Landeigendur fjölmenntu á fund  í fyrrakvöld, þar sem kröfugerð ríkisins um þjóðlendur í Árnessýslu var rædd.
Landeigendur fjölmenntu á fund í fyrrakvöld, þar sem kröfugerð ríkisins um þjóðlendur í Árnessýslu var rædd.
LANDEIGENDUR í Árnessýslu fjölmenntu á fund í Aratungu í fyrrakvöld til að ræða kröfugerð ríkisins á hendur landeigendum í sýslunni.
LANDEIGENDUR í Árnessýslu fjölmenntu á fund í Aratungu í fyrrakvöld til að ræða kröfugerð ríkisins á hendur landeigendum í sýslunni. Krafa stjórnvalda gerir ráð fyrir því að stór hluti afrétta og landsvæða, sem landeigendur í uppsveitum Árnessýslu hafa hingað til talið sína eign, skuli tekið í ríkiseigu sem þjóðlenda, skv. lögum um þjóðlendur nr. 58/1998.

Óánægja ríkir meðal jarðeigenda vegna þeirra línu sem dregin hefur verið til að afmarka þjóðlendu og eignarland. Með þeirri línu eignar ríkið sér um 87% af því afréttalandi sem um ræðir og telja landeigendur að ríkið hundsi aldagömul og þinglýst landamörk jarða í sýslunni. Mikið ber á milli þeirra landamarka, sem landeigendur telja að séu í fullu gildi, og þeirra þjóðlendumarka sem nefnd á vegum fjármálaráðuneytisins hefur gert kröfu til í nafni ríkisins.

Ljóst var á fundinum að landeigendum er heitt í hamsi vegna málsins og töldu fundarmenn tillögurnar ósvífnar og dæmi um stórfellda eignaupptöku, sem ekki ætti sér hliðstæðu hér á landi. Margeir Ingólfsson, formaður hreppsráðs Biskupstungnahrepps, setti fundinn fyrir hönd undirbúningsnefndar og sagðist vera undrandi yfir kröfugerð ríkisins, sem gengi þvert á það sem menn hafi talið vera rétt og að aldagömul landamerki væru ekki virt viðlits og ekki tekið mark á þinglýstum eignamörkum. Hann sagði landeigendur ekki sætta sig við slík málalok og því væri boðað til fundarins.

Kröfulína ríkisins verði dregin út fyrir þinglýst landamörk

Seinna á fundinum steig Margeir í pontu á ný og sagði það einfalt í sínum huga, að annaðhvort héldi þinglýsingarkerfið eða ekki. Einnig þætti honum það hálfneyðarlegt, nái kröfur ríkisins fram að ganga, "að það skuli vera þessir stjórnmálaflokkar sem ætli sér að standa að mestu eignaupptöku Íslandssögunnar". Þá las hann upp ályktun fundarins sem undirbúningsnefndin kom sér saman um:

"Almennur fundur um lög nr. 58/1998, þjóðlendislögin, haldinn 25. janúar í Aratungu, skorar hér með á fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisins að draga kröfulínu ríkisins út fyrir þinglýst mörk eignarlanda, enda sé það alls ekki í anda laganna að ganga þvert á þinglýstar eignarheimildir."

Framsögumenn á fundinum voru fimm og fyrstur reið á vaðið Björn Sigurðsson, bóndi í Úthlíð. Samkvæmt kröfugerðinni mun Björn missa um 98% af eign jarðarinnar á afréttalandinu, sem er drjúgur meirihluti af heildarjarðnæði Úthlíðar. Björn sagði í ræðu sinni að bændur væru reiðir vegna kröfugerðar ríkisins, enda væri enginn ágreiningur á milli manna í sýslunni um landamörk, vegna þess að vel væri frá landamerkjalýsingum gengið.

"Í haust fylgdi síðan kröfulýsing fjármálaráðuneytisins. Kröfulýsingaplagg þetta á sér enga hliðstæðu. Í kröfugerðinni, sem fyrst náði yfir 77 jarðeigendur, var farið ránshendi og þess krafist að stór hluti jarða yrði tekinn undir þjóðlendur án nokkurra bóta. Í slíkri kröfugerð kemur fram ótrúlegur hroki og virðingarleysi fyrir því sem mannlegt getur talist og því lífi og starfi sem eigendur þessara jarða hafa látið þjóðfélaginu í té um aldir. Margir hafa stritað alla ævi fyrir því að geta eignast jörðina sína og þá fyrst andað léttar þegar þeir hafa í höndum þinglýst plagg um að jörðin þeirra hafi verið keypt með gögnum og gæðum. Fylgir það sem fylgja ber og ekkert undanskilið!" sagði Björn og kvað fast að.

Engin rök hníga að þessari niðurstöðu

"Þar kemur líka til jafnréttisregla stjórnarskrárinnar að allir landsmenn skuli jafnir að lögum. Og það fær að mínu mati ekki staðist, að einhver mismunur sé á þinglýstum jarðeignum, hvort sem það eru efstu jarðir sveitanna eða þær sem neðar liggja. Um aldir hafa fasteignir í sveitum landsins lotið sömu lögum og ég hygg að flestir landsmenn telji að jafnrétti á eignarrétti fasteigna sé einn af hornsteinum lýðveldisins."

Björn sagði að dómur óbyggðanefndar væri ekki fallinn, og að krafa landeigenda til ríkisvaldsins væri einföld og fælist í því að kröfulína ríkisins yrði tafarlaust dregin út fyrir öll þinglýst landamerki í Árnessýslu.

Ólafur Björnsson lögfræðingur var einn frummælenda og sagði að við framkvæmd laganna virtist sú nýlega skoðun koma fram, að lögbýli með þinglýstum landamerkjum kunni, a.m.k. að hluta til, að vera að grunni til eign ríkissins, þó að landeigendur eigi þar takmörkuð réttindi í formi beitarréttar. "Með öðrum orðum, að landamerkjabréf jarða segi aðeins til um yfirráðarétt en að þau séu ekki fullkomin heimild um eignarrétt. Þessari nýju kenningu, sem ég vil kalla svo, og kemur mjög skýrt fram í kröfulýsingu þjóðlendisnefndar fjármálaráðuneytisins, er ég algerlega ósammála og ég tel að engin rök hnígi að þessari niðurstöðu og ég tel jafnframt að hún verði heldur ekki studd fordæmum."

Þinglýstar eignarheimildir verði næg sönnun fyrir eignarrétti

Hann sagði landeigendur gera þá kröfu að hinn almenni skilningur á þessum eignum verði viðurkenndur, þ.e. að jörð með þinglýstum landamerkjum sé eignarland. Ástæðan væri sú að eigandi jarðar á Íslandi hefði öll eignarráð þessarar eignar í krafti hinnar þinglýstu eignarheimildar og gæti m.a. bannað öðrum afnot hennar. Í samræmi við þetta hafi eigendur jarða á Íslandi ætíð fengið eignarhaldsbætur, ef réttindi jarða þeirra hafa verið skert með sérstökum hætti, enda sé eignarrétturinn varinn í stjórnarskrá.

"Þannig tel ég einnig að það séu engin rök til þess að mismuna eigendum bújarða eftir því hvort jarðir þeirra liggja að hálendinu eða hvort þær séu á láglendinu. Það er því von að landeigendur hafi verið rasandi hissa þegar því var haldið fram að þeirra jarðir væru ekki fullkomin eign þeirra, heldur ættu þeir þar einungis takmarkaðan afnotarétt en landið væri að öðru leyti í eigu ríkisins."

Að sögn Ólafs eru fræðimenn almennt sammála um það, að maður sem hefur þinglýsta eignarheimild yfir eign sinni sé talinn eiga tilsvarandi réttindi yfir eigninni þar til annað sannast. "Með öðrum orðum, sá sem vill vefengja heimild sem styðst við þinglýsingabækur, hann hefur sönnunarbyrði fyrir þeirri staðhæfingu sinni."

Að sögn Ólafs er meginkrafa landeigenda sú að hinar þinglýstu eignarheimildir verði metnar sem næg sönnun fyrir beinum eignarrétti jarðareiganda, og að sá sem haldi öðru fram, í þessu tilviki ríkið, verði að sanna sitt mál. Hann telur að það verði ríkinu erfitt að færa sönnur á slíkt gegn framlögðum þinglýsingarskjölum, ekki síst vegna þess að jarðeigendur hafi farið með öll eignaumráð jarðanna á grundvelli opinberra landamerkjabréfa.

Ríkið ber kostnað af mála- rekstri vegna landamerkja

Á fundinn mættu þingmenn kjördæmisins ásamt Geir Haarde fjármálaráðherra. Geir sagði að málið snerist fyrst og fremst um lögfræðileg álitamál, sem menn hafi tekist á um árum saman, þrátt fyrir þinglýsingar og jarðamerkingar og heimildir þar um. Hann upplýsti einnig á fundinum að búið væri að koma málum þannig fyrir að ríkið myndi bera allan kostnað af málarekstri vegna deilna um landamerki og kvaðst vonast til að viðunandi lausn fengist, sem menn gætu unað sáttir við.

Árni Johnsen alþingismaður sagði þær kröfulýsingar sem lagðar hafa verið fram af hálfu stjórnvalda, ganga of langt að sínu mati "Þær skapa ófrið, óöryggi, tortryggni og úlfúð sem er ekki farsælt til að vinna þetta mál á friðsamlegan og eðlilegan hátt."

"Ef að framganga þessara laga verður einhver óskapnaður sem raskar viðmiðunum í sveitum í landsins, þá mun ég og eflaust fleiri alþingismenn berjast fyrir því að lögin verði tekin upp, hvort sem þeim verður kippt aftur eða ekki."

Í svipaðan streng tók Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra sem sagðist harma niðurstöður nefndarinnar sem kæmu fram í kröfuskýrslunni. Hann sagði þó mikilvægt að leiða til lykta gamlar deilur um hálendið og að mörkin yrðu skýr á milli þjóðlendna og eignarlands.