Formaður KEA og samningamenn bænda fara yfir drög að samningi um aðild bænda að nýju mjólkurfélagi, f.v. Jóhannes Geir Sigurgeirsson, Sigurgeir Hreinsson og Haukur Halldórsson.
Formaður KEA og samningamenn bænda fara yfir drög að samningi um aðild bænda að nýju mjólkurfélagi, f.v. Jóhannes Geir Sigurgeirsson, Sigurgeir Hreinsson og Haukur Halldórsson.
STJÓRN Kaupfélags Eyfirðinga samþykkti í gær að heimila stjórnarformanni og kaupfélagsstjóra að ganga frá samkomulagi við viðræðunefnd mjólkurframleiðenda í Eyjafirði og Suður-Þingeyjarsýslu um eignaraðild framleiðenda að mjólkursamlögunum á grundvelli...
STJÓRN Kaupfélags Eyfirðinga samþykkti í gær að heimila stjórnarformanni og kaupfélagsstjóra að ganga frá samkomulagi við viðræðunefnd mjólkurframleiðenda í Eyjafirði og Suður-Þingeyjarsýslu um eignaraðild framleiðenda að mjólkursamlögunum á grundvelli samningsdraga sem liggja fyrir. Stofnuð hafa verið einkahlutafélög um mjólkursamlögin, MSKEA ehf. um samlagið á Akureyri og MSKÞ ehf. um samlagið á Húsavík og á KEA félögin að öllu leyti. Félögin verða sameinuð í eitt félag.

Framleiðendasamvinnufélag kúabænda í Eyjafirði og Þingeyjarsýslu mun eignast allt að 34% í hinu nýja félagi, á móti að minnsta kosti 66% hlut KEA, gegn því að leggja fram bindandi viðskiptasamninga við framleiðendur um að leggja inn í samlagið að minnsta kosti 99% af þeirri mjólk sem framleidd er á svæðinu. Verða þeir að skila inn þessum innleggsloforðum í ágúst. Fyrir hvert prósentustig mjólkurframleiðslunnar, sem ekki næst samkomulag um, minnkar eignaraðild bænda um 1%, þannig að ef lagðir verða fram bindandi viðskiptasamningar fyrir 95% mjólkurmagnsins mun framleiðendasamvinnufélagið eignast 30% í hinu nýja fyrirtæki. Eignaraðild bænda fer hins vegar aldrei niður fyrir tiltekið mark sem ekki hefur verið gefið upp hvert er.

Í hluthafasamkomulagi sem gert verður samhliða samningunum eru bændum tryggð jöfn áhrif á við kaupfélagið um stjórnun mjólkurfélagsins, bændur tilnefna tvo menn í stjórn og KEA tvo en aðilar tilnefna fimmta manninn sameiginlega. Jafnframt verða ákvæði um að framleiðendasamvinnufélagið eigi rétt á að kaupa viðbótarhlut á matsverði. Kaupi það hins vegar meirihluta hlutafjár getur KEA krafist þess að framleiðendafélagið kaupi allt hlutaféð á sama verði. Í þriðja lagi mun koma fram í hluthafasamkomulaginu að eigendur félagsins séu sammála um að forsenda samninganna sé að hið nýja félag geti greitt bændum samkeppnisfært verð fyrir mjólkurinnlegg, það er að greiðsla á hæsta verði fyrir mjólk hafi forgang fram yfir arðgreiðslur til eigenda. Loks verða ákvæði um að litið sé svo á að með samningunum séu útkljáð ágreiningsefni um eignarhald á mjólkursamlögunum.

Fleinn í holdi KEA

Lengi hafa verið deilur um eignaraðild bænda að mjólkursamlögum sem að forminu til hafa verið í eigu blandaðra kaupfélaga. Bændur hafa gert kröfu um beina eignaraðild og hafa stutt þær margvíslegum sögulegum rökum, meðal annars um framlög til uppbyggingar samlaganna.

"Hér hefur þetta deilumál verið eins og fleinn í holdi kaupfélagsins og torveldað nauðsynlega vinnu við að ljúka endurskipulagningu KEA," segir Jóhannes Geir Sigurgeirsson, formaður stjórnar KEA. "Það liggur fyrir að réttarstaða mjólkurframleiðenda er önnur en annarra félagsmanna. Mjólkursamlögin höfðu meira sjálfstæði en aðrar deildir félaganna, Mjólkursamlag KÞ hafði til dæmis sérstaka kennitölu. Málið er hins vegar mjög flókið, jafnt félagslega sem fjárhagslega, og í raun flóknasta úrlausnarefni sem ég hef staðið frammi fyrir. Inn í það blandast hagsmunir annarra félagsmanna og eigenda B-deildarbréfa í KEA. En nú er að hrökkva eða stökkva og ég tel að allir ættu að geta verið sáttir við niðurstöðuna," segir Jóhannes Geir.

Bændur vildu meirihluta

Viðræður hafa staðið yfir á milli fulltrúa stjórnar kaupfélagsins og viðræðunefndar bænda sem vinnur í umboði kúabændadeildar Búnaðarsambands Eyjafjarðar. Á síðari stigum hafa komið að málinu fulltrúar þingeyskra kúabænda en þegar KÞ lenti í greiðsluerfiðleikum samþykktu bændur sölu mjólkursamlagsins til KEA gegn því að eignaraðild þeirra yrði tryggð.

"Ég tel að samkomulagið sé viðunandi, ef það gengur eftir sem stefnt hefur verið að, og hvet bændur eindregið til að taka þátt í þessu með okkur," segir Sigurgeir Hreinsson, formaður Búnaðarsambands Eyjafjarðar. Í upphafi stefndu bændur að meirihlutaeign í mjólkursamlaginu og hefur sú stefna verið samþykkt á fundi framleiðenda. Sigurgeir segir að bændur hefðu viljað eignast stærri hlut í félaginu en ýmis atriði í hluthafasamkomulagi aðila vegi það upp. "Við komumst ekki lengra í þessu skrefi," segir hann. "Þegar tveir aðilar eru að semja reyna þeir að komast að viðunandi niðurstöðu fyrir báða aðila,"segir Haukur Halldórsson, einn af samningamönnum bænda, þegar hann er spurður að því af hverju þeir hefðu sætt sig við minna en meirihlutaeign eins og að var stefnt í upphafi. Bendir hann á að í hluthafasamkomulagi séu tryggð þau atriði sem bændur leggja mesta áherslu á, svo sem varðandi stjórnun félagsins og áherslur um forgang bænda til greiðslna og ákvæði um kauprétt á viðbótarhlutafé. Telur Haukur að hagsmunir framleiðenda séu tryggðir með þeim hætti. Þá vekur hann athygli á því að ekki sé tilviljun að eignaraðild bænda sé miðuð við meira en einn þriðja því tvo þriðju hluta atkvæða á aðalfundi þurfi til breytinga á stofnsamþykktum félagsins.

Mjólkurframleiðendur í Þingeyjarsýslu eiga aðild að samkomulaginu enda verða þeir þátttakendur í hinu nýja samvinnufélagi framleiðenda. Einn af forystumönnum þeirra, Kristín Linda Jónsdóttir í Miðhvammi í Aðaldal, segir mjög mikils virði að ná samkomulagi við KEA um eignaraðild bænda sem á pappírunum eigi samlögin, til þess að skapa frið um mjólkurvinnslu á þessu landsvæði. Það hljóti að vera öllum til hagsbóta og skapi möguleika til að byggja upp öfluga mjólkurvinnslu. Hún tekur þó fram að út úr samningunum verði að koma spennandi kostur, ekki síst ef til frekari sameiningar mjólkursamlaga ætti að koma.

Verður bændum of dýrt

Hópur eyfirskra kúabænda hefur verið óánægður með þá stefnu sem viðræðurnar við KEA hafa tekið og haft með sér óformlegt samstarf um að fá samningamenn inn á rétta braut. Aðalsteinn Hallgrímsson, bóndi í Garði, segist vera óánægður með þá niðurstöðu sem stefni í. "Þetta virðist hafa verið eina leiðin sem komist hefur að. Við höfum viljað skoða fleiri möguleika," segir hann. Kveðst hann ósáttur við að bændur skuli ekki eignast strax meirihluta í mjólkurfélaginu og telur að þær leiðir sem þeir hafi til að ná því marki séu bændum allt of dýrar. Reiknast honum til að þegar upp verður staðið geti bændur þurft að greiða kaupfélaginu tvo milljarða króna fyrir eignir mjólkursamlagsins, tvöfalt raunverulegt verðmæti eigna þess. Með því móti væru bændur sjálfir að kaupa aðgang mjólkursamlagsins að kvóta bænda. Bendir hann í því sambandi á að mjólkurvinnslustöðin séu ekki mikils virði án hráefnisins sem bændur leggja til.

Aðalsteinn er einnig óánægður með það hvernig að undirbúningi samninga hefur verið staðið. Hópur kúabænda hyggst óska eftir því að Íslensk verðbréf hf. og endurskoðunarskrifstofuna PriceWaterhouseCoopers meti verðmæti mjólkursamlagsins og mjólkina sem eign framleiðenda í viðskiptum. Einnig óska þeir eftir að KEA veiti nauðsynlegar upplýsingar um eignir mjólkursamlagsins og rekstur þannig að matið geti farið fram.

Skerða eigið fé um 500 milljónir

KEA mun minnka verulega eigið fé mjólkursamlagsins á Akureyri áður en það verður lagt inn í hið nýja hlutafélag. Nettóskuldir þess eru nú rúmar 200 milljónir en til viðbótar verður gefið út 500 milljóna króna skuldabréf til KEA þannig að nettóskuldir verða samtals um 700 milljónir kr. Hlutafé KEA verður rúmar 300 milljónir kr. og hlutafé bænda metið á 100 til 150 milljónir, eftir því hvað þeim tekst að tryggja mikið mjólkurinnlegg. Jóhannes Geir Sigurgeirsson segir eignir mjólkursamlagsins hafi verið endurmetnar og skuldabréfið gefið út á móti hækkuninni. Þrátt fyrir endurmatið séu eignirnar mun meira virði en fram kemur í efnahagsreikningi mjólkursamlagsins, ef miðað er við endurstofnverð. Jóhannes segir að KEA muni áfram útvega mjólkursamlaginu lánsfé á þeim bestu kjörum sem KEA nýtur. Þá hafi skuldabréfið eiginleika víkjandi láns, samkomulag sé um að afborganir og vextir af umræddu láni víki fyrir því markmiði að greiða bændum samkeppnishæft verð fyrir mjólkina.

Sigurgeir Hreinsson segir að bændur séu nokkuð hugsandi yfir skuldsetningu fyrirtækisins. Þótt það sé ekki verr statt en fyrirtæki almennt yrði að hafa í huga að staða fyrirtækja mjólkuriðnaðarins á Suður- og Vesturlandi sé mun öflugri. "Við hefðum viljað hafa efnahag mjólkursamlagsins óskertan og vorum ósáttir við þessa breytingu," segir Sigurgeir. Hann segir að tryggt sé að uppgjör við bændur gangi fyrir greiðslum af umræddu viðbótarláni. Þá bindur hann vonir við verulega hagræðingu af sameiningu mjólkursamlaganna á Húsavík og Akureyri í eitt félag.

Félagi Aðalsteins í "órólegu deildinni", Sigurgeir Pálsson í Sigtúnum, segir að Mjólkursamsalan í Reykjavík stefni að því að greiða bændum hæsta mögulega verð fyrir innlagða mjólk og séu til dæmis uppi hugmyndir um að greiða 4 króna álag vegna framleiðslu síðasta árs. MSKEA ehf. verði að greiða sama álag til þess að geta haldið því fram að það greiði samkeppnisfært verð. Telur hann enga möguleika á því að það takist eftir að skulir þess hafi verið auknar um 500 milljónir kr. eins og til standi. Það þyrfti því að selja vörur sínar á hærra verði en aðrir og það myndi leiða til minni sölu og lægra greiðslumarks.

Aðalsteinn og Sigurgeir Pálsson segja að yfirtaka KEA á 500 milljónum kr. af eigin fé mjólkursamlags KEA sé enn eitt dæmið um það hvernig KEA hafi blóðmjólkað þessa mjólkurkýr sína í gegn um árin. Fyrir nokkrum árum hafi KEA tekið 500 milljónir af eigin fé mjólkursamlagsins auk þess sem árlega séu færðir tugir milljóna króna á milli vegna vaxta og fleiri þátta. "Ef bændur hefðu alltaf átt þetta fyrirtæki og rekið, eins og hugmyndin var í upphafi, væri þetta stöndugt fyrirtæki sem gæti greitt okkur hærra verð en aðrir fá og boðið neytendum vörurnar á lægra verði," segir Aðalsteinn.

Ekki áform um að loka á Húsavík

Í hluthafasamkomulagi KEA og bænda eru ákvæði um að ekki sé hægt að selja hlutafé til þriðja aðila nema með samþykki beggja núverandi eignaraðila. Jóhannes Geir segir í því sambandi að rætt hafi verið um að álitlegt væri að tengjast erlendu félagi, hugsanlega með eignatengslum. Það gæti auðveldað aðgang að erlendum mörkuðum og hugsanlega veitt hinu nýja félagi tækifæri þegar og ef innflutningur mjólkurvara ykist. Býst hann við að yfirlýsing af þessu tagi muni verða gefin út samhliða undirritun samninga.

Jóhannes Geir segir aðspurður að ekki séu áform uppi um að hætta mjólkurvinnslu á Húsavík. Hins vegar sé fyrirhugað að auka verulega sérhæfingu í vinnslu samlaganna. Kristín Linda í Miðhvammi segir að það hafi ekki verið áhersluatriði bænda hvar mjólkin yrði unnin heldur að það yrði gert á sem hagkvæmastan hátt til þess að unnt yrði að tryggja bændum hæsta verð fyrir hráefnið.

Á vegum viðræðunefndar bænda hefur verið unnið að undirbúningi stofnunar framleiðendasamvinnufélags kúabænda á svæðinu. Starfandi bændur á hverjum tíma, bæði í Eyjafirði og Þingeyjarsýslu, eru jafn réttháir aðilar að félaginu. Félagið sjálft mun eignast hlutabréfin í sameinaða mjólkurfélaginu, ekki einstakir bændur. Að sögn forsvarsmanna bænda er það ákvörðunaratriði síðari tíma hvernig farið verður með þann arð sem félagið hugsanlega fær greiddan út, hvort hann verði greiddur út í hlutfalli við mjólkurinnlegg eða hluti hans fari í stofnsjóð.

Málaferli hugsanleg

Á bændum sem eru óánægðir með samkomulagið er að heyra að ekki muni allir sætta sig við niðurstöðuna. Aðalsteinn Hallgrímsson býst við að einhver fari í mál til að krefjast hlutdeildar í eignum mjólkursamlagsins, til þess að fá þau mál á hreint í eitt skipti fyrir öll. Þá segir hann hugsanlegt að einhverjir framleiðendur kanni möguleika á viðskiptum við önnur mjólkursamlög. "Það yrði slæmt ef til þess kæmi og menn myndu örugglega ekki gera það fyrr en fullreynt yrði að viðunandi samningar næðust við KEA," segir hann.

Jóhannes Geir segir að menn verði að skilja að fulltrúar KEA hafi teygt sig eins langt og þeir mögulega hafi getað til móts við sjónarmið framleiðenda. Telur hann að hugsanleg málsókn einhvers framleiðenda myndi ekki raska áætlunum um stofnun félagsins, því hún myndi beinast gegn KEA en ekki hinu nýja félagi. Hann tekur fram að KEA hafi boðið upp á það að úr ágreiningsefninu yrði skorið fyrir dómstólum en menn verði þá að skilja það að erfitt yrði fyrir KEA að ganga til samninga við bændur þegar félagið hefði unnið slíkt mál. "Við höfum talið betra að mæta framleiðendum með samningum," segir hann.

Fyrir liggur að eign framleiðendasamvinnufélagsins mun verða verulega minni en nú er áformað ef hópur framleiðenda fer í viðskipti við annað mjólkursamlag. Haukur Halldórsson segir mikilvægt að bændur standi saman um þetta mál. Með því móti hefðu þeir meiri áhrif í nýju félagi um rekstur mjólkurstöðvanna.