BÆJARSTJÓRN Hafnarfjarðar hefur samþykkt að boða til samráðsfundar með sveitarfélögum, sem kaupa þjónustu af veitustofnunum Reykjavíkurborgar, einkum vegna óánægju með hve borgarsjóður tekur til sín stóran hluta tekna Orkuveitu Reykjavíkur.

BÆJARSTJÓRN Hafnarfjarðar hefur samþykkt að boða til samráðsfundar með sveitarfélögum, sem kaupa þjónustu af veitustofnunum Reykjavíkurborgar, einkum vegna óánægju með hve borgarsjóður tekur til sín stóran hluta tekna Orkuveitu Reykjavíkur.

Eins og fram hefur komið í Morgunblaðinu lagði Tryggvi Harðarson bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Hafnarfirði nýlega til að boðað yrði til samráðsfundar með þessum sveitarfélögum vegna fyrirætlana borgarinnar um að skuldsetja Orkuveituna um 4 milljarða króna með lántöku, sem ætlað er að létta skuldastöðu borgarsjóðs.

Magnús Gunnarsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði, sagði að ákveðið hefði verið að boða til samráðsfundarins í framhaldi af umræðunum undanfarið og viðræðum bæjarins fyrr á árinu við Reykjavíkurborg vegna endurkrafna Hafnfirðinga á Hitaveituna. "Enn og aftur er borgarsjóður að taka mikið inn með arðgreiðslum til borgarinnar frá veitustofnunum og það er ástæða til að halda málinu áfram enda var það ekki ætlun okkar að nema staðar," sagði Magnús. "Við höfum fyrst og fremst verið að reifa málið frá a-ö og safna gögnum og við teljum að við séum með nokkuð skýr markmið þegar við förum í viðræður við borgaryfirvöld. Við erum búnir að senda bréf frá okkur og eigum von á að þær viðræður hefjist fljótlega á nýju ári."

Magnús sagði að markmið bæjarins í viðræðum við borgaryfirvöld væru þríþætt. Í fyrsta lagi vildi bærinn ná fram endurskoðun á samningi bæjarins og Hitaveitu Reykjavíkur frá 1. nóvember 1973. Í öðru lagi vilji bærinn að réttindi í þeim samningi sem varða nýtingu jarðvarma í landi Krýsuvíkur verði felld út úr samningnum. "Í þriðja lagi teljum við að lagaheimild skorti fyrir arðgreiðslu sem hitaveitan hefur verið að greiða í borgarsjóð undanfarin ár," sagði Magnús. "Við teljum að lagagrundvöllinn verði að tryggja. Þar geti varla verið um að ræða jafnháar greiðslur og nú og eðlilegt að setja lög um þessa tekjustofna, þar sem t.d. væri miðað við 10% af heildartekjum en ekki um 30% arð af heildartekjum, eins og nú er tekinn. Ef á annað borð stendur til að innheimta skatt með þessum hætti. Auðvitað er þetta ekkert annað en skattheimta."

Arðgreiðslan 900 milljónir

Magnús segir að á síðasta ári hafi arðgreiðslan verið 900 milljónir króna en heildartekjur hitaveitunnar um 3 milljarðar króna.

Einnig deila borgin og Hafnarfjarðarbær um oftekin gjöld í fortíðinni. Viðræður vegna þess hófust fyrr á árinu en hafa legið niðri um hríð. Magnús segir að ein leiðin í þeirri deilu sé að vísa henni til gerðardóms.

"Það eru deildar meiningar og það stendur orð á móti orði og álitsgerð á móti álitsgerð. Menn þurfa að reyna að lenda málinu einhvern veginn," sagði Magnús um ágreininginn við borgina. Hann sagði að Hafnfirðingar væru að túlka sömu sjónarmið og nágrannasveitarfélögin enda hefðu þau haft samflot um margt í málinu.