ÁBURÐARVERKSMIÐJAN í Gufunesi hefur að undanförnu átt í samningaviðræðum við þýska fyrirtækið Hamburger Wasserstoff-Agentur um sölu vetnis til Þýskalands. Hér er um tilraunaverkefni að ræða sem þrettán fyrirtæki í Þýskalandi eiga aðild að.
ÁBURÐARVERKSMIÐJAN í Gufunesi hefur að undanförnu átt í samningaviðræðum við þýska fyrirtækið Hamburger Wasserstoff-Agentur um sölu vetnis til Þýskalands. Hér er um tilraunaverkefni að ræða sem þrettán fyrirtæki í Þýskalandi eiga aðild að.

Hugmyndin er sú að í fyrstu verði keypt nægjanlegt vetnismagn af Áburðarverksmiðjunni til að knýja áfram sex bifreiðir á vegum fyrirtækjanna.

Bjarni Kristjánsson, framkvæmdastjóri Áburðarverksmiðjunnar hf., segir Þjóðverjana hafa leitað til fyrirtækisins síðastliðið haust og að síðan þá hafi verið unnið að því að útfæra hugmyndir þeirra. Hjá Áburðarverksmiðjunni væru menn m.a. að reikna út hugsanlegt verð á vetninu en Þjóðverjarnir væru að athuga flutningskostnað og annað þess háttar.

Málið komið töluvert áleiðis

Bjarni sagði málið komið töluvert áleiðis þótt of snemmt væri að segja til um hvenær vetnisflutningar til Þýskalands gætu hafist. Sagði hann að ekki yrði um ýkja stóran samning fyrir Áburðarverksmiðjuna að ræða, a.m.k. ekki í upphafi, enda vetnismál stutt á veg komin og hér um tilraunaverkefni að ræða. Markmiðið væri hins vegar það, að auka sem mest notkun endurnýjanlegra orkugjafa og að vonast væri til að sú þekking, sem fengist með þessu verkefni, nýttist vel í framtíðinni í þeim efnum. Jafnframt stæðu vonir til þess að þetta verkefni leiddi til frekari viðskipta fyrir Áburðarverksmiðjuna gefi tilraunin góða raun.