21. janúar 2000 | Íþróttir | 288 orð | 1 mynd

Dmitri Filippov, leikmaður rússneska landsliðsins

Ísland spurningarmerki

Eduard Moskalenko, leikmaður Stjörnunnar og Rússlands, Dagur Sigurðsson og Dmitri Filippov, félagi Dags hjá Wuppertal og fyrrverandi leikmaður Stjörnunnar.
Eduard Moskalenko, leikmaður Stjörnunnar og Rússlands, Dagur Sigurðsson og Dmitri Filippov, félagi Dags hjá Wuppertal og fyrrverandi leikmaður Stjörnunnar.
DMITRI Filippov hefur leikið 160 landsleiki fyrir Rússa og er með leikjahæstu leikmönnum liðsins. Hann segir undirbúninginn fyrir Evrópumótið nokkuð öðruvísi en hann hefur vanist, mikið æfingaálag á stuttum tíma.
DMITRI Filippov hefur leikið 160 landsleiki fyrir Rússa og er með leikjahæstu leikmönnum liðsins. Hann segir undirbúninginn fyrir Evrópumótið nokkuð öðruvísi en hann hefur vanist, mikið æfingaálag á stuttum tíma. Hann sagði að Rússar væru komnir til Króatíu til að leika um verðlaun.

"Við förum í öll mót með það veganesti að sigra í öllum leikjum. Við sættum okkur ekki við neitt annað en verðlaun frá Evrópumótinu. Þetta verða allt erfiðir leikir og erfitt að spá í hvaða lið komi til með að standa uppi sem Evrópumeistari. Við ætlum okkur það en öll hin liðin stefna að sama marki," sagði Fiplippov, sem lék með Stjörnunni í Garðabæ fyrir nokkrum árum.

"Við æfðum í 16 daga í Moskvu og það var mjög erfitt og vonandi skilar það árangri hér í Króatíu. Ég hef ekki séð mikið til íslenska liðsins og veit því ekki hvar það stendur. Ég þekki auðvitað strákana sem leika í Þýskalandi og veit hvað þeir geta. Íslenska liðið getur á góðum degi unnið hvaða lið sem er, en það hefur átt erfitt með að halda stöðugleika út heila keppni. Liðið hlýtur því að vera hálfgert spurningarmerki hér í Króatíu," sagði hann.

Filippov, sem lýkur samningi sínum við Wuppertal í vor, segist hafa sterkar taugar til Íslands og Íslendinga. "Ég kunni vel við mig á Íslandi og fæ reglulega fréttir af gengi Stjörnunnar í íslensku deildinni í gegnum Heiðmar Felixson, sem leikur með mér hjá Wuppertal. Ég væri alveg til í að fara aftur til Íslands og spila, en dóttir mín var að byrja í grunnskóla í Þýskalandi og því er erfitt að flytja til annars lands. Ég hef því meiri áhuga á að vera áfram í Þýskalandi," sagði hann og bætti við að Íslendingar væru mun viðkunnanlegri en t.d. Þjóðverjar.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.