Leikstjóri og handrit: Sebastian Gutierez. Tónlist: Christopher Young. Kvikmyndataka: James Chressanthis. Aðalhlutverk: Simon Baker-Denny, Gil Bellows, Emma Thompson. (100 mín) Bandaríkin. Myndform, 1999. Bönnuð börnum innan 16 ára.
UNG kona og elskhugi hennar, sem hafa aflað tekna með því að kúga fé af mönnum vegna kynlífshneyksla, fá hugmynd sem ætti að gera þau fjárhagslega vel stæð um ókomna tíð. Eins og í öllum góðum myndum gengur þetta engan veginn upp og enginn virðist vera þar sem hann er séður.

Koss Júdasar kemur virkilega skemmtilega á óvart. Söguþráðurinn dregur áhorfandann um marga króka og kima þar til sagan liggur ljós fyrir. Frammistaða leikara í myndinni er vel yfir meðallagi. Gil Bellows í hlutverki fjarskiptasnillings sem hjónakornin ráða til sín er gjörólíkur persónu sinni í "Ally McBeal". Alan Rickman og Emma Thompson koma með blæ kunningsskapar inn í myndina en þau léku saman í "Sense and Sensibility". Að lokum er það Carla Gugino sem slær enga feilnótu í vandasömu hlutverki.Það er óskandi að leikstjórinn og handritshöfundurinn Gutierez haldi áfram að gera svona gæðamyndir.

Ottó Geir Borg