Anna Líndal mundar myndbandstökuvélina.
Anna Líndal mundar myndbandstökuvélina.
Anna Líndal opnar sýningu í Gallerí Sævars Karls . Hún hefur haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í fjölmörgum samsýningum bæði hér heima og erlendis. Sýningin Jaðar verður sýnd síðar á þessu ári í Kanada og Kóreu.

"Myndlistarsýningin "Jaðar" er myndbanda-innsetning sem fjallar um þá orku sem myndast þegar jaðrar tveggja flata mætast. Í þessu tilfelli náttúran og daglegt líf okkar," segir Anna Líndal.

"Ég er búin að vera að vinna að þessu verki síðan 1997 en þá fór ég í fyrsta skipti með Jöklarannsóknafélaginu í rannsóknarleiðangur á Vatnajökul. Þá kviknaði sú hugmynd að gera myndverk um rannsóknir, þörfinni fyrir að skrá og mæla og tengja þetta við samfélagið. Í þessari ferð fór ég að safna myndefni og velta fyrir mér sannleiksþrá mannsins, þörfinni til að skilja náttúruöflin sem í raun eru ofvaxin mannlegum skilningi. Það er spennandi að tefla þessu saman við okkar flókna daglega veruleika," segir Anna.

"Í verkinu stefni ég saman mörgum sjónvarpsskjám sem hver segir sína sögu, verkið er þannig fjölfrásagnarlegs eðlis. Á sjónvarpsskjánum renna margvísleg myndskeið sem sýna náttúruöflin bæði ógnandi og gefandi, landslag og beinharðar staðreyndir um hefðbundnar rannsóknir en með því að tefla þeim saman við heimilið og okkar daglega líf verða þær á einhvern hátt afstæðar, jafnvel undarlega tvíræðar. Ég held að hver einstaklingur geymi náttúruna og tímann í sér, heldur jafnvel að hann eigi náttúruna, meðan það er náttúran sem á hann," segir Anna.

"Það er búið að vera óskaplega gaman að vinna að þessu verki. Ég er búin að taka þátt í fjórum rannsóknarleiðöngrum á Vatnajökul, fengið að fylgjast með Grímsvatnagosinu, farið inn á miðhálendi Íslands þegar var verið að mæla hvernig er umhorfs undir yfirborðinu. Það munaði öllu fyrir mig að verkið var valið inná dagskrá M2000, með þeirri samvinnu var hægt að breyta hugmyndinni í veruleika. Í þessum ferðum hef ég alltaf haft myndbandstökuvélina með mér, en öll úrvinnsla er mjög tæknileg og þar af leiðandi kostnaðarsöm. Síðasta ár hefur tíminn hjá mér aðallega farið í að tileinka mér nýja tækni, forma hugmyndina betur og klippa saman myndefnið, þessi stafræna tækni gefur mikla möguleika en ég hef líka oft setið rangeygð fyrir framan þessa tölvu og horft á hvert ljónið á fætur öðru hoppa inn á skjáinn. En með góðra manna hjálp nær maður einu hænuskrefi í einu. En mín listræna glíma felst aðallega í því að finna þessari óbeisluðu orku sem falin er á milli tilfinninga og tækni, viðeigandi sjónrænt tjáningarform," segir Anna Líndal.