Sturla Friðriksson, formaður stjórnar Ásusjóðs, veitir hér Hermanni Pálssyni prófessor viðurkenningu Ásusjóðsins 1999.
Sturla Friðriksson, formaður stjórnar Ásusjóðs, veitir hér Hermanni Pálssyni prófessor viðurkenningu Ásusjóðsins 1999.
HERMANN Pálsson prófessor hlaut í gær árleg heiðursverðlaun verðlaunasjóðs Ásu Guðmundsdóttur Wright. Voru Hermanni veitt verðlaunin fyrir margþætt störf á sviði íslenskra fornbókmennta og fyrir kynningu þeirra erlendis.

HERMANN Pálsson prófessor hlaut í gær árleg heiðursverðlaun verðlaunasjóðs Ásu Guðmundsdóttur Wright. Voru Hermanni veitt verðlaunin fyrir margþætt störf á sviði íslenskra fornbókmennta og fyrir kynningu þeirra erlendis. Ásusjóðurinn, eins og hann er kallaður, veitir árlega viðurkenningu íslenskum vísindamanni sem unnið hefur veigamikið afrek á Íslandi eða fyrir Ísland. Verðlaunahafinn hlýtur heiðursskjal, minningarpening um gefandann og 175 þúsund krónur.

Hermann er fæddur á Sauðanesi á Ásum í Austur-Húnavatnssýslu hinn 26. maí árið 1921 og hefur um fjögurra áratuga skeið ritað fjölda greina og ritdóma í innlend og erlend tímarit auk margra bóka um íslensk fræði, fornbókmenntir okkar og ýmislegt fleira. Má til að mynda geta um Hrafnkels sögu og Freysgyðlinga sem út kom árið 1962, Siðfræði Hrafnkels sögu sem út kom 1966, Uppruna Njálu og hugmyndir 1984 og Leyndarmál Laxdælu 1986.

Í ræðu sinni í gær sagði Sturla m.a. að Hermann hefði verið mikill brautryðjandi í að kynna íslenskar bókmenntir og íslenska menningu erlendis. Hefur hann einn og í samvinnu við aðra, sem hafa haft ensku að móðurmáli, þýtt á enska tungu margar helstu fornsögur okkar og gert erlendum mönnum þær aðgengilegar í læsilegu máli. Þá hefur hann m.a þýtt Hávamál á ensku með öðrum og séð um útgáfu á Völuspá á ensku árið1996. "Hermann Pálsson hefur sem fræðimaður verið mjög athafnasamur og afkastamikill í störfum, sem stjórn Ásusjóðs, hefur kosið að virða," sagði Sturla m.a. í ræðu sinni í gær, en þetta er í fyrsta sinn sem Íslendingi búsettum erlendis eru veitt Ásuverðlaunin. "Vill sjóðurinn heiðra Hermann Pálsson með því að veita honum Ásuverðlaun ársins 1999 fyrir margþætt störf hans á sviði íslenskra fornbókmennta og fyrir kynningu þeirra erlendis."

Veitt í 31. sinn

Ásusjóður var stofnaður hinn 1. desember árið 1968 með peningagjöf Ásu Guðmundsdóttur Wright til Vísindafélags Íslendinga. Ber sjóðurinn nafn hennar og var stofnaður til minningar um eiginmann Ásu, enska lögmanninn dr. Henry Newcome Wright, ættingja hennar og aðra venslamenn. Með Hermanni hefur 31 vísindamaður hlotið verðlaun úr sjóðnum en verðlaunaþegarnir hafa gjarnan verið kallaðir Æsir.

Stjórn sjóðsins skipa þeir dr. Jóhannes Nordal, dr. Sveinbjörn Björnsson og dr. Sturla Friðriksson, sem jafnframt er formaður stjórnar.