Tilkynning til eftirbreytni Upp á síðkastið hafa nokkuð neikvæðar fréttir borist af verðbréfamarkaðinum. Á dögunum skaut þó upp kollinum frétt sem telja verður jákvæða. Er það tilkynning sem Tryggingamiðstöðin hf.

Tilkynning til eftirbreytni

Upp á síðkastið hafa nokkuð neikvæðar fréttir borist af verðbréfamarkaðinum. Á dögunum skaut þó upp kollinum frétt sem telja verður jákvæða. Er það tilkynning sem Tryggingamiðstöðin hf. sendi frá sér vegna umræðna um afkomu félagsins á árinu 1999. Ástæðan var afkomuspá verðbréfafyrirtækis eins, sem gerði ráð fyrir nokkru meiri hagnaði af starfsemi Tryggingamiðstöðvarinnar á árinu 1999, en árið á undan. Í tilkynningunni minnti TM markaðinn á þær vísbendingar sem forsvarsmenn félagsins gáfu við birtingu síðasta ársuppgjörs og milliuppgjörs, að vart væri hægt að búast við betri afkomu á síðari hluta ársins. Sagði síðan í tilkynningunni að félagið gæti ekki sagt nákvæmlega fyrir um hagnað ársins, en gæti þó sagt það, að ekkert benti til þess að hann yrði meiri en gefið var í skyn.

Ástæða er til þess að hrósa forsvarsmönnum TM fyrir þetta framtak. Fyrir hefur komið að afkomutölur einstakra félaga á Verðbréfaþingi hafi verið fjarri því sem markaðurinn hefur fyrirfram búist við. Stjórnendur sumra þessara félaga hafa þá ekki séð ástæðu til að gera markaðinum viðvart fyrir birtingu afkomutalnanna. Nú bregður hins vegar svo við að forsvarsmenn félags senda frá sér tilkynningu, þrátt fyrir að þeir hafi áður gefið vísbendingar um hver afkoman gæti orðið. Hinn almenni fjárfestir gerir sér oft ekki fyllilega grein fyrir því, við hverju er að búast, og er ekki að rýna í ræður og rit um afkomuvæntingar stjórnenda. Hér er um nútímaleg vinnubrögð að ræða, sem eru til eftirbreytni fyrir aðra stjórnendur félaga á verðbréfamarkaði.

Nýtt hlutafé í Íslandsneti

Mikil umframeftirspurn var í lokuðu hlutafjárútboði í Íslandsneti sem lauk nýlega.

Íslandsnet, sem rekur netgáttina strik.is, var fyrir útboðið alfarið í eigu Íslandssíma. Í boði var nýtt hlutafé og fengu einvörðungu samstarfsaðilar Íslandsnets í strik.is að taka þátt. Alls var eftirspurnin þreföld og því mun hlutur hvers og eins sem skráði sig fyrir hlut skerðast um tvo þriðju.

Snilld Kaupþings

Ekki verður annað sagt en Kaupþingsmenn hafi sýnt og sannað í viðskiptum sínum með hlutabréf í Eimskipafélaginu, að þeir eru snillingar í þessari tegund viðskipta. Þeir leggja upp undir tvo milljarða í kaup á hlutabréfum í Eimskipafélaginu, safna saman umtalsverðum hlut með því að bjóða stöðugt hærra verð og eftir sölu þessa hlutar til Eimskipafélagsins sjálfs og Sjóvár-Almennra er talið að þeir hafi hagnast um nær 450 milljónir á viðskiptunum.

Þegar þetta stór hlutur í Eimskipafélaginu var kominn á eina hendi og var til sölu blasti það við, að kaupandi gæti skapað sér áhrifastöðu innan félagsins. Það þýddi um leið áhrif innan Flugleiða og í nokkrum stórum útgerðarfyrirtækjum. Að vísu hefði kaupandi þessa hlutar orðið að verða sér úti um bandamenn í núverandi hlutahafahópi Eimskips til þess að nýta sér stöðu sína til hins ýtrasta en eins og kaupin gerast á eyrinni nú hefði það sennilega ekki verið erfitt.

Þótt það hafi vafalaust aldrei verið sagt var sú ógnun fyrir hendi, að hluturinn yrði seldur aðila, sem væri óvinveittur núverandi stjórnendum Eimskipafélagsins. Þessir viðskiptahættir voru stundaðir með góðum árangri í Bandaríkjunum á síðasta áratug og vafalaust enn að einhverju leyti og hlutu nafnið "greenmail", sem var orðaleikur með græna litinn á dollaraseðlunum, sem stundum eru kallaðir "greenbacks" og enska orðinu "blackmail", sem allir vita hvað þýðir.

Stjórnendur Eimskipafélagsins hafa komizt að þeirri niðurstöðu, sem er skynsamleg frá þeirra sjónarhóli séð, að hyggilegra væri að kaupa bréfin á svo háu verði en eiga yfir sér hættu á ófriði innan félagsins.