BORÍS Jeltsín kom enn einu sinni á óvart með því að tilkynna á gamlársdag að hann hefði sagt af sér og skipað Vladímír Pútín forsætisráðherra í forsetaembættið fram að næstu forsetakosningum sem líklegt er að fari fram 26.
BORÍS Jeltsín kom enn einu sinni á óvart með því að tilkynna á gamlársdag að hann hefði sagt af sér og skipað Vladímír Pútín forsætisráðherra í forsetaembættið fram að næstu forsetakosningum sem líklegt er að fari fram 26. mars en ekki í júní eins og ráðgert hafði verið. Margir telja að með þessari ákvörðun hafi Jeltsín viljað auka líkurnar á því að Pútín færi með sigur af hólmi í kosningunum.

"Greinilegt er að Jeltsín ákvað þetta til að tryggja sigur Pútíns," sagði Andrew Meier, fréttaritari vikuritsins Time í Moskvu. "Sú ákvörðun að flýta kosningunum styrkir stöðu Pútíns gífurlega, gerir honum kleift að notfæra sér stuðningsbylgjuna, sem hann hefur byggt upp í herferðinni í Tsjetsjníu, til að komast alla leiðina í forsetaembættið. Herferðin í Tsjetsjníu er það eina sem hefur gert honum kleift að gera tilkall til leiðtogaembættisins og stuðningsmenn hans vita að hvers konar áföll í Tsjetsjníu geta orðið honum að falli jafn skyndilega og hernaðaraðgerðirnar tryggðu honum mikið forskot í baráttunni um forsetaembættið."

Pútín var lítt þekktur meðal almennings í Rússlandi þegar Jeltsín skipaði hann forsætisráðherra í ágúst og kvaðst vilja að hann yrði næsti forseti landsins. Hann varð þá fimmti forsætisráðherra Rússlands á tveimur árum og margir stjórnmálamenn í Moskvu hæddust að honum og spáðu því að Jeltsín myndi víkja honum frá innan nokkurra mánaða eins og forverum hans.

Lýst sem hörkutóli

Staða Pútíns hefur hins vegar gjörbreyst síðan Rússar hófu hernaðinn í Tsjetsjníu fyrir þremur mánuðum. Hann er nú orðinn langvinsælasti stjórnmálamaður Rússlands og margir spá honum meirihluta í forsetakosningunum í mars þannig að ekki þurfi að kjósa á milli tveggja efstu frambjóðendanna eins og í síðustu kosningum. Ef marka má nýlegar skoðanakannanir nýtur hann stuðnings um 50% kjósenda en fylgi helstu keppinauta hans - Jevgenís Prímakovs, fyrrverandi forsætisráðherra, og Gennadís Zjúganovs, leiðtoga kommúnista - er um 20%.

Pútín hefur getið sér orð fyrir að láta verkin tala og rússneskir fjölmiðlar hafa lofsamað framgöngu hans og festu í hernaðaraðgerðunum í Tsjetsjníu. Einn fjölmiðlanna hefur jafnvel gengið svo langt að líkja honum við "góðu" hörkutólin sem bandaríski kvikmyndaleikarinn Bruce Willis leikur yfirleitt. Pútín styrkti ímynd sína sem harðjaxls á nýársdag með því að fara með herþyrlu til Tsjetsjníu í því skyni að hrósa rússnesku hersveitunum fyrir framgöngu þeirra í átökunum. Hann afhenti 200 hermönnum skreytta veiðihnífa í viðurkenningarskyni og sagði að baráttan gegn tsjetsjenskum skæruliðum væri brýnasta verkefni stjórnarinnar.

Pútín hefur lofað að beita sér fyrir frekari markaðsumbótum en lagt áherslu á að efla þurfi tök ríkisvaldsins á efnahagnum og veita meiri félagslega vernd. Almenningur í Rússlandi virðist þó lítið vita um stefnu hans í efnahagsmálum og öðrum málefnum en Tsjetsjníudeilunni.

Margir Rússar vonast til þess að Pútín verði nógu öflugur leiðtogi til að koma á stöðugleika í landinu eftir pólitíska glundroðann sem einkenndi oft valdatíma Jeltsíns. Þeir telja að takist Pútín að brjóta aðskilnaðarsinnana í Tsjetsjníu á bak aftur kunni hann ef til vill einnig að sigrast á efnahagsvanda Rússlands.

Raunsær og slyngur

Nokkrir stjórnmálaskýrendur á Vesturlöndum eru tortryggnir í garð Pútíns, m.a. vegna ferils hans sem njósnara KGB í kalda stríðinu, og lýsa honum sem stríðsæsingamanni og þjóðernisskrumara vegna framgöngu hans í Tsjetsjníustríðinu. Margir líta hins vegar á hann sem raunsæjan og slyngan stjórnmálamann sem sé tilbúinn að slá á strengi þjóðernishyggju heima fyrir og vilji jafnframt vinna með stjórnvöldum á Vesturlöndum þegar tækifæri gefst til, einkum ef Rússar þurfa á efnahagslegri aðstoð að halda.

Pútín höfðar fyrst og fremst til Rússa sem eru orðnir þreyttir á klaufskum stjórnmálamönnum og hömlulausri spillingu. Þeir vilja leiðtoga sem getur komið á lögum og reglu í landinu og myndað stjórn sem sýni í verki að henni sé umhugað að bæta lífskjörin.

"Þetta er maður sem getur stjórnað. Fólki er sama þótt hann hafi ekki mikla reynslu af efnahagsmálum, það vill sterkan föður-keisara," sagði Alexei Tsjaplygín, stjórnmálaskýrandi í Moskvu. Samuel Berger, þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjaforseta, sagði að framtíð Pútíns sem leiðtoga Rússlands myndi ráðast af því hver þróunin yrði í átökunum í Tsjetsjníu. Dragist þau á langinn, gæti það orðið til þess að aldan sem fleytti honum til æðstu metorða færði hann að lokum í kaf.

Madeleine Albright, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði að ekki væri hægt að leiða deiluna um Tsjetsjníu til lykta á vígvellinum. "Hún verður aðeins leyst við samningaborðið."

Bill Clinton Bandaríkjaforseti fór lofsamlegum orðum um Jeltsín, lýsti honum sem "föður rússneska lýðræðisins", og sagði að samskipti Rússlands og Vesturlanda myndu ráðast af því hvernig næstu leiðtogar Rússa tækju á "óútkljáðum málum", svo sem spillingu í stjórnkerfinu og stríðinu í Tsjetsjníu.

Berger sagði að enn væri nokkur óvissa um stefnu Pútíns. "Við erum ánægð með yfirlýsingar hans til þessa, um að hann hyggist efla rússneska lýðræðið, frelsi fjölmiðla, málfrelsið, skoðanafrelsið og eignarréttinn. En ég tel að ýmsum spurningum sé enn ósvarað varðandi það hvert hann ætli að beina Rússlandi. Við vonum að hann færi landið áfram í lýðræðisátt."

Jeltsín biður þjóðina afsökunar

Jeltsín kvaðst hafa ákveðið að segja af sér vegna þess að hann liti svo á að ævistarfi sínu væri lokið og ógjörningur væri fyrir arftaka Leníns að komast aftur til valda eftir sigur miðflokkanna á kommúnistum og bandamönnum þeirra í kosningunum til dúmunnar í desember. Tími væri kominn til að ný kynslóð tæki við.

Jeltsín bað þjóð sína einnig afsökunar á því sem fór úrskeiðis á valdatíma hans. "Ég vil biðja ykkur afsökunar, vegna þess að margar af vonum okkar hafa ekki ræst, vegna þess að það sem við héldum að yrði auðvelt reyndist hræðilega erfitt. Ég bið ykkur að fyrirgefa mér að hafa ekki uppfyllt nokkrar óskir þeirra sem töldu að okkur myndi takast að stökkva frá grárri fortíð stöðnunar og alræðis inn í bjarta framtíð hagsældar og siðmenningar í fyrstu tilraun. Ég trúði þessu sjálfur. En þetta var ekki hægt í einu skyndiáhlaupi. Að ýmsu leyti var ég of barnalegur. Nokkur vandamálanna voru of flókin."

Jeltsín hefur hvað eftir annað átt við veikindi að stríða á síðustu árum og vikuritið Newsweek hefur eftir heimildarmönnum sínum í Moskvu að heilsa hans hafi versnað á síðustu vikum. Jeltsín kvaðst þó ekki hafa sagt af sér af heilsufarsástæðum.

Míkhaíl Gorbatsjov, síðasti forseti Sovétríkjanna, sagði í viðtali við ítalska dagblaðið La Stampa að Jeltsín hefði ekki viljað segja af sér en helstu ráðgjafar hans og læknar hefðu talið honum hughvarf.

Gorbatsjov sagði að kaupsýslumaðurinn og auðkýfingurinn Borís Berezovskí, dóttir Jeltsíns, Tatjana Djatsjenko, og Alexander Voloshín, skrifstofustjóri forsetans, hefðu talið Jeltsín á að segja af sér. "Hann vildi ekki fara," sagði Gorbatsjov. "Hann streittist á móti af öllum þeim mætti sem hann átti eftir. Þau köstuðu honum í raun í burtu. Svo virðist sem læknarnir hafi síðan ráðið úrslitum eftir að ráðgast var við þá. Þeir sögðu honum að meira álag myndi verða honum að aldurtila. Og honum var auðvitað lofað algjörri friðhelgi."

Jeltsín veitt friðhelgi

Stuðningsmenn Jeltsíns óttast að hann kunni að verða sóttur til saka, m.a. fyrir meinta spillingu og þátt hans í að leysa Sovétríkin upp, fari einhver af andstæðingum hans með sigur af hólmi í næstu forsetakosningum.

Eitt af fyrstu verkum Pútíns sem forseta var að veita Jeltsín friðhelgi og Gorbatsjov sagði það benda til þess að ekkert yrði gert til að stemma stigu við spillingu í Kreml. "Engin breyting verður á stjórnarfarinu, engin barátta gegn spillingu, hagsmunir og forréttindi fámennisstjórnarinnar verða vernduð til fulls," sagði Gorbatsjov.

Ígor Shabdurasulov, aðstoðarskrifstofustjóri forsetans, sagði að enginn ágreiningur væri milli Pútíns og helstu ráðgjafa Jeltsíns og spáði því að engar róttækar breytingar yrðu gerðar á starfsliðinu í Kreml. Hann taldi þó líklegt að breyting yrði á stöðu dóttur Jeltsíns, sem er talin hafa verið mjög áhrifamikil, án þess að útskýra það frekar.

Jeltsín og helstu ráðgjafar hans hafa verið sakaðir um hafa dregið sér opinbert fé og flutt það í banka á Vesturlöndum. Newsweek segir að að grunur leiki á að Jeltsín tengist að minnsta kosti tólf bankareikningum sem hafa verið frystir í Sviss. Reikningarnir séu þó ekki á nafni Jeltsíns, heldur rússneskra og erlendra kaupsýslumanna eða fyrirtækja.

Newsweek segir að Jeltsín hafi ákveðið afsögnina á aðfangadag, tæpri viku eftir sigur stuðningsmanna hans í kosningunum til dúmunnar. Blaðið segir hins vegar að svo virðist sem hann hafi ekki ákveðið að láta af embætti fyrir áramótin fyrr en daginn áður en hann tilkynnti ákvörðun sína.