[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í ÁRSBYRJUN 1944 mátti öllum ljóst vera að skjótt drægi til innrásar á meginland Evrópu. Einnig gátu Þjóðverjar þá allt eins búist við árás á stöðvar sínar í Noregi, sem að sjálfsögðu þýddi að herlið frá Íslandi kæmi þar við sögu.

Í ÁRSBYRJUN 1944 mátti öllum ljóst vera að skjótt drægi til innrásar á meginland Evrópu. Einnig gátu Þjóðverjar þá allt eins búist við árás á stöðvar sínar í Noregi, sem að sjálfsögðu þýddi að herlið frá Íslandi kæmi þar við sögu. Því var ekki óeðlilegt að Þjóðverjar væru áhugasamir um framvindu mála hér á landi, einkum á herskipalæginu í Seyðisfirði sem herliðið á Háahrauni átti að verja. Eitt var það þó sem þá félaga skorti tilfinnanlega, tímanlegar viðvaranir um óvinaflugvélar. Er hér var komið sögu hafði ratsjárstöðvunum á Austurlandi verið lokað. Þá voru byssur þeirra heldur ekki ratsjárstýrðar, en ratsjár voru nýjung í miðunarbúnaði sem gerðu kleift að skjóta á flugvélar ofar skýjum eða á ferð í myrkri og dimmviðri.

Miðunarbúnaðurinn var sérstakur sjónaukabúnaður sem mældi fjarlægð og hæð skotmarksins og frumstæður tölvubúnaður sem reiknaði stöðugt út áætlaðan feril þess svo miða mætti skotunum í veg fyrir skotmarkið. Rafboð frá miðunartækjunum bárust hreyfibúnaði byssnanna og miðaði þeim á sjálfvirkan hátt og stillti kveikibúnað í nefi sprengikúlnanna svo að þær spryngju á réttum tíma. Æfðu skytturnar sig í að miða á sérstaka loftbelgi og þær fáu vinveittu flugvélar sem leið áttu um svæðið.

Mönnum sínum til enn frekari þjálfunar ákvað Dynia að nota sérstakar rakettur sem fyrirrennarar þeirra höfðu skilið eftir. Þær voru um metri að lengd og 10 cm í þvermál og var skotið á loft með rafmagnskveikibúnaði af bryggjunni á Eyrum. Að morgni fimmtudagsins 10. janúar 1944 var blásið til skotæfinga. Þorpsbúar voru varaðir við, rakettunum komið fyrir á bryggjunni og tvær hraðskeyttar 37 mm loftvarnarbyssur og nokkrar smærri vélbyssur mannaðar á hjallanum ofan við þorpið. Dynia stóð hjá byssunum uppi á hjallanum og fékk boð frá þeim sem stjórnaði rakettuskotinu á bryggjunni rétt áður en hún fór á loft. Fyrsta rakettan var óvirk, sennilega af því að hafa legið úti allan veturinn. Sú næsta tók flugið og þaut í austurátt á yfir 300 km hraða og allar skytturnar hömuðust sem óðar væru. Þetta var endurtekið nokkrum sinnum. Engin leið var að hitta rakettuna, svo lítil sem hún var, en hermennirnir fengu góða þjálfun í að elta hraðfleygt skotmarkið uppi með ljóskúlnabununni sem stóð úr byssunum.

Einn hermannanna vakti athygli Dynia á þremur deplum sem færðust í átt til þeirra hátt á austurhimni. Brátt komu í ljós þrjár fjögurra hreyfla flugvélar í oddaflugi. Dynia hugsaði sér gott til glóðarinnar að nota þessar bandarísku B-17 sprengjuflugvélar, sem hann taldi þær vera, til að æfa menn sína í miðunartækni. Finley, liðþjálfinn sem stjórnaði skyttunum við æfingarnar, var einn af fáum reyndum atvinnuhermönnum í liðsflokknum. Hann hafði þá gefið skipun um að skipta út æfingaskotum og hlaða byssurnar alvöru sprengikúlum. Er Dynia kannaði flugvélarnar betur í sjónauka sá hann svarta krossa neðan á vængjunum og sérstakt lag flugvélaskrokkanna. Rann þá upp fyrir honum að þetta væru þýskar Focke-Wulf 200 Condor sprengjuflugvélar og stefndu á skipalægið í Fjarðarenda. Gaf hann mönnum sínum þegar skipun um að láta vélarnar nú hafa það úr öllum byssunum því þær væru þýskar. Hann telur að flugvélarnar hafi þá verið í um 12.000 feta hæð og langt utan drægis byssnanna. Dynia telur að hann hefði ekki getað aftrað mönnum sínum frá því að skjóta á þær þótt hann hefði viljað, svo fegnir hafi þeir verið að fá nú að brjótast út úr fásinninu á þessum eyðilega stað, þar sem þeim þótti þeir vera engum til gagns, og geta tekist á við óvininn.

Meðan á æfingunni stóð höfðu stjórnendur stóru loftvarnarbyssnanna fjögurra æft sig í meðferð miðunarbúnaðarins og því voru ljósavélarnar sem knúðu þær í gangi. Flestar skytturnar voru hins vegar niðri í brekkunni að fylgjast með skotæfingunni, en voru nú snöggar að hafa sig upp eftir og manna byssurnar. Hófu þeir skothríð á vélarnar skömmu eftir að þær fóru hjá Eyrum og virtist sem kúlurnar í fyrstu hrinunni færu nærri skotmarkinu. Skyndilega skall ógæfan yfir. Sá hluti tölvubúnaðarins sem gaf sjálfvirkum stillibúnaði fyrir kveikjur sprengikúlnanna merki hrundi, svo notuð sé líking í tölvumáli, og varð hann óstarfhæfur. Liðþjálfinn sem hafði umsjón með stillingu kúlnanna, Jerry Morneau að nafni, hélt þó ró sinni og greip til töflu sem sýndi hvaða stillingu átti að nota á kveikibúnaðinn miðað við þá fjarlægð sem miðunarbúnaðurinn sýndi, og gaf skyttunum upp tölur til að stilla kveikibúnaðinn eftir handvirkt, sem var mun tímafrekara. Dynia vissi ekki hvað hafði gerst, en sá strax að eitthvað hafði farið úrskeiðis því skothríðin varð miklu hægari og ójafnari eftir þetta. Hann fylgdi flugvélunum eftir í sjónauka og sá þær beygja til vinstri er þær nálguðust bæinn. Þegar þær réttu sig af aftur sá hann hvar kúla sprakk mjög nærri einni þeirra sem samstundis lækkaði flugið lítið eitt. Hurfu vélarnar honum sjónum á bak við Strandartind og er þær komu aftur í ljós nokkru síðar virtist honum ein þeirra fljúga lægra og hægar en hinar. Hurfu þær síðan sjónum í austurátt.

Ármann Halldórsson segir frá þessu sama atviki í bók sinni Mávabrík. Loft var skafheiðríkt og kyrrt er hann gekk frá Hánefsstöðum og til skólahússins um morguninn. Á göngu sinni varð hann vitni að skotæfingunni á Eyrunum og þótti nokkuð til um skotfimina. Snemma á tólfta tímanum veittu hann og nemendur hans því athygli að skothríðin færðist mjög í aukana með slíkum gný að vart heyrðist mannsins mál í skólastofunni og gluggarúður sem lausar voru orðnar í kíttinu nötruðu. Er hann opnaði útidyrnar til að kanna hverju þetta sætti þustu skólabörnin út til að fylgjast með. Heppnaðist honum nokkurn veginn að fá þau til að standa í skjóli við húsgaflinn sem vissi inn fjörðinn og var í skjóli frá byssunum uppi á hæðinni fyrir ofan skólahúsið. Bar brátt þrjár flugvélar fyrir augu hátt í himinblámanum yfir norðanverðum firðinum á vesturleið. Nokkurt bil var á milli þeirra þannig að er hin fyrsta sveigði til suðurs þvert yfir fjörðinn frá Vestdalnum bar þá síðustu yfir Grýtufjall og spruttu svartir reykhnoðrar að því er virtist allt í kringum þær er kúlurnar frá loftvarnarbyssunum sprungu og fjölgaði stöðugt er vélarnar hurfu á bak við Strandartind. Segir Ármann að nokkrum krakkanna hafi ekki verið um sel við atganginn, einkum þeim yngstu, en aðrir hnýttu saman blótsyrðum með áheitanlegum óskum um að nú tækist að hitta, eins og þeir ákváðu, djöfuls Þjóðverjana.

Víkur nú sögunni inn í Fjarðarenda. Þar í Kringlunni lá breska olíuskipið El Grillo sem var í þjónustu flotans sem birgðaskip fyrir fylgdarskip skipalestanna til Rússlands og önnur herskip bandamanna. Voru olíubirgðir skipsins stöðugt endurnýjaðar frá olíubirgðastöðinni í Hvalfirði. Það verk annaðist olíuskipið Culpepper þegar hér var komið sögu, en Culpepper sigldi undir Panama-fána og var í þjónustu Bandaríkjamanna undir stjórn norska skipstjórans Reidars Kolsoes. Skip hans hafði losað fullfermi af olíu í El Grillo nóttina áður og hafði haldið af stað suður fyrir land snemma um morguninn.

Hjálmar Níelsson var ungur drengur er þetta gerðist og hafði hlaupið út úr skólanum er loftvarnarmerkið var gefið. Er hann kom að brúnni á Fjarðará sá hann flugvélarnar þrjár koma yfir í mikilli hæð úr austnorðaustri og stefna á höfnina. Í því hófst skothríð á þær frá olíuskipinu og skömmu síðar sá hann fimm sprengjur falla og fóru fjórar þeirra mjög nálægt skipinu.

El Grillo var 7.264 brúttórúmlestir að stærð, smíðað árið 1922 og var ganghraði þess 9,5 sjómílur á klukkustund. 39 menn voru í áhöfn skipsins auk níu skotliða úr her og flota sem önnuðust varnir skipsins sem búið var tveimur fallbyssum og fjórum 20 mm Oerlikon-loftvarnarbyssum. Þá var í skuti þess gamall og úreltur loftvarnarbúnaður, fjórar litlar rakettur sem drógu á loft stálvíra til varnar gegn lágfleygum flugvélum. Skipið var fulllestað með 9.000 tonn af svartolíu og dísilolíu.

A.E. McGow skipstjóri var á tali við fyrsta stýrimann í klefa hans er þeir heyrðu loftvarnarbyssuskothríð klukkan rétt að verða ellefu. Taldi hann það vera skotæfingu Bandaríkjamanna á Eyrum sem tilkynnt hafði verið um deginum áður. Sagðist honum svo frá í skýrslu sinni um atburðinn:

"Ég var á leið út frá stýrimanninum og var kominn að dyrunum er mikil sprenging kvað við og þeytti skipinu til. Ég kastaðist endilangur fram á ganginn, en stökk á fætur og hraðaði mér upp í brú. Þar fann ég yfirloftskeytamanninn sem hamaðist við að skjóta af loftvarnarbyssunni á brúarvængnum stjórnborðsmegin á þrjár flugvélar, sem voru hátt á lofti, og einn skotliðanna var að gera sig kláran til að skjóta úr bakborðsbyssunni. Þrjár sprengnanna höfðu fallið í 7-10 metra fjarlægð bakborðsmegin og ein í svipaðri fjarlægð frá kinnungnum stjórnborðsmegin og sprungið neðansjávar. Fimmta sprengjan féll um 70 metra frá skipshlið stjórnborðsmegin.

Sjór tók þegar að streyma inn um gat á stafnrými skipsins og sökk það hratt að framan. Þar sem skipið var nánast fullhlaðið olíu var eina flotrýmið í því í stafni og vélarrúminu í skutnum. Ég hringdi vélsímanum en fékk ekkert svar og skipaði því stýrimanninum að komast að því hvort hægt væri að keyra vélarnar svo renna mætti skipinu á land. Þá lét ég loka öndunarventlum tankanna. Akkerisvindan hafði skemmst við sprenginguna og því ekkert að gera annað en að sleppa akkerisfestinni. Ljóst var að skipið sökk hratt að framan og lét ég setja út aftari lífbátinn bakborðsmegin og björgunarflekana og skipaði flestum úr áhöfninni að fara í þá. Aðrir bátar voru í festingum sínum og þýðingarlaust að reyna að sjósetja þá við þessar aðstæður. Annar stýrimaður tilkynnti að stýriskeðjan væri farin í sundur og ekki hægt að hreyfa stýrið. Sjór hafði þá flætt yfir bakkann og framþilfarið og ljóst að ekkert yrði frekar að gert. Gaf ég skipun um að yfirgefa skipið kl. 11.15 en lét bátinn bíða við skipshliðina á meðan ég skaust í klefa minn eftir skipsskjölunum. Við klefadyrnar fann ég pokann með dulmálslyklunum og leynilegum fyrirmælum, sem búinn var lóðum svo hann sykki, og hafði verið látinn þar af einum yfirmannanna. Taldi ég tryggast að hann færi niður með skipinu og setti hann því inn í klefann, en greip þar það sem ég gat af skjölum mínum áður en ég yfirgaf skipið á lífbátnum kl. 11.20."

Skömmu síðar settist stafn skipsins á botninn og stóð þá skuturinn og um tveir metrar af kilinum upp úr sjónum. Norskur bátur sem kom þar að flutti áhöfnina til lands. Um tvöleytið hélt McGow skipstjóri aftur út að skipinu ásamt fyrsta stýrimanni og fyrsta vélstjóra, tveimur skyttum og fjórum hásetum og fóru þeir um borð í skut skipsins sem enn var upp úr sjó. Gengu þeir úr skugga um að slökkt hefði verið á öllum vélbúnaði og lokuðu ventlum og kýraugum svo skuturinn héldist á floti. Tóku skytturnar aftari loftvarnarbyssurnar tvær og einhverjir mannanna náðu að bjarga eigum sínum úr skipinu. Ekki leist skipstjóranum á að vera lengi um borð, ef vera kynni að skuturinn gæfi sig snögglega, og hélt aftur í land með menn sína. Áhafnir kaupskipa voru ráðnar til einnar ferðar í senn, og er henni lauk, eða skipið sökk, var hún afmunstruð. Fengu skipstjórinn og flestir úr áhöfninni ferð til Reykjavíkur síðar um daginn og varð hann því ekki vitni að því er skip hans sökk til botns um hálfsjöleytið um kvöldið. Urðu fyrsti stýrimaður og fyrsti vélstjóri eftir á Seyðisfirði og biðu komu björgunarskips sem kanna skyldi möguleika á að ná skipinu upp. Flotamálaráðuneytið hafði hins vegar mælt gegn því að farið yrði út í björgunaraðgerðir á miklu dýpi og er ljóst var að skipið lægi á um 50 m dýpi var hætt við björgun.

Þá höfnuðu bresk stjórnvöld beiðni íslenskra stjórnvalda um að skipið yrði fjarlægt í bréfi breska sendiherrans í Reykjavík til utanríkisráðuneytisins 23. apríl 1945 með þeim rökum að slík aðgerð yrði geysilega umfangsmikil og til slíks þyrfti krafta björgunarliðs sem væri takmarkað og þegar upptekið við fjölmörg og aðkallandi verkefni. Búist væri við að svo yrði um langt skeið enn og í raun af sömu sökum mjög vafasamt að slík björgunaraðgerð yrði nokkru sinni reynd. Jafnframt var því lýst yfir að eigendur féllu frá öllu tilkalli til skips og farms og íslenskum stjórnvöldum því frjálst að fara með hvort tveggja að vild.

Ekki kemur fram í þeim skýrslum, sem kannaðar hafa verið um atburðinn, hvort skipinu var í raun sökkt af herliðinu á Seyðisfirði þá um kvöldið. Flestum þeim sem verið hafa til frásagnar af atburði þessum ber hins vegar saman um að svo hafi verið og er þá gjarnan tilgreint að það hafi verið til að koma í veg fyrir frekari loftárásir Þjóðverja á flakið með tilheyrandi hættu. Þá hafa kafarar sem kafað hafa niður að skipinu greint frá því að skemmdir á skut skipsins séu ekki þess eðlis að flugvélasprengjurnar hafi valdið þeim og aðgerðir McGows skipstjóra og manna hans um borð í skipinu síðdegis benda ekki til þess að leki hafi verið í vélarrúminu. Skömmu eftir þennan atburð fengu skotliðarnir á Eyrum heimsókn sérfræðinga sem rannsökuðu orsök bilunarinnar í tölvubúnaðinum. Í ljós kom að viðeigandi endurbætur höfðu ekki verið gerðar á búnaðinum til að koma í veg fyrir að hann slægi út með þeim hætti sem gerst hafði. Dynia segir Morneau liðþjálfa hafa sýnt frábæra frammistöðu þennan dag sem einungis þrautþjálfuðum hermönnum sé gefið.

Auðvitað voru menn ekkert ánægðir með að hafa ekki tekist að hindra flugvélarnar í að sökkva olíuskipinu, en Dynia segir að hamagangurinn hafi gert öllum gott. Heimamenn hafi tjáð þeim að þýsk flugvél hefði hrapað í hafið en það hafi aldrei verið kannað frekar. William S. Key yfirhershöfðingi, sem tekið hafði við af Bonesteel, heimsótti stórskotaliðsflokkinn á Eyrum hálfum mánuði eftir þennan atburð á yfirreið sinni um Norður- og Austurland. Segir Dynia að hann hafi haldið ræðu yfir þeim félögum og lofað þeim kassa af viskíi ef þeim tækist að skjóta niður óvinaflugvél.

Þýskar könnunarflugvélar flugu yfir fjörðinn nokkrum sinnum eftir þetta og gerðu skytturnar sitt besta til að hreppa verðlaunin, en vélarnar flugu í sveig yfir fjallatoppunum umhverfis fjörðinn og því ekki gott að áætla feril þeirra nógu nákvæmlega með miðunarbúnaðinum. Þessar flugvélar segir Dynia að hafi síðan flogið yfir bæinn í nokkuð minni hæð og hafi þeim tekist að hitta eina með lítilli loftvarnarbyssu, sem flutt var inn í bæ, en hún hafi sloppið. Staðfestir dagbók yfirstjórnar bandaríska hersins þetta.

Brottflutningur síðasta herliðsins af landsbyggðinni

Brátt leið að brottför herliðsins í Camp Ricker á Eyrum. Vorið 1944 hafði flug Þjóðverja við landið og umsvif kafbáta á Atlantshafi minnkað svo mikið að ákveðið var að kalla herliðið frá Akureyri og Seyðisfirði. Var yfirstjórn bandaríska herliðsins á Íslandi færð úr höndum Evrópuherstjórnarinnar í London til Bandaríkjanna um sumarið.

Breski flotinn sprengdi tundurduflalögnina undan Eyrunum um vorið og hætti starfsemi eftirlitsstöðvar sinnar þar á lokadaginn, 11. maí, 1944.

Um miðjan maí fékk stórskotaliðsflokkurinn loks fyrirskipun um að tygja sig til brottfarar með strandferðaskipinu Nova hinn 10. júní. Hættu menn brátt að sýta kjör sín í fásinninu og bið eftir stopulum póstsendingum og ekki síst þann vana, sem flestir höfðu tileinkað sér, að skima til himins í tíma og ótíma og einblína á lítinn díl í angist yfir því hvort þar færi fugl eða flugvél. Nefndu þeir það Focke-Wulf kæk.

Mikið verk var að búa allan búnaðinn til flutnings og losa byssurnar, sem þar höfðu setið svo lengi, en loks stigu þeir á skipsfjöl og sigldu með Nova til Reykjavíkur. Hvarf Seyðisfjarðarvarnarumdæmið þá á vit sögunnar, en liðsmenn B-batterís sameinuðust félögum sínum úr hersveitinni og sigldu til Glasgow á breska herflutningaskipinu Highland Brigade. Í Bretlandi voru þeir næstu sjö vikur við æfingar með nýjum búnaði, en héldu við svo búið yfir Ermarsund án þess að fá svo mikið sem helgarfrí. Börðust þeir með fyrsta og níunda hernum bandaríska allt til stríðsloka.