Katla Margrét Þorgeirsdóttir og Jón Gnarr í hlutverkum hinna ástföngnu taugasjúklinga í Panodil fyrir tvo.
Katla Margrét Þorgeirsdóttir og Jón Gnarr í hlutverkum hinna ástföngnu taugasjúklinga í Panodil fyrir tvo.
Höfundur: Woody Allen. Íslensk þýðing og staðfærsla: Jón Gnarr. Leikstjóri: Hallur Helgason. Leikarar: Jón Gnarr, Katla Margrét Þorgeirsdóttir, Þorsteinn Guðmundsson, Ingibjörg Stefánsdóttir og Jón Atli Jónasson. Leikmynd: Úlfur K. Grönvold. Búningar: María Valsdóttir. Lýsing: Sigurvald Ívar Helgason. Hljóðmynd: Ívar Ragnarsson. Förðun og gervi: Kristín Thors.
WOODY ALLEN er einn af fáum úr stétt kvikmyndaleikara sem tekist hefur að skapa persónu sem er algjörlega hans og engum öðrum lík. Allir sem séð hafa myndir hans vita hvað við er átt; hér er um að ræða heldur pervisinn, lágvaxinn, mjóan, rauðhærðan karlmann með gleraugu (þetta ræðst jú óhjákvæmilega af útliti Allens sjálfs!) sem er óendanlega taugaveiklaður og á sífellt í basli með sjálfsmynd sína. Hann gengur stöðugt til sálfræðings, er haldinn (mismunandi) léttri ofsóknarkennd og samskipti hans við konur einkennast af ýmiss konar vandræðagangi. Hann er hins vegar heiðarlegur, ágætlega gáfaður og hefur góða kímnigáfu - og á þeim eiginleikum kemst hann yfirleitt nokkuð langt með kvenfólkið. Með þessum taugaveiklaða karlmanni hefur Woody Allen skapað magnaða andhetju eða mótmynd við þá karlmennskuímynd sem Hollywood reynir að halda í heiðri og útbreiða á hvíta tjaldinu. Þetta er persóna sem flestir bíógestir kunna vel að meta og í kvikmyndasögunni hlýtur hún að öðlast (ef hún hefur ekki þegar öðlast) svipaða stöðu og Chaplin, Buster Keaton o.fl.

Í leikritinu sem frumsýnt var í Loftkastalanum í gærkvöldi er þessi persóna enn sem fyrr í brennidepli, enda gerði Allen kvikmynd eftir því leikriti sem hér um ræðir: Play it again Sam (1972). Jón Gnarr hefur þýtt og staðfært verkið og skilst mér að hann hafi stuðst bæði við upphaflegt leikrit Allens svo og bíómyndina. Þýðing Jóns er á eðlilegu talmáli sem rennur vel og staðfærslan hefur tekist í flesta staði vel. Þó eru ákveðnir þættir í bandarísku mannlífi sem gengur fremur illa að færa heim á Frón og má hér t.d. nefna hinar tíðu tilvísanir persóna til sálfræðinga sinna.

Leikritið snýst um Alfred Felix (Jón Gnarr) sem er nýfráskilinn kvikmyndagagnrýnandi. Vinafólk hans Diddi (Þorsteinn Guðmundsson) og Linda (Katla Margrét Þorgeirsdóttir) gerir allt sem í þeirra valdi stendur til að koma honum í samband við kvenfólk en það gengur heldur brösuglega þar til málin taka óvænta stefnu.

Það er persónulýsing (and)hetjunnar sem er aðal þessa verks og hér er henni teflt saman við eina aðalhetju kvikmyndanna, Humphrey Bogart (Jón Atli Jónasson), en hann sprettur sífellt ljóslifandi fram í hugarheimi Alfreds og reynir að gefa honum hollráð í kvennamálunum. Í samskiptum þeirra kristallast írónía verksins, bilið á milli draumaheimsins og veruleikans er oftast óbrúanlegt.

Hallur Helgason leikstjóri fellur ekki í þá gryfju að reyna að endurskapa túlkun Woody Allens á persónunni. Hann tekur þann viturlega kost að miða túlkunina við leikarann og kosti hans. Sú persóna sem Jón Gnarr skapar á sviðinu er öllu hægari í fasi en sú sem við þekkjum úr myndum Allens, og mun meiri "nörd". Sá hraði og skarpi stíll sem einkennir leik Allens var víðs fjarri, enda á fárra færi að herma hann eftir. Jón hafði ágæt tök á hlutverkinu og fór á kostum í einstaka atriðum, eins og þegar hann fer á fyrsta stefnumótið eftir skilnaðinn. Sá farsi sem þá átti sér stað á sviðinu var bæði vel útfærður og vel leikinn af öllum hlutaðeigandi. Hinu er hins vegar ekki að leyna að nokkur frumsýningarskrekkur virtist herja á Jón (og reyndar fleiri) og kom hann fram í textameðferð, tímasetningum og líkamsbeitingu.

Katla Margrét Þorgeirsdóttir og Þorsteinn Guðmundsson léku hjónin Didda og Lindu. Þorsteinn var trúverðugur í hlutverki hins síupptekna braskara en Katla Margrét var óumdeilanlega sá leikaranna sem stóð sig best. Hún var fullkomlega afslöppuð og örugg á sviðinu, þrátt fyrir að persónan væri taugaveikluð á stundum, og skapaði skemmtilega persónu. Einnig gerði hún vel í öðru smáhlutverki í lokin.

Ingibjörg Stefánsdóttir leikur nokkur smáhlutverk og var hún best í hlutverki Söru sem verður fyrsta "fórnarlambið" í röð vonlausra stefnumóta Alfreds. Jón Atli Jónasson var ábúðamikill undir hattbarðinu í hlutverki Bogarts og fór vel með textann.

Leikmynd Úlfs K. Grönvolds er í anda hreinræktaðs raunsæis og er það sjaldgjæft núorðið að sjá slíkar leikmyndir (ágætis tilbreyting!). Íbúð Alfreds er fremur ósmekklegur viðverustaður einhleyps karlmanns; stofa og eldhús, skrifborð með tölvu, sófi, græjur, vínskápur, plaköt með myndum úr Casablanca á veggjunum, bækur og tímarit. Innan um allt eru umbúðir af ruslfæði og eldhúsið á rúi og stúi. Allt rímar þetta vel við þá mynd sem verið er að draga upp af greyinu honum Alla og hans kreppta lífi.

Í heild er hér um bráðskemmtilegt verk að ræða og áhorfendur skemmtu sér ágætlega á frumsýningu. En eins og áður er getið var óvenjumikill frumsýningardraugur á ferðinni, og virtist hann jafnvel ætla að ná yfirhöndinni í síðasta hluta sýningarinnar. En það "reddaðist" og aðstandendur munu eflaust hlæja mikið að seinkuðum innkomum og horfnum atriðum í leiknum, þegar fram líða stundir.

Soffía Auður Birgisdóttir