RÍFLEGA fimmtíu þúsund manns hafa séð kvikmyndina Engla alheimsins, en fjórar vikur eru nú frá frumsýningu hennar. Myndin hefur vermt toppsæti aðsóknarlista kvikmyndahúsanna fjórar vikur í röð.
RÍFLEGA fimmtíu þúsund manns hafa séð kvikmyndina Engla alheimsins, en fjórar vikur eru nú frá frumsýningu hennar. Myndin hefur vermt toppsæti aðsóknarlista kvikmyndahúsanna fjórar vikur í röð.

Friðrik Þór Friðriksson, sem leikstýrir kvikmyndinni eftir verðlaunasögu Einars Más Guðmundssonar, segist vera himinlifandi með viðtökurnar. "Annað er ekki hægt," segir hann. "Myndinni hefur verið gríðarlega vel tekið, það er nánast uppselt á hverju kvöldi og ekki annað hægt en að fyllast þakklæti yfir slíkum viðtökum."

Friðrik Þór segir að fyrirfram hafi hann ekki átt von á slíkum viðtökum. "Myndin er byggð á verðlaunasögu sem var sjálf geysivinsæl og er þeirrar gerðar að allir hafa á henni skoðun, ekki ósvipað Djöflaeyjunni á sínum tíma. Myndir eftir slíkum sögum eru jafnan óútreiknanlegar; erfitt er að sjá fyrir hvernig fólk tekur yfirfærslunni á hvíta tjaldið."

Alls sóttu um 85.000 manns Djöflaeyjuna í kvikmyndahúsum fyrir nokkrum árum og var það mesta aðsókn á íslenska kvikmynd um árabil. Friðrik Þór segir þó ekki unnt að slá því föstu sem meti, aðsókn á Stuðmannamyndina "Með allt á hreinu" hafi verið gríðarleg á sínum tíma, enda þótt miðasala hafi ekki verið tölvutengd eins og nú og tölur yfir heildaraðsókn því ekki jafn aðgengilegar.