Hildur Grétarsdóttir er fædd í Reykjavík árið 1964. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1984 og útskrifaðist sem viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands árið 1990. Að loknu námi varð Hildur framkvæmdastjóri útgáfufyrirtækisins Ófeigs, sem gaf út tímaritið Heimsmynd. Því starfi gegndi hún til ársins 1993, þegar hún hóf störf sem afgreiðslustjóri hjá Sparisjóði Kópavogs. Á síðasta ári tók hún við sem forstöðumaður þróunar- og einstaklingssviðs hjá Sparisjóði Kópavogs.
Hildur Grétarsdóttir er fædd í Reykjavík árið 1964. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1984 og útskrifaðist sem viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands árið 1990. Að loknu námi varð Hildur framkvæmdastjóri útgáfufyrirtækisins Ófeigs, sem gaf út tímaritið Heimsmynd. Því starfi gegndi hún til ársins 1993, þegar hún hóf störf sem afgreiðslustjóri hjá Sparisjóði Kópavogs. Á síðasta ári tók hún við sem forstöðumaður þróunar- og einstaklingssviðs hjá Sparisjóði Kópavogs.

Hildur fer fyrir samstarfsverkefni Sparisjóðsins og Kópavogsbæjar um notkun Smart-korta í Þinghólsskóla í Kópavogi.

Út á hvað gengur þessi tilraun í Þinghólsskóla?

"Hún gengur út á það að krakkarnir fá í hendur kort, sem kallað er "Smart-Start". Eins og nafnið gefur til kynna er kortið tvískipt. Annars vegar er um reikningstengdan hluta að ræða, sem er sams konar og Start-reikningur sá, sem meðlimum unglingaklúbbs sparisjóðsins býðst. Hinn hlutinn er örgjörvi, sem inniheldur rafeyri, en hann geta krakkarnir notað í skólanum."

Og hvernig hefur svo tilraunin gengið?

"Þetta hófst í síðustu viku og okkur hefur þótt vel takast til á þeim stutta tíma sem liðinn er. Krakkarnir eru þó enn að átta sig á muninum á því að leggja inn á reikninginn sjálfan og inn á örgjörvann."

Þúvarst áður framkvæmdastjóri hjá tímariti. Er mikill munur á slíku starfi og því sem þú gegnir í dag?

"Já, það er gífurlegur munur þarna á. Hjá Heimsmynd snerist starf mitt aðallega að stjórnun fjármála fyrirtækisins, en hér hjá Sparisjóðnum er ég í stjórnun starfsmannamála, markaðsmála, vöruþróunar o.fl.

Ég tel mig hafa öðlast ágæta reynslu eftir þá baráttu sem ég var í á tímaritamarkaðnum. Þessi markaður er mjög erfiður enda er verið að keppa um frítíma fólks og samkeppnin því ekki bara á milli tímaritaútgefenda. Starfið hér í Sparisjóðnum hentar mér mun betur, verkefnin finnst mér skemmtilegri, vinnustaðurinn er stærri og þar af leiðandi er meira hér um hópstarf og samvinnu en á mínum gamla vinnustað."

Hvað gerirðu svo utan vinnunnar, í frístundum?

"Ég á nokkur áhugamál. Blakið hefur alltaf verið fyrirferðarmikið, enda keppti ég í þeirri grein fyrir Breiðablik í mörg ár. Fyrir nokkrum árum var svo blakdeildin hjá félaginu lögð niður og þá skipti ég yfir í Víking, og er nú komin í öldungaflokk þar. Af öðrum áhugamálum get ég nefnt skíði og golf, en ég hef lagt stund á golfið í ein fimm til sex ár og er sífellt að bæta mig."