EIMSKIP stofnar hinn 1. janúar nýtt hlutafélag um rekstur sinn í Kanada, Eimskip Canada Inc. Félagið tekur við allri þjónustu og rekstri skrifstofu Eimskips í St.

EIMSKIP stofnar hinn 1. janúar nýtt hlutafélag um rekstur sinn í Kanada, Eimskip Canada Inc. Félagið tekur við allri þjónustu og rekstri skrifstofu Eimskips í St. John's á Nýfundnalandi auk þess sem opnuð verður skrifstofa í Shelburne á suðurhluta Nova Scotia.

Erlendur Hjaltason, framkvæmdastjóri utanlandssviðs Eimskips, segir að helsta breytingin sem verði með hinu nýja félagi felist í opnun skrifstofunnar í Nova Scotia. "Stór hluti fiskiðnaðar er þarna á suðurhluta Nova Scotia og við höfum lagt áherslu á að koma okkur fyrir og byggja okkur upp þar um slóðir. Enda er þetta hluti af stefnu Eimskips að þjónusta fiskveiðar og vinnslu sem víðast við Norður-Atlantshafið. Því höfum við fjölgað viðkomum í Shelburne, komum nú bæði við á leiðinni frá Íslandi og til Íslands og erum því með viðkomu tvisvar í hverri ferð, en siglt er á hálfsmánaðarfresti frá Reykjavík vestur um haf," segir Erlendur.

Hann bætir við að opnun skrifstofunnar í Shelburne geri Eimskip kleift að fylgja þessu eftir með því að vinna sjálft að markaðsmálum á þessum markaði auk þess sem öll samskipti við viðskiptavini eru gerð auðveldari en ef um umboðsmannafyrirkomulag væri að ræða. Á næsta ári eru 10 ár síðan Eimskip setti á fót skrifstofu á Nýfundnalandi, en félagið hóf reglulegar siglingar til Argentia á Nýfundnalandi 1989 og til Shelburne á Nova Scotia árið 1996. Nú eru auk þess umboðsmenn Eimskipa á þremur stöðum í Kanada. Ólafur Örn Ólafsson mun veita starfseminni í Kanada forstöðu og verður hann með aðsetur í St. John's á Nýfundnalandi. Alls eru 12 manns sem starfa á vegum Eimskips í Kanada.