[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
FURÐUSKEPNUR af ýmsum toga hafa látið á sér kræla í íslenskum barnaherbergjum. Skepnur þessar, um 150 talsins, eru ættaðar frá Japan og hafa getið sér gott orð, einkum í Ameríku og heimalandinu.

FURÐUSKEPNUR af ýmsum toga hafa látið á sér kræla í íslenskum barnaherbergjum. Skepnur þessar, um 150 talsins, eru ættaðar frá Japan og hafa getið sér gott orð, einkum í Ameríku og heimalandinu. Pokémon eru þær kallaðar og telja það helst til síns ágætis að hafa mismunandi hæfileika til að berjast, en eftir því sem þær taka þátt í fleiri bardögum, eykst viska þeirra og afl.

Skepnurnar eru skrautlegar á litinn og ólíkar að stærð og lögun. Pikauchu er vinsælastur í Ameríku, lítið glaðlegt gult dýr með stór eyru, og rauð blikkandi ljós í kinnum. Hann vegur 4 kg en sá þyngsti, Snorlax, aðeins um 868 kg. Sá léttasti er hins vegar um 900 g og nefnist Diglett. Pidgey er minnstur, um 30 sm, en Onix, sá stærsti, um 8,5 m að lengd. Með þeim öflugri en Mewtwo, klónuð skepna, sérstaklega hönnuð til stríðsrekstrar. Mewtwo er eftirstóttur en afar erfitt hefur leikmönnum reynst að fanga hann.

Börnin í Bandaríkjunum vilja spila

Nýlega hófst markaðssetning á Pokémon í Evrópu og því ekki enn ljóst hver hyllin verður, en segja má að mikið æði hafa riðið yfir Bandaríkin þegar furðuskepnurnar, sem stundum eru nefnd skrímsli, komu þar á markað í fyrra. Ekkert lát er enn á æðinu, börn keppast um að spila Game Boy-tölvuleikinn með Pokémon og safna kortaspilum með myndum af verunum. Sá sem vinnur leikinn fær oft gefins spil frá mótherjanum. Í sjónvarpinu er horft á teiknimyndir með Pokémon og í nóvember var frumsýnd Pokémon-kvikmyndin sem fyrstu sýningarhelgina laðaði að fleiri áhorfendur en önnur mynd hefur gert í langan tíma, um 25 milljónir bandaríkjadala. Myndun heitir Pokémon the First Movie. Mewtwo strikes back, og er væntanleg í kvikmyndahús hér bráðlega.

Ekki er allt talið. Hljómplötur með lögum úr sjónvarpsþáttunum hafa selst í milljónum eintaka, vinsælasta leikfangið í Japan er Pikachu-dúkka og til sölu eru frímerki, lyklakippur, límmiðar, teningaspil og margt, margt fleira sem höfðar til barna.

Tölvuspilið Pokémon er svo til nýkomið í verlsanir hér, að sögn umboðsmanna hjá Bræðrunum Ormsson og þeir spá góðri sölu á næstu mánuðum.

Í versluninni Nexus VI fást kortaspil með Pokémon og segir sölumaður þar eftirspurn vera heilmikla en meiri meðal drengja en stúlkna.

Sálfræðingar sáttir en hvetja til varúðar

Samkvæmt grein í tímaritnu Time í nóvember eru bandarískir sálfræðingar flestir sammála um að Pokémon sé að mestu hættulaust en nauðsynlegt sé að vera á varðbergi, börnin verða að hugsa um annað en Pokémon. Markaðssetningin hafi verið gífurleg og stundum gengið úti í öfgar, að margra mati.

Slys hafa átt sér stað. Í New York fyrir jól stakk níu ára gamall drengur skólabróður sinn með hnífi vegna rifrildis yfir kortaspilum.

Í Japan fengu svo hundruð barna flogaveikiskast þegar sýndur var sjónvarpsþáttur þar sem sprengjuárás var gerð á Pikachu og félaga með þeim afleiðingum að í nokkrar sekúndur blikkuðu ofsafengin marglit ljós.

Markmiðið að safna sem flestum

En hvað er Pokémon og hvað er svona merkilegt við leikinn? "Þú spyrð hvað er Pokémon,"segir prófessor Eik á heimasíðu Pokémon-spilara;http://www. pokemon.com.

Prófessor Eik er ein helsta fyrirmynd leikmanna, enda mikill sérfræðingur í tölvuspilinu. "Það er erfitt að útskýra leikinn fyrir óreyndum, spilið er flókið í fyrstu en markmiðið er að safna öllum Pokémon-dýrunum og komast þannig í úrvalslið Pokémon-spilara. Það er hins vegar ekki auðvelt verk," segir Eik. "Hver Pokémon hefur sérstaka hæfileika til að berjast. Þeir skiptast í nokkra grunnflokka, eld og vatn svo dæmi sé tekið. Jafnvel minnsta dýrið getur þannig gert harðar árásir. Sumir Pokémonar hafa einnig þá eiginleika að vaxa í stærri og sterkari dýr. En hafðu samt engar áhyggjur, dýrin sem þú eignast verða þér alltaf trygg."

Dýrin deyja ekki heldur sofna

Arnar Tómas Valgeirsson, tíu ára nemandi í Melaskóla, er einnig afar fróður um Pokémon "Það er erfitt að útskýra hvað er svona skemmtilegt við tölvuspilið, "segir hann hreinskilnislega. "Kannski er það skemmtilegt því það reynir töluvert á hugann, "segir hann síðan eftir örlitla umhugsun. "Spilið er á ensku svo skilyrði er að skilja tungumálið vel."

Arnar Tómas hefur töluvert dvalið í Bandaríkjunum og hjá Andra Má vini sínum í Washington kynntist hann Pokémon fyrst.

Blaðamanni hafði verið lofað sýnikennslu og því kveikir Arnar Tómas á litla Game Boy-tækinu sínu. Tónlist að japönskum hætti glymur í eyrum og Arnar Tómas skráir sig til þátttöku. "Spilið byrjar á því að maður velur nafn á sinn mann, "segir Arnar Tómas. "Ég ætla að nefna minn Baldur. "

Unnt er að velja á milli nokkurra leikja í tölvuspilinu; bláan leik, rauðan eða gulan. Arnar Tómas er hrifnastur af bláum Pokémon þar sem hann er bestur í þeim leik.

"Ég æfi mig töluvert, en þó er ýmislegt annað sem mér finnst skemmtilegra að gera, til dæmis lesa," segir hann.

Arnar Tómas í hlutverki Baldurs leggur síðan af stað frá litla þorpinu, kveður móður sína og fær einn Pokémon að gjöf frá prófessor Eik. Í nágrenni þorpsins eru hættulegir, villtir Pokémon sem lifa í grasinu og þá þarf Baldur að varast. Aðalóvinur Baldurs er í sama skóla og hann og þeir keppast um að vinna sem flest dýr.

Baldur ferðast síðan um heiminn og hittir Pokémona til þess að berjast við. Sú skepna sem tapar í bardaganum deyr ekki heldur fellur í yfirlið eða sofnar værum svefni. Ekki er óalgengt að þeir fái orkuna aftur síðar meir. Arnari Tómasi gengur vel í leiknum, er greinilega vel þjálfaður og tekst því að safna nokkrum furðuskepnum. Meira að segja fer hann í dýragarð, borgar 500 kall og heldur áfram að berjast við Pokémona. Takmarkið er eins og áður segir að komast í úrvalsliðið og keppa á heimsmeistaramóti Pokémon-spilara, en til þess þarf að safna öllum dýrunum. "Ég var komin með 107 Pokémona en byrjaði upp nýtt fyrir nokkrum vikum og er því bara með nokkra eins og er," segir Arnar Tómas.

Systkinin spila saman

Hvert spil tekur langan tíma og þolinmæði er því dyggð, eins og í mörgu öðru.

Vigdís Vala, sex ára systir Arnars Tómasar, kemur aðvífandi inn í herbergið til okkar. Þau tengja saman Game-boy tækin sín og hefja umsvifalaust að spila saman. Arnar Tómast hefur að mestu orð fyrir systur sinni: "Vala talar ensku og getur því vel spilað Pokémon þótt hún sé kannski ekki alveg eins góð og ég. Hún kann spilið í það minnsta betur en flestir sex ára krakkar

Í þetta sinn ætla ég að vera góður við hana og hjálpa henni ef Pokémon-kallinn hennar verður orkulaus."

Tíminn er fljótur að líða í Pokémon hjá systkinunum sem skemmta sér greinilega konunglega.

Hrifningin var minni hjá blaðamanni sem viðurkennir að kunna betur við hefðbundnari barnaleiki eins og húllahopp eða kíló, en tímarnir breytast og mennirnir með.