfsmenn Íslandspósts séu þar með orðnir hálfgerðir jólasveinar og Einar játar því brosandi. "Ég prófaði þetta einmitt sjálfur í fyrra. Fór á aðfangadagsmorgun og keyrði út í eitt hverfið. Vildi upplifa þetta og sjá viðbrögð fólksins. Það var mjög gaman, enginn átti von á að pósturinn kæmi með pakkann alla leið heim að dyrum en viðbrögðin voru mjög ánægjuleg. Þetta var fyrsta skrefið, má segja, í því að þróa fyrirtækið jafnt og þétt út í að verða framsækið þjónustufyrirtæki. Og það er mjög spennandi verkefni."

Mikil samkeppni

Íslandspóstur er með einkarétt á bréfapósti upp í 250 grömm, ennþá, en einkaréttur hefur verið minnkaður á undanförnum árum. "Margir halda að við séum með einkarétt á öllu sem við störfum að en við erum í bullandi samkeppni. Ég get nefnt sem dæmi hraðflutningsmarkaðinn, þar sem við erum með TNT flutningana; þar eru keppinautar út um allt og við raunar litli aðilinn á því sviði. Á bögglamarkaðnum er gríðarleg samkeppni og við með tiltölulega litla markaðshlutdeild ef við tökum heildina - þar erum við að keppa við stóru flutningafyrirtækin, þau eru á bak við landflutningakerfin, og því bullandi samkeppni og þróunin á þeim markaði hefur verið verulega skemmtileg. Ég held að allir landsmenn, sérstaklega landsbyggðin, hafi einmitt jafnt og þétt upplifað bætta þjónustu, kannski einmitt vegna aukinnar samkeppni. Og þetta fyrirkomulag, samkeppni, teljum við að verði mjög til góðs í framtíðinni. Svo get ég nefnt auglýsingapóstinn, þennan óáritaða - fjölpóstinn svokallaða - bæklingana frá Hagkaup, Bónus og fleirum: í dreifingu þessa efnis er mjög mikil samkeppni, því við erum alls ekki einir þar á markaði. Við höfum því kynnst vel samkeppnismarkaðnum og óttumst þar af leiðandi ekki framtíðina hvað varðar heildina, vegna þess að við sjáum að þetta er mjög ögrandi markaður og samkeppnin er bara hvati til að gera betur. Þetta er það sem gerir þetta svo spennanndi; þetta er ekki lengur gamli, góði, þungi Pósturinn! Viðfangsefni á flutningamarkaði eru mjög ögrandi; við vitum að verslunarhættir hafa breyst og munu breytast enn frekar; birgðahald er minna, sendingar minni og örari og það krefst öruggs þjónustukerfis; sem verður okkar hlutverk."

Bréf og kerti

Forstjórinn segir að samkvæmt niðurstöðu skoðanakönnunar sé ímynd fyrirtækisins mjög góð. "Við vorum með í spurningavagni hjá einu skoðanakönnunarfyrirtækinu og útkoman var mjög góð. Okkur finnst að vísu aðeins skorta á að fólk átti sig á því hvað starfsemi póstsins er raunverulega mikil - til dæmis eru um 400 bréfberar á gangi á hverjum virkum degi og á milli 40 og 50 bílar á ferðinni í höfuðborginni seinni part dags og á kvöldin að keyra út ábyrgðarbréf, og slík þjónusta verður sífellt meira áberandi. En ímynd fyrirtækisins var þó mjög góð."

Þegar horft er lengra til framtíðar segist Einar sjá fyrir sér dreifingu á vöru, alls kyns smærri neysluvöru, heim til einstaklinga. "Þetta verður fyrirtæki á samkeppnismarkaði, mjög líklega einkavætt, í miklu þjónustuhlutverki. Bréfið sem slíkt verður áfram til, það deyr aldrei út þó margir haldi það. Það mun einhvern tíma draga úr bréfasendingum, og hefur auðvitað þegar gert það, en þörfin verður áfram fyrir hendi þó hún muni breytast. Nærtækt dæmi, af því að jólin nálgast, um það hvernig þörf breytist, er að í áratugi hefur sú umræða verið í gangi að vaxkertið muni deyja, vegna þess að ljósaperan hafi verið fundin upp. Staðreyndin er hins vegar sú að aldrei hefur verið framleitt jafn mikið af kertum í heiminum og nú og verðmæti veltu í kertasölu á Íslandi er hátt í 60% af verðmæti veltu í ljósaperum! Við trúum því líka að notkun bréfa muni breytast en bréfið muni aldrei hverfa. Framtíðarsýn okkar hjá Íslandspósti er því sú að þetta verði stórt og öflugt fyrirtæki, þar sem verður komið betra jafnvægi á milli þjónustuþátta í rekstrinum. Nú er bréfið okkar aðal vara, starf okkar snýst að mestu leyti um bréfið, en í framtíðinni munu flutningar á bögglum og pökkum vaxa mjög. Vörudreifing verður miklu stærra hlutfall af starfsemi okkar. Pósthúsið sjálft, þar sem þú hefur getað borgað reikningana og gert ýmislegt annað, á líka eftir að breytast. Fólk mun líklega finna okkur inni í stórmörkuðum og öðrum stöðum þar sem það á leið vegna annarra erinda; við verðum þar starfandi sjálfir starfandi í litlu horni eða með öðrum þar sem það getur póstlagt bréf eða böggla. Við höfum að mestu leyti starfað sjálfstætt hingað til en það mun eflaust breytast. Við verðum að vera þar sem fólkið er; fólk á ekki að þurfa að gera sér sérstaka ferð til okkar. Við verðum að sjálfsögðu áfram um allt land, við erum mjög sterkir á landsbyggðinni, en í framtíðinni verðum við að öllum líkindum mikið í einhvers konar samstarfi við aðra þjónustuaðila. Í dag erum við í samstarfi við aðra á tíu stöðum á landinu, en nánast engan fyrir tveimur árum. Þetta samstarf hefur gefist mjög vel og verið öllum til hagsbóta. Sameiginlega höfum við getað tryggt áframhaldandi örugga þjónustu á þessum stöðum og haft hagræðingu af, báðir aðilar, og um það snýst málið."

Ekið hefur verið með póst að næturlagi síðustu ár, en aðal akstursleiðirnar eru milli Reykjavíkur og Egilsstaða annars vegar og Reykjavíkur og Akureyrar hins vegar, tveir bílar eru í ferðum sem mætast á miðri leið. Við tengjum landið á nóttunni með þessum hætti og það var einmitt bylting þegar þetta hófst. Vegakerfið er það sem við notum lang mest í flutningunum og við bíðum spenntir eftir nýrri vegatengingu - heilsársvegi - milli Norðurlands og Austurlands því þá einfaldast flutningarnir enn verulega."

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.