[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
"Ég get ekki svarað fyrir þjálfun annarra félaga í Þýskalandi en míns og hvað þjálfun þess liðs snertir get ég fullyrt að hlutirnir eru í góðu lagi og yfirlýsingar Þorbjörns um að það sé bullþjálfun í Þýskalandi á ekki við um Magdeburg og þann eina...

"Ég get ekki svarað fyrir þjálfun annarra félaga í Þýskalandi en míns og hvað þjálfun þess liðs snertir get ég fullyrt að hlutirnir eru í góðu lagi og yfirlýsingar Þorbjörns um að það sé bullþjálfun í Þýskalandi á ekki við um Magdeburg og þann eina leikmann íslenska landsliðsins sem þaðan kemur; Ólaf Stefánsson," segir Alfreð Gíslason, handknattleiksþjálfari hjá þýska 1. deildar liðinu Magdeburg, um þá skoðun sem Þorbjörn Jensson, landsliðsþjálfari í handknattleik, setti fram í Morgunblaðinu í gær að hjá mörgum félögum í Þýskalandi sé bullþjálfun.

Úr því að Þorbjörn er að lýsa þessu yfir og setja alla undir sama hatt þá óska ég eftir því að hann nefni þau félög þar sem þjálfun leikmanna er ábótavant. Ég tek þessa gagnrýni ekki nærri mér því ég veit að þjálfunin er í góðu lagi hjá Magdeburg. Þetta er hins vegar stór yfirlýsing hjá Þorbirni.

Mín skoðun er sú að þjálfun liða hér sé í góðu lagi. Þá ályktun dreg ég út frá því hvernig deildarkeppnin er keyrð áfram hér í landi. Menn hafa ekki úthald til að leika hér til lengdar hafi þeir ekki til þess þrek. Ef eitthvað er þá held ég frekar að leikmenn frá Þýskalandi, sem eru að leika með flestum landsliðum keppninnar, séu frekar og þreyttir vegna gríðarlegs álags eftir erfitt keppnistímabil sem er ekki nema rétta hálfnað."

Alfreð segir að Ólafur Stefánsson sé í mjög góðri æfingu og hafi leikið sérlega vel síðustu sex vikurnar áður en hann hélt til móts við landsliðið. "Það sama á við Ólaf eins og aðra leikmenn frá Magdeburg sem taka þátt í keppninni, þeir hafa allir leikið vel og ekki borið nein merki þess að vera ekki í æfingu," segir Alfreð og telur að Þorbjörn verði að leita annars staðar eftir skýringum á árangri landsliðsins í Króatíu.

"Það má kannski velta því upp hvort leikmenn sem ekki hafa gengið heilir til skógar leiki ekki og mikið og of stór hlutverk í landsliðinu í keppninni."

Þorbjörn hefur einnig sagt að hann hafi ekki haft tíma til þess að bæta þrek leikmanna fyrir keppnina, tíminn til undirbúnings hafi verið of skammur til þess að grípa í taumana og bjarga einhverju. Alfreð gefur ekki mikið fyrir þá fullyrðingu og segir að vissulega hefði þjálfarinn getað gert eitthvað til að bæta úr, hefði honum þótt ástæða til. Maxímov, þjálfari Rússa, hefði t.d. verið með sitt lið í þrekæfingum tvisvar til þrisvar á dag fram að keppni og ekki hefði hann haft lengri tíma til undirbúnings en Þorbjörn.

Duranona hefur aldrei náð sambandi við Dag

"Ég kannast við yfirlýsingar af þessu tagi frá þeim tíma sem ég lék með landsliðinu. Þá lýsti þáverandi landsliðsþjálfari, Bogdan Kowalzcyk, því stundum yfir þegar illa gekk að leikmenn væru ekki í nægilega góðri æfingu.

Burtséð frá þessu hefði ég viljað, sem gamall KA-maður, sjá Patrek Jóhannesson og Julian Duranona leika meira saman fyrir utan. Þeir hafa alltaf náð vel saman, en á hinn bóginn vitum við að Julian hefur aldrei náð miklu sambandi við Dag Sigurðsson.

Samvinna Patreks og Julians hefur oft skilað sér, til dæmis gegn Dönum ytra þegar leikið var um HM-sætið 1996 og eins á HM í Kumamoto árið eftir.

En fyrst og fremst þá óska ég eftir því að Þorbjörn upplýsi hvaða félög hann á við, þótt hann hafi lýst þessari skoðunn sinni í hita leiksins þá finnst mér rétt að hann leggi spilin á borðið," sagði Alfreð Gíslason, þjálfari Magdeburg og fyrrverandi landsliðsmaður í handknattleik.

Róbert Sighvatsson er í toppæfingu

"Ég get ekki tjáð mig um æfingar annarra félaga, en ég veit bara það eitt að hjá Dormagen er æft mjög vel og það á svo sannarlega við um Róbert Sighvatsson," segir Guðmundur Þ. Guðmundsson, þjálfari hjá Bayer Dormagen í þýsku 1. deildinni.

"Í venjulegri viku er æft að jafnaði átta sinnum auk þess sem leikið er einu sinni til tvisvar í viku. Ég fullyrði að Róbert Sighvatsson er í toppæfingu þannig að ef Þorbjörn ætlar að skýla sér á bak við fullyrðingar af þessu tagi hvað Róbert varðar þá vísa ég því algjörlega til föðurhúsanna. Róbert æfir mjög vel, hann leikur alla leiki Dormagen frá upphafi til enda, jafnt í vörn sem sókn. Við leikum framliggjandi vörn 3-2-1 þar sem hann leikur lykilhlutverk og það gerði hann ekki væri hann ekki í eins góðri æfingu og kostur er. "

Verður þess vart á handknattleiknum í Þýskalandi að menn æfi of lítið?

"Ég verð ekki var við það. Deildakeppnin hér í landi er sú erfiðasta í heiminum og menn komast ekki í gegnum hana nema leggja hart að sér."

Guðmundur segir að hann hafi aukið æfingaálagið hjá leikmönnum eftir að hann tók við þjálfun liðsins sl. sumar og reglulega sé fylgst með ástandi manna. "Það er alveg ljóst að mínir leikmenn eru í toppæfingu, þar með talinn Róbert Sighvatsson. Ástæðurnar fyrir því að Dormagen gengur ekki sem skyldi eru aðrar en þær að leikmenn séu ekki í eins góðri æfingu og frekast er kostur."

Guðmundur segist ekki hafa nokkra trú á því að ástæða þess að þýska landsliðinu hafi ekki gengið sem skyldi á EM sé sú að leikmenn liðsins séu ekki í æfingu. "Landslið Þýskalands er skipað leikmönnum frá bestu liðunum hér, þeir eru að leika tvo leiki í viku og eru auk þess í Evrópukeppni félagsliða. Ástæðan fyrir slökum árangri þýska liðsins eru einhverjar aðrar en æfingaleysi. Hverjar þær eru treysti ég mér ekki til að dæma um þar sem ég hef ekki séð Þjóðverjana leika sökum þess að ég hef verið með mitt lið í æfingabúðum í Frakklandi og einbeitt mér að því verkefni."

Guðmundur segist undrast ummæli Þorbjörns. "Ég held að best sé að skoða árangur landsliðsins frá öðru sjónarhorni."

Hefði ekki verið möguleiki hjá Þorbirni að klóra í bakkann og vera með þrekæfingar fyrir þá leikmenn sem á þurftu að halda á þeim tíma sem hann hafði til undirbúnings?

"Það hefði vissulega verið hægt að skerpa á leikmönnum á þeim tíma sem var til stefnu ef ástæða hefði þótt til, en ég veit ekki í hversu nánu sambandi Þorbjörn hefur verið við þjálfara leikmanna hér í landi til þess að kanna í hvernig ástandi menn væru fyrir keppnina."

Var hann í sambandi við þig vegna þess?

"Þorbjörn hefur ekki spurt mig um eitt eða neitt varðandi ástand minna leikmanna. Ég vil bara ítreka það að hvað Róbert Sighvatsson varðar þá var hann í framúrskarandi æfingu þegar hann fór frá okkur til móts við landsliðið.

Ég tel að menn verði að leita annað en til Þýskalands eftir skýringum á slökum árangri íslenska landsliðsins. Málið verður að skoða í mun víðara samhengi," sagði Guðmundur Þ. Guðmundsson, þjálfari Bayer Dormagen.

Eftir Ívar Benediktsson