Þórólfur Beck fæddist í Reykjavík 21. janúar 1940. Hann lést á heimili sínu, Rauðarárstíg 5 í Reykjavík, 18. desember síðastliðinn. Foreldrar hans voru Rósbjörg Hulda Magnúsdóttir Beck, f. 22. júlí 1919, d. 6. desember 1981, og Eiríkur Þórólfsson Beck, stýrimaður, f. 17. nóvember 1918, d. 26. febrúar 1951. Þórólfur eignaðist eina systur, Guðrúnu Eiríksdóttur Beck, f. 8 júlí 1941. Þórólfur eignaðist einn son, Þórólf Þórólfsson Beck, f. 30. maí 1969 í Reykjavík, starfsmaður Ratsjárstofnunar í Reykjavík, maki Vilborg Einarsdóttir, barn þeirra er Ólöf Oddný Beck. Barnsmóðir Þórólfs er Oddný Björgólfsdóttir, f. 9. desember 1943 í Reykjavík.

Þórólfur ólst upp hjá móður sinni og ömmu en faðir hans lést af slysförum þegar hann var ellefu ára. Hann starfaði hjá Víkingsprent og lagði stund á prentiðn. Þórólfur vakti snemma athygli fyrir afburða knattleikni og lék hann fyrst í meistaraflokki KR árið 1957, þá aðeins 17 ára. Árið eftir var hann markahæsti leikmaður í 1. deild. Þórólfur var fastamaður í landsliði Íslands í knattspyrnu í mörg ár og var markahæsti leikmaðurinn ár eftir ár. Þórólfur var lykilmaður í liði KR-inga og varð Íslandsmeistari með liðinu á árunum 1959, 1961 og 1968. Þórólfur varð annar íslenskra knattspyrnumanna atvinnumaður í knattspyrnu er hann gekk til liðs við skoska félagsliðið St. Mirren árið 1961. Var hann kjörinn leikmaður ársins hjá félaginu 1962-63 og þótti með bestu leikmönnum í skosku knattspyrnunni. Árið 1964 keypti knattspyrnuliðið Glasgow Rangers Þórólf frá St. Mirren fyrir hæstu upphæð sem félagið hafði greitt fyrir knattspyrnuleikmann. Þórólfur lék með Rangers í tvö ár en var seldur þaðan til franska 1. deildarliðsins Rouen í desember 1966. Þar lék hann í hálft ár en fór síðan til Bandaríkjanna þar sem hann lauk atvinnuferlinum með St.Louis. Þórólfur sneri aftur heim og varð Íslandsmeistari með KR 1968 og lauk knattspyrnuferli sínum árið eftir.

Þórólfur lék alls 20 landsleiki fyrir Ísland og var fjórum sinnum fyrirliði landsliðsins.

Útför Þórólfs fer fram frá Bústaðakirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Elskulegur mágur minn og góður vinur er látinn. Þessi orð heyra menn oft á öldum ljósvakans án þess að skeyta því miklu. Það gegnir hinsvegar öðru máli þegar hinn látni stendur mönnum nær. Í fjarska virðist svo ofur eðlilegt að menn deyi, því það er ekkert líf án dauða og enginn dauði til án lífs. Þessum staðreyndum fær enginn breytt. Þrátt fyrir þessa vitneskju verðum við sem eftir lifum alltaf jafnundrandi þegar dauðinn knýr dyra hjá nánum vinum og ættingjum. Mitt í undirbúningi hátíðar ljóss og hlýju slokknar ljós og kólnar, mitt í þeim undirbúningi sem mest eftirvænting fylgir, eftirvænting, gleði og helgi. Fregninni um andlátið fylgir sársauki og harmur. Mitt í treganum vakna síðan margar áleitnar spurningar, spurningar sem enginn fær svarað nema sá sem öllu ræður. Það eru svo óteljandi minningar sem sækja á hugann þegar ég hugsa um Þórólf. Ég kynntist honum fyrst þegar ég gekk að eiga einkasystur hans sem hann hélt mikið upp á og dáði alla tíð. Kynni okkar hafa því staðið í 35 ár sem aldrei hefur borið skugga á. Þórólfur var drengur góður, einlægur og einkar þakklátur þeim sem veittu honum hjálparhönd. Veikindi höfðu hrjáð hann í mörg ár en hann lét aldrei bugast. Allir vita að jólin eru hátíð barnanna og ekki skyggði hann á þá hátíð. Það ríkti alltaf hátíð í bæ á jólunum og þess vegna eigum við erfitt með að sætta okkur við jólahátíðina án hans. Börnin okkar og barnabörn nutu þess einnig að hafa hann í návist sinni.

Fyrir tveimur árum greindist Þórólfur með hjartasjúkdóm og var búinn að vera á sjúkrahúsi þrisvar sinnum á þessu ári með skömmu millibili. Hann var nýkominn heim af hjartadeild Landspítalans þegar kallið kom. Frómt frá sagt gæti ég haldið lengi áfram enn en það sem enn er ósagt ætla ég að geyma með mér og verma mig við um jólahátíðina og alla aðra tíma. Ég bið guð að leiða Þórólf inn í ljósið og birtuna, þá einu sönnu sem við eigum.

Magnús Tryggvason.

Kæri frændi, leiknum er lokið, þessi lífsleikur var erfiður en þú stóðst þig vel, þú vannst vel úr erfiðum færum og mörk þín, sem þú settir, eru lærdómurinn sem við drögum af því hvernig þú spilaðir þennan leik, - þú hafðir ákveðnar skoðanir en framkoma þín var öll ljúf og við eigum góðar minningar um samveruna með þér.

Eftir að Þórólfur upplifði þá erfiðu reynslu að missa föður sinn sem ungur drengur, þá flutti hann ásamt Guðrúnu systur sinni og móður þeirra í hús ömmu Guðrúnar, Sólbakka við Lágholtsveg, bæði húsið og gatan láta lítið fyrir sér fara í vesturbænum, en þarna átti fjölskyldan góðar stundir, og hjá ömmu voru samverustundir hjá stórfjölskyldunni, ekki síst á jólunum, og kynni styrktust.

Knattspyrnan var mjög stór þáttur í lífi Þórólfs, eins og svo margra annarra drengja, þegar ég sem strákur kom í heimsókn til ömmu þá var helst að hitta Þórólf úti á Framnesvelli í fótbolta, þar var vinsæll "drengja"-völlur sem strákarnir léku mikið á, en þrátt fyrir það var KR og KR-völlurinn auðvitað kjölfestan, en á þessum velli tók ég nokkrum sinnum þátt í fótboltanum, auðvitað var það Þórólfur sem valdi þennan ókunna strák í lið sitt og hvatti mig á sinn líflega hátt, og jafnvel síðar á ævinni þegar við spiluðum gegn hvor öðrum þá hvatti hann engu síður, hann var einlægur og innilegur.

Þórólfur var keppnismaður og gaf sjálfum sér ekkert eftir, þetta sýndi hann okkur á knattspyrnuvellinum, þar gladdi hann marga, bæði hér heima og ekki síður erlendis, þessir eiginleikar voru góðir þegar hann þurfti að glíma við sín veikindi, hjá honum fannst ekki sjálfsvorkunn, en þar skipti líka miklu máli að hann hafði sterka meðspilara í þeim erfiða leik, sá sterkasti var Guðrún systir hans og fjölskylda hennar, sonurinn og fjölskylda hans, sem hann var líka stoltur af, og ekki síst gömlu góðu KR-ingarnir. Var hann þakklátur að eiga svo sanna vini.

Þessar fáu stundir sem við frændur áttum saman seinni árin gáfu vonandi okkur báðum mikið, ég er þakklátur fyrir þær.

Á spítalanum núna síðsumars fann ég hvað Þórólfur var stoltur af KR-liðinu og er ánægjulegt að hann skyldi fá að upplifa sigurhátíð þeirra eftir að þeir endurheimtu Íslandsmeistarabikarinn sem hann mörgum áður áður hafði hampað.

Þórólfur minn, skeytið með jólakveðjum frá þér fæ ég ekki núna, jólapakkinn þinn sem átti að koma til þín daginn sem þú kvaddir fer á annan góðan stað, lífið allt er síbreytilegt, en ég er þakklátur fyrir okkar góðu kynni, - á þessari kveðjustund veit ég eitt, minning þín verður ódauðleg meðal knattspyrnuunnenda og þegar ég rita þessar línur þá hljómar í eyrum mér setning úr söngtexta Ómars Ragnarssonar, "Þórólfur, upp með sokkana".

Við Erla biðjum Guð að blessa þig og fjölskyldu þína alla.

Skúli Jóhannesson.

Mér er ógleymanlegt hvernig faðir minn minnti mig á það í eitt skipti fyrir öll, að maður sofnar ekki á verðinum þegar knattspyrna er annars vegar. Það var fyrir fjörutíu árum, daginn fyrir sjö ára afmælið mitt. Sögusviðið er stúkan á Laugardalsvellinum sem þá var svo nýr og glæsilegur að hann var kallaður leikvangur, ekki völlur. Þar fór fram landsleikur við Dani. Slíkir landsleikir voru þá í sérflokki enda héldu Íslendingar uppi sjálfstæðisbaráttu við Dani í íþróttum löngu eftir lýðveldistökuna á Þingvöllum.

Ég var hér mættur í stúkuna með foreldrum mínum og systkinum af ærnum ástæðum: Þórólfur frændi, systursonur föður míns, var að leika sinn fyrsta landsleik. Eitthvað þrengdist að okkur í stúkunni í seinni hálfleik og fyrr en varði var ég kominn í fangið á föður mínum. Þar sveif á mig höfgi og ég hætti að fylgjast með leiknum. Í þann mund er ég var að svífa inn í draumaheima sýndi þessi ungi frændi minn einn af sínum snilldartöktum og skoraði glæsilegt mark. Ég hentist upp í tvenn skonar skilningi: Annars vegar við gífurleg fagnaðarlæti en hins vegar hafði faðir minn hent mér hátt í loft upp í hita augnabliksins. Hann greip mig að vísu aftur en ég lærði fyrir lífstíð að knattspyrnan er ekkert grín.

Á þessu sumri og tveimur næstu var Þórólfur Beck að sanna á eftirminnilegan hátt að hann var ekki einungis liðtækur landsliðsmaður heldur fræknasti knattspyrnumaður þjóðarinnar. Hann hóf að leika með meistaraflokki KR aðeins sautján ára, fór fremstur meðal jafningja í glæsilegasta meistarflokksliði í sögu íslenskrar knattspyrnu, gullaldarliði KR, sem vann Íslandsbikarinn 1959 með fullu húsi stiga, varð markahæsti leikmaður KR í meistaraflokki 1958, varð markakóngur deildarinnar 1959, setti markamet í deildinni 1960 og bætti metið 1961 er hann skoraði sextán mörk í aðeins átta leikjum.

Þórólfur var annar Íslendingurinn sem varð atvinnumaður í knattspyrnu. Hann hóf að leika með St. Mirren í Skotlandi haustið 1961, var kjörinn leikmaður ársins hjá félaginu 1962-63, og var almennt talinn einn fremsti leikmaður í skoskri knattspyrnu er stórveldið, Glasgow Rangers, greiddi fyrir hann hærri upphæð en félagið hafði nokkurn tíma greitt fyrir leikmann.

Það var ekki ónýtt að eiga slíkan frænda þegar ég fór sjálfur að sparka bolta í yngri flokkum KR. Einhvern tíma var ég fyrirliði og var þá kynntur fyrir fyrirliða andstæðinganna sem frændi Þórólfs. Þar með vorum við nánast búnir að sigra, áður en flautað var til leiks. Þegar Þórólfur kom heim í stutt leyfi á sumrin lagði hann gjarnan leið sína útí KR-heimili og fylgdist þá stundum með kappleikjum okkar pollanna. Þá var lífshamingjan fólgin í keppnisanda og rjóðum kinnum, hrufluðu hné og Seven Up-flösku sem Þórólfur færði litlum frænda í hálfleik. Fyrir ungan KR-ing varð ekki lengra komist í höndlun hamingjunnar.

Ég minnist þess einnig frá þessum árum er Þórólfur kom heim í jólaleyfi, klyfjaður Macintosh-konfekti sem hann útdeildi til okkar yngri frændsystkina sinna. Hann var alla tíð með afbrigðum barngóður og frændrækinn. Skjót forfrömun í útlöndum og heimsfrægð á Íslandi breytti engu þar um. Þórólfur átti alltaf tíma fyrir unga fólkið í stórfjölskyldu ömmu á Lágholtsveginum.

Þetta voru góð ár. En góðu árin líða eins og önnur. Við tóku veikindi og erfiðleikar í lífi hans. Það var samt alltaf jafn notalegt að heimsækja Þórólf, rifja upp gamla tíma og spá í möguleikann á Íslandsmeistaratitli sem við biðum lengi eftir.

Loksins á hundrað ára afmæli KR, nú í ár, var biðin á enda. KR-ingar urðu ekki einungis Íslandsmeistarar í meistaraflokki karla heldur unnu tvöfalt í hvoru tveggja, karla- og kvennaknattspyrnu og báru reyndar sigur úr býtum í flestum knattspyrnumótum ársins. Þannig kvaddi Vesturbæjarstórveldið þennan frækna son sinn. Það var því ómetanlegt og mikill heiður að fá að fagna þessum sigrum með Þórólfi nú í haust.

Á afmælishátíð KR í síðasta mánuði spjölluðum við saman góða stund og tekin var mynd af okkur með Sigríði Jóhannesdóttur, frænku okkar. Það þótti honum vænt um. Hann var þreytulegur en ánægður með alla sigrana á árinu, hin nýju húsakynni félagsins og glæsilega afmælishátíð. Ég sá hann ekki eftir það.

Þegar ég nú lít um öxl á þessari kveðjustundu, þrjátíu og fimm árum eftir að Þórólfur færði mér lífshamingjuna í Seven Up-flösku úti í KR, hefur í rauninni ekkert breyst sem máli skiptir. Ég er enn - og verð alla tíð - jafn stoltur og jafn þakklátur fyrir að hafa átt Þórólf Beck að frænda. Ekki einungis vegna þess að hann var einn fremsti knattspyrnumaður þjóðarinnar, fyrr og síðar. Heldur einnig og ekki síður vegna þess að hann var óvenju elskulegur maður og góður frændi sem gott var að eiga að.

Ég kveð þig, kæri frændi, með söknuði, virðingu og þakklæti.

Við hjónin sendum Oddnýju, barnsmóður Þórólfs, og Þórólfi, syni hans, innilegar samúðarkveðjur. Elsku Guðrún frænka! Megi minningin um góðan bróður styrkja þig í sorginni.

Kjartan Gunnar Kjartansson.

Hann var að sönnu einn af mestu knattspyrnuköppum Íslands og sá orðstír mun halda nafni hans á lofti um ókomna tíð. Ég naut þeirra forréttinda að eiga með honum samleið á knattspyrnuvellinum.

Minningin um Þórólf Beck er mér þó miklu djúpstæðari en sem lýtur að fótboltanum sérstaklega. Hugurinn hvarflar aftur til þeirra æskuára, sem við nutum og upplifðum í sameiningu, þegar veröldin blasti við í öllu sínu veldi og beið eftir því að verða sigruð. Árin þegar við vorum ungir og hraustir unglingar í vesturbænum, þegar glaðværð einfaldleikans, flekkleysi samviskunnar og lífskrafturinn af kynhormónunum, rak okkur félagana á vit ævintýranna. Við vorum saman í fótboltanum og nutum velgengni, við vorum saman á röltinu og bíóinu og danshúsunum og sjálfstraustið óx innan sem utan vallar, vegna þess að hópurinn stóð saman, hló saman og brallaði margt.

Þetta var dásamlegur tími, áhyggjulaus, tímaskynslaus, saklaus. Þetta var tíminn frá gelgjuskeiði til giftingar, þegar ungir menn hlaupa af sér hornin.

Einn minn besti félagi á þessu æviskeiði var ljóshærði strákurinn af Bráðræðisholtinu. Við hittumst raunar miklu fyrr og byrjuðum held ég báðir að spila 1949 með KR, tíu ára gamlir, fyrir rétt nákvæmlega fimmtíu árum. Uxum upp í gegnum yngri flokkana og vorum bara sautján ára þegar kallið í meistaraflokk kom.

Og þessi ár, sautján ára ærslabelgir, nítján ára monthanar, tvítugir sigurvegarar, voru árin þar sem vináttan var knýtt og bræðraböndin og fóstbræðralagið. Ég sé hann ennþá fyrir mér, hlaupandi niður tröðina á Lágholtsveginum, með gullið hárið flaksandi, skyrtuna ógirta, brosandi, sviphreinan, yndislega sjálfsöruggan. Ég man enn hve stoltir við vorum þegar stelpurnar flykktust að honum, þegar andstæðingarnir á vellinum hrukku af honum og mörkin komu í öllum regnbogans litum.

Og svo þegar Diddi leitaði sér frægðar og frama í útlöndum, kom hann alltaf heim á sumrin og aftur var þráðurinn tekinn upp í gamla félagsskapnum og alltaf var glókollurinn Þórólfur hrókur alls fagnaðar.

Já, þetta voru lífsglaðir og hamingjusamir dagar ungra fullhuga og fjörkálfa, og þannig varðveiti ég ímynd Þórólfs Beck í huga mínum og þannig mun hún að eilífu tengjast þeim gleðidögum, sem við félagarnir nutum, þegar við vorum að uppgötva lífið í sjálfum okkur og lífið í kringum okkur.

Þórólfur Beck var meðalmaður á hæð, þrekvaxinn og þéttur á velli. Fitnaði með árunum. Hann var hjartahlýr, einlægur, trygglyndur og hafði gott skopskyn. Andlit hans var bjart, nefið beint og blá augun tindrandi fögur. Hann lét aldrei ljótt orð falla um þá sem honum voru andsnúnir og mátti aldrei neitt aumt sjá. Hann var auðveldlega særður ef því var að skipta og stoltur var hann Diddi af mömmu sinni og fjölskyldu. Rósa mamma hans var sjómannsekkkja og bjó við erfið kjör og það var það fyrsta sem Þórólfur gerði þegar hann eignaðist peninga í atvinnumennskunni, var að mála heima á Lágholtsveginum og gera vel við mömmu og Gunnu systur. Fáir höfðu meira keppnisskap en Þórólfur, það fékk hann úr móðurgarði, þar sem þau systkinin lærðu að eflast við hverja raun og ekkert fékkst nema haft væri fyrir því.

Já, Þórólfur Beck hafði keppnisskap. Og hann hafði knattleiknina og auga og hugsun fyrir hverri hreyfingu. Hann hafði allt. Hann var snillingur af Guðs náð, þegar hann batt á sig fótboltaskóna. Til marks um yfirburði hans og hæfileika í knattspyrnunni, skal þess eins getið að í 90 leikjum KR á fjórum árum (1958-1961), skoraði hann 87 mörk og leiddi félagið til sigurs í tíu af tólf mótum.

Eftir Skotlandsdvöl sína þvældist Þórólfur til Frakklands og Bandaríkjanna og kom svo heim aftur og lék með KR í tvö ár,. En þetta voru honum erfið ár, sjúkdómurinn hafði tekið sér bólfestu, andlegri heilsu Þórólfs fór hrakandi og síðustu þrjátíu árin hefur hann búið með veiki sinni og tekist á við hana eins og við lífið áður, af fullri sæmd, af stolti og karlmennsku. Háttvís, brosmildur, fagnandi. Þannig hittumst við síðast á aldarafmælishátið félagsins okkar. Í faðmlögum.

Ég tek hann enn í faðm minn, þennan elskulega dreng, og syrgi hann og trega. Tímaskeiði er lokið. En Þórólfur hvílir nú í friði, í þeim friði, sem hann hefur lengi þráð.

Þórólfur er genginn, en orðstír hans mun lifa.

Ellert B. Schram.

Kveðja frá KR.

Það kom mér ekki á óvart þegar ég frétti andlát æskuvinar míns og KR-ings Þórólfs Beck. Það kom mér hinsvegar á óvart að hann skyldi hafa verið sendur helsjúkur heim af sjúkrahúsinu því hann hafði verið meira og minna á sjúkrahúsi frá miðju sumri.

Ég kom til hans á sjúkrahúsið nokkrum dögum fyrir andlát hans og fórum við strax að tala um knattspyrnu, en af henni er nafn hans þekkt, ekki bara á Íslandi heldur í Skotlandi og víðar.

Þórólfur hóf að keppa í knattspyrnu árið 1949 þá níu ára gamall, en þá keppti hann með sér eldri drengjum. Slík var leikni hans að hann fór betur með bolta en allir aðrir drengir strax í byrjun. Hann þurfti ekki að hafa áhyggjur af hvort hann kæmist í liðið eða ekki, hann var frá upphafi sjálfsagður í það.

Þórólfur var frekar lágvaxinn á unglingsárum og þótti sumum eldri KR-ingum að það væri betra að hafa stærri og kröftugri stráka í liðinu, en þá svaraði þjálfari hans "að þeir næðu allir jafnlangt niður". Hann lék upp í gegnum alla yngri flokka félagsins, en spilaði sinn fyrsta leik með meistaraflokki í haustmóti 1957 gegn Þrótti. KR vann með yfirburðum og skoraði Þórólfur mörg mörk í leiknum. Þórólfur skoraði ekki bara mörk, hann setti svip sinn á spil liðsins, svip sem átti eftir að aukast mjög mikið. Ekki vegna hraða, Þórólfur var ekki mjög fljótur, heldur vegna tækni og hann var einstaklega sparkviss.Hann gat leikið á 2-3 menn að manni virtist áreynslulaust komið síðan upp að markinu og rennt boltanum fram hjá markmanninum, eða skotið föstum bolta hnitmiðað eftir því sem við átti. Þannig var öll hans knattspyrna, leikni, gott auga fyrir samspili og ánægja síðast en ekki síst. Þá snilli sem Þórólfur hafði er erfitt að útskýra en að leika knattspyrnu var honum svo auðvelt að það var hreint ótrúlegt. Hann bókstaflega gat gert allt við knöttinn annað en látið hann tala.

Hann varð Íslandsmeistari með KR í knattspyrnu þrisvar sinnum. Þórólfur var markahæsti leikmaður í 1. deild í nokkur ár. Hann var jafnframt fastamaður í landsliði Íslands í mörg ár og lykilmaður þess.

Þórólfur fór í atvinnumennsku til 1. deildar liðsins St.Mirren og lék með því liði í nokkur ár við miklar vinsældir og gladdi hann skoska áhorfendur með leik sínum og enn í dag minnast skoskir knattspyrnuáhorfendur Þórólfs. Frá St.Mirren fór hann til Glasgow Rangers og lék þar í tvö ár, en þá var heilsu hans farið að hraka og stutt í endalok knattspyrnuferils hans.

Þórólfur kom heim haustið 1967 og hafði þá verið í smátíma í Frakklandi og í Bandaríkjunum. Árið 1968 varð hann Íslandsmeistari með KR. Félagið sér nú á bak sínum besta knattspyrnumanni sem hætti vegna veikinda á besta aldri. Hann naut þess þó undanfarin ár að vera með okkur á vellinum og allir þeir sigrar sem unnust í sumar glöddu hann mjög.

KR-ingar sakna Þórólfs og sendir félagið samúðarkveðjur til sonar, systur og annarra ástvina. Við hjónin söknum góðs vinar og þökkum alla vináttuna.

Blessuð sé minning Þórólfs Beck.

Kristinn Jónsson, formaður KR. Dauðinn er viss og óviss í senn. Öll vitum við að hann kemur, en hvenær vita fæstir með vissu. Síðasta skiptið sem ég kvaddi Þórólf eftir heimsókn til hans á sjúkrahús kvaddi hann mig með svo miklum innileik, að það var eins og hann skynjaði að þetta væri okkar hinsta kveðja í þessu lífi.

Að Þórólfi látnum reikar hugur minn til æskuáranna þegar líf okkar í vesturbænum snerist um fótbolta og Framnesvegsvöllurinn var aðalvöllurinn. Þar var aragrúi stráka sem léku sér í fótbolta frá morgni til kvölds. Allir sáu strax að einn þeirra, snaggaralegur glókollur, bar af öðrum. Það var eins og boltinn væri límdur við hann og hann gæti platað alla upp úr skónum án þess að hafa nokkuð fyrir því. Þarna kynntumst við Þórólfur fyrst og ég var fljótur að sjá að ef ég ætlaði að vera í sigurliði þá yrði ég að ná því að spila með honum, en ekki á móti.

Af Framnesvegsvellinum lá leið okkar að sjálfsögðu í KR. Þar mótaðist og þroskaðist Þórólfur sem knattspyrnumaður undir frábærri handleiðslu Sigurgeirs Guðmannssonar og Atla Helgasonar þjálfara í yngri flokkum félagsins og síðar hjá Óla B. Jónssyni þjálfara meistaraflokks. Þórólfur hóf að leika í meistaraflokki KR 1957 og lék stórt hlutverk í því að skapa gullaldarlið KR í kringum 1960. Þórólfur gerðist síðan atvinnumaður í knattspyrnu haustið 1961 en sneri heim aftur haustið 1967 og hóf þá að leika aftur með KR með þeim árangri að félagið varð Íslandsmeistari 1968. Þórólfur var allan sinn feril yfirburðamaður í íslenskri knattspyrnu og öllum sem til hans sáu á vellinum ógleymanlegur.

Vafalaust er það svo að margir munu minnast Þórólfs með sama hætti og ég hef gert hér að framan, það er fyrir snilli hans á vellinum. En knattspyrnan og KR skiluðu okkur mun meiru heldur en skoruðum mörkum og glæstum sigrum. Ég mun minnast Þórólfs fyrst og síðast fyrir vináttu hans allt frá æskuárum til dauðadags. Þegar allt lék í lyndi og hann var orðinn stjarna í útlöndum gleymdi hann aldrei uppruna sínum, vinum sínum hér heima og sínu gamla og góða félagi.

Lífshlaup Þórólfs var tvískipt; annars vegar tími gleði, frægðar og frama og síðan tími veikinda og einveru. Síðustu árin fylgdist Þórólfur með öllum leikjum KR sem hann gat og ég veit að í veikindum hans skipti KR og gengi þess hann afar miklu máli. Við glöddumst saman í sumar yfir glæsilegum árangri KR á 100 ára afmælisárinu og það veitti honum ómælda gleði þegar Íslandsmeistaratitillinn var í höfn í fyrsta sinn allt frá því að Þórólfur færði félaginu þann titil síðast, árið 1968.

Að leiðarlokum kveð ég vin minn með þakklæti fyrir allar samverustundir okkar innan vallar sem utan. Sérstakar þakkir færi ég líka frá félögum Þórólfs, sem léku með honum i 3. flokki KR 1956. Ég votta Þórólfi syni hans, Guðrúnu systur hans og fjölskyldum þeirra innilega samúð.

Gunnar Felixson.

Sumarið 1992 varð ég þeirrar gæfu aðnjótandi að kynnast Þórólfi Beck og eiga við hann ítarlegt viðtal um lífshlaup hans - lífshlaup sem var um margt óvenjulegt og áhrifaríkt. Ungur hafði hann borið af bestu knattspyrnumönnum landsins fyrir leikni sem þótti ganga göldrum næst. Dáður af þjóðinni allri hafði hann síðan dregið sig í hlé frá skarkala heimsins og úr því sviðsljósi sem um hann hafði leikið frá unglingsaldri.

Hafi nokkur maður kennt mér hve heilbrigði er afstætt og vandmeðfarið hugtak þá var það Þórólfur. Þótt sjúkdóms síns vegna teldist hann ekki ganga heill til skógar var hann einhver heilbrigðasti maður sem ég hef kynnst, hafði á hraðbergi tilvitnanir og spakmæli sem vitnuðu um jákvæða og fagra lífssýn. Þrátt fyrir eigið mótlæti gat hann ekki leynt gleði sinni yfir velgengni annarra og lá fádæma gott orð til þeirra sem orðið höfðu honum samferða á lífsins leið.

"Ég vissi alltaf að ég myndi ekki leika knattspyrnu alla ævi," sagði hann meðal annars í samtali okkar. "En það er misskilningur að ég hafi ekki haft hugmyndir um að gera eitthvað annað. Ég hafði bæði vonir og hugmyndir um annað. En það brást. Guð gefur og Guð tekur. Og fyrst svona fór verða aðrir að lifa mína drauma. Ég hef líka litið svo á að draumar mínir hafi ræst á öðrum, til dæmis gömlu félögum mínum í KR. Á sínum tíma glöddust þeir yfir velgengni minni. Nú gleðst ég yfir velgengni þeirra."

Í sigrum sínum og ósigrum tókst Þórólfi ekki aðeins að varðveita æðruleysi sitt og þau heilbrigðu lífsviðhorf sem hann þakkaði foreldrum sínum að hafa innrætt sér, heldur einnig að opna augu okkar hinna fyrir þeim gildum sem gera lífið þess virði að lifa því.

Guð blessi minningu Þórólfs Beck.

Garðar Sverrisson, formaður Öryrkjabandalags Íslands. Þórólfur Beck er dáinn og frá okkur farinn. Þessi mikli knattspyrnukappi hefur lokið leik. Á árum áður hreif hann alla með leik sínum, leikni og lipurð á knattspyrnuvöllum víða um heim og verður vafalítið um alla framtíð talinn einn fræknasti fótboltamaður þjóðarinnar.

Með slíkan snilling í sínum röðum voru KR-ingar nánast óviðráðanlegir og urðu Íslandsmeistarar 1959 með fádæma yfirburðum og var Þórólfur þar í lykilhlutverki. Þórólfur var hetjan mín og fyrirmynd. Hann var ekki eingöngu snillingur í fremstu röð, heldur mikið ljúfmenni og drengur góður.

Ég stóð vart út úr hnefa á Bárugötunni, þegar ég fékk að fara með eldri leikfélögum mínum í Mekka knattspyrnunnar í vesturbænum, á sjálfan Framnesvegsvöllinn. Þar komu saman strákalið úr öllum áttum og háðu harðar rimmur á meðan staðið var í fætur. Þarna tók Þórólfur mig undir sinn verndarvæng, kenndi mér og hvatti til dáða. Þá kom góðmennska hans hvað best í ljós og hann var óþreytandi að leyfa litla pjakknum að fylgja sér á hjólinu í leiki og bjóða svo upp á rjómaköku að leik loknum. Hann var þá kominn í sigursælt þriðja flokks lið KR-inga, sem meðal annars sigraði á Norðurlandamóti. Nokkur aldursmunur var á okkur og fékk ég því miður ekki að æfa með þessum sigursælu strákum.

Ég fylgdist eins og margir aðrir glöggt með frækinni framgöngu hans í knattspyrnu og nánast alls staðar skar hann sig úr vegna ótrúlegrar tækni.

Eftir að hann hafði leikið sem atvinnumaður í Skotlandi, Frakklandi og Bandaríkjunum kom hann loks heim og þá rættist bernskudraumur minn, að leika í alvöruliði með Þórólfi Beck, átrúnaðargoðinu mínu.

Við lékum saman nokkra landsleiki og þrátt fyrir aukinn frama hafði hann ekki ofmetnast og var sami góði félaginn. Á þessum árum veiktist Þórólfur og varð að hætta afskiptum af knattspyrnunni, sem hafði verið hans líf og yndi. Það var sárt að þurfa að sjá á bak honum úr boltanum, en miklu sárara var að sjá þennan góða félaga missa heilsuna, sem hann náði aldrei aftur.

Þórólfur naut alla tíð mikillar aðstoðar og ástúðar ástkærrar systur sinnar og annarra ástvina og margir KR-ingar studdu félaga sinn með ráðum og dáð, svo aðdáunarvert var.

Fyrir nokkrum árum hittumst við vegna viðtals við KR-blaðið, fórum í KR-búninga og rifjuðum upp liðna tíð. Þá var glatt á hjalla og Þórólfur sýndi mér eins og áður nokkra snilldartakta með boltann og gleðin leyndi sér ekki. Með stríðnisglampa í augum og sínu fallega brosi sagði hann að rauði liturinn hefði aldrei farið mér vel, ég hefði orðið skárri röndóttur eins og hann.

Þessar fátæklegu línur eru settar á blað til að minnast þessa góðhjartaða og snjalla knattspyrnumanns og þakka fyrir allt sem hann gaf mér og öðrum. Þórólfur var mjög trúaður og hverfur nú örugglega til góðra heimkynna. Þar verður vonandi hægt að sparka í bolta þegar við hittumst á ný. Ég sendi syni hans, systur og fjölskyldum mínar innilegustu samúðarkveðjur og minningin um góðan dreng mun lifa.

Hermann Gunnarsson.

Ég finn mig knúinn til þess að kveðja með nokkrum línum vin minn, Þórólf Beck. Þegar ég var að stíga mín fyrstu skref á æfingavöllum KR í Frostaskjólinu stóð Þórólfur á tindi frægðar sinnar, hafði nýlokið glæsilegum ferli erlendis, kominn heim til þess að auka hróður síns gamla félags. Í búningsherbergjum var Þórólfur hrókur alls fagnaðar, ævinlega kátur svo geislaði af honum. Að honum sópuðust ungir og upprennandi knattspyrnumenn eins og flugur og vildu tala við goðið, því Þórólfur var sveipaður ævintýraljóma og álitinn einn mesti knattspyrnumaður sem Ísland hafði alið. Líkur öðrum meistara leyfði hann börnunum að koma til sín, en flæmdi þau ekki burtu. Hann hafði tíma fyrir alla og vingjarnlegt orð að miðla þeim sem sóttust eftir félagsskap við hann. Manngæskan og ljúfmennskan ljómuðu af honum. Hann gerði sér grein fyrir því að lykillinn að velsæld félagsins væri ungviðið og sú alúð sem því er sýnd.

Eftirminnileg er æfing hjá glímudeild KR sem undirritaður ásamt góðum vini rakst inn á fyrir slysni eftir að hafa púlað í rúman klukkutíma hjá Sigurgeiri og Atla. Ekki varð glímt sökum fámennis, en tiltæku liði smalað saman og farið í fótbolta. Þórólfur Beck var í húsinu og því kallað á hann. Frjálslega var skipt inná og útaf þegar hvíla þurfti leikmenn og riðlaðist liðskipan því af og til. Þar átti ég þess kost að leika með og á móti Þórólfi eftir því sem verkast vildi, og Sigtryggi glímukappa. Um tíma léku Þórólfur og Sigtryggur saman móti okkur vinunum og mun eitthvað hafa hallað undan fæti hjá þessum landsþekktu hetjum. Sigtryggi hljóp kapp í kinn og heimtaði gömlu liðsuppstillinguna aftur, Þórólfur kímdi og lauk lofsorði á frammistöðu ungu mannanna. Þau orð vógu þyngra en nokkurt þingfest vottorð með opinberum stimpli. Á þeim lifði maður lengi og sýnir það hvílík virðing var borin fyrir þessum snjalla knattspyrnumanni.

Mættu sem flestir íþróttamenn líkjast Þórólfi í orði og athöfn, ekki síst í viðmóti og framkomu við æskuna, sem vill komast nálægt þeim.

Blessuð sé minning Þórólfs Becks.

Ólafur Grétar Kristjánsson.