Ingvar Benediktsson fyrrverandi bóndi fæddist í Rekavík bak Höfn 30. júlí 1909. Hann lést á Sjúkraskýli Bolungarvíkur 7. janúar síðastliðinn. Foreldrar hans voru hjónin Sigurrós Bjarnadóttir, f. 25.9. 1877, d. 2.10. 1937, og Benedikt Árnason, f. 22.7. 1877, d. 30.5. 1938.

Kona Ingvars er María Guðmundsdóttir, f. 7.3. 1903. Þau gengu í hjónaband 1947. Kjörsonur þeirra er Ingi Karl, f. 16.9. 1944. Ingi karl var kvæntur Ragnheiði Jónsdóttur. Þau skildu. Þau eiga tvö börn: Inga Karl og Maríu Sigurrós.

Á yngri árum var Ingvar sjómaður og bóndi, fyrst í Aðalvík og síðar í Önundarfirði.

Útför Ingvars fer fram frá Hólskirkju í Bolungarvík í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Okkur systkinin, börn Sigurlaugar og Hermanns frá Látrum í Aðalvík, langar að minnast Ingvars með nokkrum orðum. Hann var sveitungi okkar og vinur foreldra okkar. Fyrst þegar við eldri systkinin munum hann bjó hann í Stakkadal í Aðalvík ásamt konu sinni Maríu Guðmundsdóttur frá Rekavík bak Látur. María var frænka móður okkar og vinkona. Foreldrar okkar og María létust árið 1989.

Árið 1942 flytja þau til Iðavalla að Látrum og búa þar til vors 1948. 16. júní það ár flytja þau vestur yfir Djúp ásamt foreldrum okkar og fleira fólki. Um þetta leyti var byggð í Aðalvík að eyðast. Það voru þung spor hjá þessu fólki, sem var að yfirgefa æskusveitina sína og skilja þar eftir unnin störf og minningar. Þegar þetta var voru þau hjón á miðjum aldri og þurftu að byrja búskap á nýjan leik. Áfangastaður þeirra var Önundarfjörður. Fyrst bjuggu þau í sveitinni, en fluttust síðar til Flateyrar. Þar unnu hjónin við fiskverkun.

Foreldrar okkar eignuðust tólf börn, sem öll komust til fullorðinsára og lifa enn. Á árunum sem Ingvar og María bjuggu að Látrum var erfitt heimilishald hjá foreldrum okkar. Það varð til þess að þau hjónin ættleiddu bróður okkar, Inga Karl, árið 1947. Ekki var mikill samgangur á milli fjölskyldnanna á meðan búið var í Önundarfirði. Úr þessu bættist mjög, er bróðir okkar flutti til Bolungarvíkur og foreldrar hans komu til hans. Þá var oft komið við á þessu heimili, er leiðin lá til Aðalvíkur. Þá voru rifjaðar upp minningar um æskuslóðir.

Ingvar var mikið snyrtimenni í allri umgengni, rólyndur og heimakær. Hann ferðaðist ekki mikið um ævina. Hann lét hverjum degi nægja sínar þjáningar. Síðara hluta ævinnar var heilsunni farið að hraka og í mörg ár hafði hann verulega skerta heyrn. Það háði honum mjög í allri samræðu, sem hann hafði þó gaman af.

Við vitum að foreldrar okkar báru hlýhug og kærleika til kjörforeldra Inga Karls, sem við systkinin gerum einnig.

Ingvari er þökkuð samfylgdin. Bróður okkar og fjölskyldu hans vottum við samúð okkar.

Fyrir hönd systkinanna,

Þórunn og Friðrik.