Guðni Th. Jóhannesson
Guðni Th. Jóhannesson
KÁRI í jötunmóð heitir ný bók sem út kemur fyrir þessi jól eftir Guðna Th. Jóhannesson sagnfræðing. Þetta er fyrsta bók Guðna en Guðni nam sagnfræði við Warwick-háskólann og Háskóla Íslands og stundar nú doktorsnám við Lundúnaháskóla.
KÁRI í jötunmóð heitir ný bók sem út kemur fyrir þessi jól eftir Guðna Th. Jóhannesson sagnfræðing. Þetta er fyrsta bók Guðna en Guðni nam sagnfræði við Warwick-háskólann og Háskóla Íslands og stundar nú doktorsnám við Lundúnaháskóla.

Höfundur kýs að flokka verkið undir blaðamannasagnfræði og verk sem tekur á málefnum líðandi stundar. Það má líka flokka það sem fyrirtækjasögu því það fjallar um feril og störf Kára Stefánssonar stjórnanda Íslenskrar erfðagreiningar og fyrirtæki hans. Það flokkast þó ekki undir það sem hefur verið kallað "biskupasögur hinar nýju" þar sem Guðni er ekki ráðinn til verksins af Íslenskri erfðagreiningu og fylgismönnum hennar, án þess að verið sé að gera lítið úr slíkum verkum.

Kári í jötunmóð er ekki persónusaga heldur er ferli manns frá uppvexti í gegnum nám og störf lýst til þess að undirbyggja aðalatriðið, sögu umdeildasta fyrirbæris á Íslandi í seinni tíð: Íslenskrar erfðagreiningar og gagnagrunnsins.

Bókin er gagnleg lesning fyrir alla sem vilja kynna sér málefnið til hlítar og gefur leikmönnum innsýn í heim erfðavísinda og ólíkar hugmyndir manna þar um.

Guðni, þetta er saga manns og fyrirtækis hans, jafnvel afrekasaga eða hetjusaga. Hvað segirðu um það?

"Ég ætlaði mér aldrei að skrifa hefðbundna ævisögu," segir Guðni, "enda er Kári enn á besta aldri. Ég hafði líka engan áhuga á að skrifa einhverja "slúðursögu" um einkalíf Kára Stefánssonar. Reyndar var það nú svo að fólk kom til mín og sagði eitthvað á þá leið að ég væri að skrifa um Kára og hefði ég þá ekki heyrt hina eða þessa kjaftasöguna. "Nei, en þetta er alveg hreint stórmerkilegt," sagði ég: "Má ég ekki hafa þetta eftir þér?" Þá kom svarið: "Ha, nei nei, ég heyrði þetta bara í heita pottinum," eða eitthvað í þá áttina. Hins vegar fannst mér sjálfsagt að fjalla um skólaár Kára og dvölina í Bandaríkjunum, enda hefur hann látið ýmislegt flakka um það tímabil í viðtölum, líkt Davíð Oddssyni við Fidel Castro að gamni sínu, kallað kennara sína " hálfgerð idjót" og sagt Harvard-háskóla fullan af fólki sem sé fullt af sjálfu sér. Og jú, þetta er í raun hetjusaga; það verður seint frá Kára tekið að hann vann þrekvirki með því að koma þessu fyrirtæki á laggirnar."

Kári Stefánsson tók ekki þátt í gerð bókarinnar, sat ekki sjálfur fyrir svörum og meinaði frammámönnum og vísindamönnum fyrirtækisins að ræða við Guðna. Í bókinni er því vitnað í orð Kára úr viðtölum og fréttum úr fjölmiðlum og af Netinu. Bókin er upphaflega hugmynd útgefanda sem leituðu til Guðna. Guðni er spurður fyrir hvern hann hafi skrifað?

"Bókin var skrifuð vegna þess að stofnun og saga Íslenskrar erfðagreiningar er með merkustu þáttum í íslenskri vísinda- og viðskiptasögu seinni ára, og Kári Stefánsson á mestan heiður af því. Þar að auki er löngu tímabært á Íslandi að bækur séu skrifaðar um menn og málefni án þess að höfundur tengist viðfangsefninu beint. Ýmislegt í sögu Erfðagreiningarinnar er þess eðlis að hlutlausan mann mun eflaust greina á við forráðamenn fyrirtækisins, og hver á þá að ráða skrifunum? Þeirri spurningu getur stundum verið erfitt að svara. Bókin er skrifuð fyrir venjulegt fólk sem hefur áhuga á einu viðamestu þjóðfélagsmáli seinni ára, og ég reyni að láta öll sjónarmið koma fram. Það getur auðvitað valdið gremju hjá " stríðandi fylkingum" í baráttunni."

Eru ekki kostir við að skrifa um eitthvað beint úr samtímanum, án fjarlægðarinnar sem tíminn gefur?

"Jú, því efnið stendur okkur mjög nærri og þeir, sem geta tjáð sig um það, eru í fullu fjöri. Ýmsum ráðamönnum var líklega ekki fært að tjá sig um Kára og hans fyrirtæki. En því miður var það nú líka svo að sumir þorðu einfaldlega ekki að tjá sig um efnið þegar þeim skildist að það væri ekki unnið að undirlagi hans.

Atburðir dagsins í dag geta hæglega orðið verðugt verkefni fyrir sagnfræðinga á morgun. Sagnfræðingar eiga að láta til sín taka í þjóðmálaumræðunni. Gott dæmi er til dæmis umræðan um kjarnorkuvopn á Íslandi þar sem íslenskir sagnfræðingar geta gefið álit sitt í stað þess að láta stjórnmála- og fréttamönnum það einum eftir. "

Hvaða skoðanir hafðir þú sjálfur á Íslenskri erfðagreiningu áður en þú byrjaðir á verkinu og hvaða skoðanir hefur þú nú?

"Ég hafði hrifist af vinnu Íslenskrar erfðagreiningar og er enn þeirrar skoðunar að rannsóknir fyrirtækisins séu góðra gjalda verðar. Hins vegar tel ég að stjórnvöld hafi kannski ekki veitt fyrirtækinu nægt aðhald og best hafi það komið fram við gerð blessaðs gagnagrunnsins, sem hefur líklega gert fyrirtækinu meira ógagn en gagn hingað til, hvað svo sem síðar verður. Hver veit hvað hefði gerst, hefði í upphafi verið reynt að fara leið sátta? Þarna hefðu stjórnvöld átt að ráða ferðinni frekar en Kári Stefánsson. Yfirlýsing viðskiptaráðherra til Hoffmann-La Roche um aðgang Íslenskrar erfðagreiningar að sjúkraskrám áður en nokkuð lá fyrir um slíkt orkar líka tvímælis. Hvort tveggja getur reyndar verið gott dæmi um kraftinn í Kára Stefánssyni, og um hann er bókin alltaf órækt vitni," segir Guðni Th. Jóhannesson að lokum.