[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gögn Erlends Guðmundssonar sem löngum hefur verið kenndur við Unuhús verða afhjúpuð á morgun á Landsbókasafni Íslands. Erlendur í Unuhúsi er mjög fræg persóna í íslenskum bókmenntum. Guðrún Guðlaugsdóttir gluggaði lítillega í ummæli samtíðarmanna hans um hann.
HELSTU rithöfundar Íslendingar hafa keppst við að mæra þennan mann í ritum sínum og hafa varla getað kveðið nægilega sterkt að orði. Erlendur dó 13. febrúar 1947. Þegar Þórbergur Þórðarson talaði um Erlend á bókasýningu í Listamannaskálanum 5. desember sama ár sagði hann m.a.: "Með Erlendi Guðmundssyni eigum við alla æfi á bak að sjá vitrasta, bezta og mesta Íslendingi sem við höfum þekkt." Halldór Laxness segir í Sjömeistarasögu sinni og raunar miklu víðar, frá kynnum sínum af Erlendi í Unuhúsi. Gerir hann útlit Erlends ítrekað að umræðuefni: "Þá kunni ég ekki mann að þekkja ef þetta var ekki frelsarinn sjálfur, meira að segja kliptur útúr biflíumynd í jesúhjartastíl, nema bar ekki hjartað utaná." Halldóri verður tíðrætt um skegg Erlendar: ...öfgafullt skegg einsog Erlendur hafði fanst mér eiga svo vel við manninn að mér datt ekki í hug að spyrja hvernig á þessum ósköpum stæði, fremur en hversvegna augu hans blá væru skærri en í öðrum mönnum."

Það var ekki aðeins útlit Erlendar sem var óvenjulegt: "Erlendur var svo fágætur maður að gáfum og mannkostum að ég efast um að í allri sögu Íslendinga verði fundinn einn tugur manna sem væru honum jafnir," segir Þórbergur ennfremur í grein til minningar um Erlend Guðmundsson í Unuhúsi. Þórbergur lofar í greininni Erlend m.a. fyrir lærdóm hans í þjóðfélagsmálum, tungumálakunnáttu, kveður hann hafa haft skarpara skyn á fjármál, verslun og viðskipti en flestir aðrir, segir hann hafa verið músíkalskan og hafa haft afburða dómgreind á listir og bókmenntir, svo og segir Þórbergur að Erlendur hafi verið afburða verkmaður og "sá eldskarpasti maður að hugsa, sem ég hef þekkt og sá maður sem hefur haft glöggast yfirlit yfir öll störf, sem fyrir hendi lágu," segir Þórbergur ennfremur.

Hvað persónugerð Erlends snertir þá segir Þórbergur að hann hafi verið með afbrigðum kurteis að eðlisfari, haft mjúka skapsmuni en búið þó yfir eitilhörku. Stefán frá Hvítadal kvað Erlend fyrsta manninn sem hann sýndi kvæði eftir sig og hafi eftir það treyst dómum hans um skáldleg efni betur en áliti annarra.

Allar hrikalegustu fyrirkonur bæjarins kysstu hann á götu

Hverrar ættar var svo þessi annálaði maður - Erlendur í Unuhúsi. Halldór Laxness spurði hann þessarar spurningar þegar hann drakk með honum kaffisopa á Uppsölum snemma á síðustu öld. Erlendur svaraði: "Allir eru einhversstaðar að; hljóta að vera það, jafnt fyrir því þó allar ættartölur séu lýgi frá rótum. Nú verð ég að hugsa mig vel um hvurnin ég á að ljúga, - leit upp og hló ljúfmannlega og bustaði ósýnilegt kusk úr skegginu með fíngrunum. Mér er sagt, sagði hann, að ég sé kominn útaf öllum pokaprestum í Húnaþíngi, þarámeðal séra Jóni Þorgeirssyni sem samdi ævisögur reiðhesta í Húnavassýslu frá landnámstíð til vorra daga. En í hina ættina er mér sagt að forfaðir minn sé Jón nokkur í Rugludal sem ku hafa verið mestur sauðaþjófur húnvetnínga sem sögur herma." Halldór grennslaðist þá fyrir um kvenlegginn? Erlendur svaraði: "Allar hrikalegustu fyrirkonur hér í bænum af því tæi sem við strákar vorum vanir að kalla piparjúnkur, þær segjast vera náfrænkur mínar úr Húnaþíngi og kyssa mig á götu."

Í minningarorðum um Erlend Guðmundsson sem birtust í Morgunblaðinu 28. febrúar 1947, segir að Erlendur hafi fæðst 31.5. 1892 í Mjóstræti í Reykjavík en hann hafi alist upp í Garðastræti 15, Unuhúsi og búið þar alla ævi. Faðir hans var Guðmundur Jónsson frá Brún í Svartárdal í Húnavatnssýslu en móðir hans var Una Gísladóttir fædd á Stóru-Giljá í Húnaþingi. Faðir hans lærði apótekarafræði og starfaði í Reykjavíkurapóteki. Hann dó tiltölulega ungur maður. Foreldrar Erlends eignuðust fimm börn en systkini Erlends voru öll dáin þegar hann var fimmtán ára. Fyrst var Erlendur vikadrengur fyrir fisksala nokkurn, þá varð hann búðarþjónn, bréfberi, gjaldkeri lögreglustjórans og síðar tollstjórans í Reykjavík.

Greinarhöfundur sem auðkennir sig með stafnum S, segir svo: "Mig hefur oft furðað á því hvílíkt mikilmenni Erlendur var í raun og veru. Jeg vil ekki lýsa þeim aðstæðum, sem hann átti við að búa á uppvaxtarárum sínum, þegar hann var eina fyrirvinna móður sinnar. Jeg þekkti heimilisástæðurnar. Oft kom hann heim til mín og tefldi þá gjarnan skák við okkur bræðurna, þegar honum þótti of mannmargt heima. Var hann þá jafnan glaður og reifur, og aldrei mintist hann á heimilisástæður sínar." Þess er víða getið að Erlendur þótti afar góður skákmaður, það var eitt með öðru sem hann tileinkaði sér. Erlendur var lítt skólagenginn maður en því betur sjálfmenntaður. Í minningarorðum S segir ennfremur: "Mjer er það hulin ráðgáta hvernig Erlendur öðlaðist alla þá þekkingu, er hann hafði. - Það duldist engum, sem við hann talaði, að þar var hámenntaður maður. En þó var hugljúfust prúðmenska hans og ráðhollusta. Þar átti hann engan sinn líka."