Göran Persson, forsætisráðherra Svíþjóðar, og Davíð Oddsson, forsætisráðherra Íslands, við setningarathöfn ráðstefnu um helförina.
Göran Persson, forsætisráðherra Svíþjóðar, og Davíð Oddsson, forsætisráðherra Íslands, við setningarathöfn ráðstefnu um helförina.
GÖRAN Persson varaði við auknum vinsældum andlýðræðislegra samtaka á borð við nýnasista við setningu þriggja daga ráðstefnu um helförina gegn gyðingum, sem hófst í Stokkhólmi í gær.
GÖRAN Persson varaði við auknum vinsældum andlýðræðislegra samtaka á borð við nýnasista við setningu þriggja daga ráðstefnu um helförina gegn gyðingum, sem hófst í Stokkhólmi í gær.

Persson sagði menn siðferðilega ekki geta snúið baki við hörmungum síðari heimsstyrjaldarinnar. Helförin hefði ekki verið slys, því kerfisbundin morð á gyðingum, sígaunum og fötluðum hefðu aðeins viðgengist af því að fólk mótmælti ekki og tók þátt í framkvæmd morðanna. "Þau áttu sér ekki hvað síst stað vegna þess að fólk þagði," sagði Persson.

Viktor Klima kanslari Austurríkis situr ráðstefnuna, en stjórnarmyndunarviðræður Frelsisflokks Jörgs Haider og austuríska Þjóðarflokksins hafa víða vakið ugg og gaf Persson til kynna að ríkisstjórn Frelsisflokksins ætti ekki heima innan Evrópusambandsins.

Um 600 þátttakendur taka þátt í alþjóðaráðstefnunni um helförina. Meðal þeirra er fjöldi stjórnmálaleiðtoga, m.a. forsætisráðherra Ísraels, Ehud Barak, Gerhard Schröder, kanslari Þýskalands, og Davíð Oddsson, forsætisráðherra Íslands.