Mikill öryggisviðbúnaður var í Stokkhólmi í gær þegar ráðstefnan um helförina var sett í borginni.
Mikill öryggisviðbúnaður var í Stokkhólmi í gær þegar ráðstefnan um helförina var sett í borginni.
DAVÍÐ Oddsson forsætisráðherra, norrænir starfsbræður hans og um fimmtán aðrir þjóðarleiðtogar voru í gær viðstaddir setningu ráðstefnu sænsku stjórnarinnar um helförina. Ráðstefnan er sprottin af átaki stjórnarinnar til að minnast helfararinnar.
DAVÍÐ Oddsson forsætisráðherra, norrænir starfsbræður hans og um fimmtán aðrir þjóðarleiðtogar voru í gær viðstaddir setningu ráðstefnu sænsku stjórnarinnar um helförina. Ráðstefnan er sprottin af átaki stjórnarinnar til að minnast helfararinnar.

Hvorki Bill Clinton Bandaríkjaforseti né Tony Blair, forsætisráðherra Breta, mæta, en meðal gesta eru Ehud Barak, forsætisráðherra Ísraels, Massimo D'Alema, forsætisráðherra Ítalíu, Lionel Jospin, forsætisráðherra Frakklands, Gerhard Schröder, kanslari Þýskalands, og Vaclav Havel, forseti Tékklands.

Mikill viðbúnaður er í Stokkhólmi vegna ráðstefnunnar, þar sem koma saman fulltrúar frá 47 löndum, bæði stjórnmálamenn, embættismenn, fulltrúar félagasamtaka og fræðimenn, alls um 600 manns. Í sendinefndum flestra landanna eru einnig fulltrúar gyðinga í viðkomandi löndum. Um 800 blaðamenn eru skráðir á ráðstefnuna.

Auk 4.000 lögreglumanna, sem gæta gestanna, hafa sænsk yfirvöld í fyrsta skiptið leyft erlendum lögreglumönnum að athafna sig á sænskri grund. Undanþágan var veitt, þar sem ýmsar sendinefndir, meðal annars sú ísraelska setti það sem skilyrði að eigin lífverðir kæmu með. Það eru því vopnaðir, erlendir lögreglumenn á götum Stokkhólms þá þrjá daga, sem ráðstefnan stendur. Henni lýkur á föstudag.

Sögulegur sess Perssons "dýrðlegur"

"Ég veit ekki hvern sess þú munt skipa í sænskri sögu, en ég vona að hann verði veglegur. En ég get sagt þér forsætisráðherra að þinn sess í sögu gyðinga verður dýrðlegur," sagði Elie Wiesel, þegar hann ávarpaði Göran Persson, forsætisráðherra Svía, og aðra gesti á þriðjudagskvöldið á aðfarasamkomu ráðstefnunnar í sýnagógunni, samkunduhúsi gyðinga, í Stokkhólmi. Persson er almennt þökkuð ráðstefnan, ekki aðeins vegna þess að hann er húsbóndinn, heldur af því hann hefur unnið markvisst að því að helförin og lærdómur hennar gleymdist ekki.

Það var þó ekki aðeins fjallað um sögulegt efni í upphafi ráðstefnunnar. Michael Melchior, ráðherra frá Ísrael, gerði framgang Jörg Haiders í Austurríki að umræðuefni nú þegar horfir í að flokkur Haiders setjist í ríkisstjórn. "Þessi maður og kenningar hans eru móðgun við mannlega siðferðistilfinningu," sagði Melchior skjálfandi röddu.

Á blaðamannafundi Göran Perssons og Barak í gærmorgun spurði fréttamaður ísraelska sjónvarpsins Persson hvað hann hygðist segja er hann hitti Viktor Klima, kanslara Austurríkis, einn gestanna á ráðstefnunni. Persson sagði að enn væri óljóst hvernig færi með stjórnarmyndunina í Austurríki, en stefnuskrá flokks Haider væri vissulega ekki í samræmi við stefnumið Evrópusambandsins um umburðarlyndi og mannréttindi. Ábyrgð austurríska Íhaldsflokksins, sem hugleiðir stjórnarsamstarf við Haider, væri mikil. Á blaðamannafundi forsætisráðherranna tveggja sagðist Barak bjartsýnn á yfirstandandi friðarviðræður, bæði við Sýrlendinga og Palestínumenn.

Í ávarpi Edgar Bronfmans, formanns Alþjóðasambands gyðinga, hnykkti hann á að ekki ætti aðeins að muna helförina, heldur beina kröftunum að því að hindra atburði eins og í Rúanda, Bosníu og Kambódíu. Auk fundarhalda eru haldnar ýmsar sýningar tengdar helförinni, meðal annars minningarsýning um Raoul Wallenberg, starfsmann sænsku utanríkisþjónustunnar, sem bjargaði fjölda gyðinga frá útrýmingarbúðum Þjóðverja áður en hann var handtekinn af Rússum. Örlög hans hafa aldrei verið fullskýrð.

Athyglin beinist að samstarfi Svía og Þjóðverja

Ráðstefnan og aðdragandi hennar hefur ekki aðeins rifjað upp helförina, heldur vakið upp miklar umræður í Svíþjóð um tengsl Svía og Þjóðverja í seinni heimstyrjöldinni. Fyrr í þessum mánuði sýndi sænska sjónvarpið heimildamynd um Svía, sem störfuðu fyrir þýska herinn á stríðsárunum. Meðal annars var rætt við aldraðan Svía, sem sagði frá starfi sínu sem fangelsisvörður í Treblinka-útrýmingarbúðunum, þar sem um 900 þúsund gyðingar voru myrtir.

Í þættinum sagði gamli maðurinn að hann hefði aðeins átt að sjá til þess að fangarnir strykju ekki og lægju ekki aðgerðarlausir. Myndin vakti mikla athygli, því eftir stríðið var enginn gaumur gefinn að því í Svíþjóð að töluverður hópur Svía hefði starfað fyrir Þjóðverja. Svíar huguðu ekki að því eftir stríð hvort einhverjir sænskir þegnar hefðu gerst sekir um stríðsglæpi og engin slík réttarhöld voru haldin þar.

Í kjölfar þessa þáttar hefur Persson heitið því að sænskum lögum verði breytt, svo hægt verði að stefna mönnum fyrir stríðsglæpi í síðari heimstyrjöldinni. Í ávarpi sínu í sýnagógunni sagði Persson að ráðstefnan gæfi Svíum einnig tilefni til að rifja upp sína sögu, en hann hefur hingað til ekki fjölyrt um þau efni.

Það hefur einmitt farið fyrir brjóstið á mörgum Svíum hve mjög Persson hefur lagt áherslu á hetjur eins og Wallenberg í umræðum um sænska helfararátakið. Í leiðara í Expressen nýlega sagði að þegar Persson ávarpaði ráðstefnuna ætti hann ekki aðeins að gera sér tíðrætt um sænsku hetjurnar, heldur rifja upp að sænska stjórnin fór fram á það við þýsku stjórnina að hún stimplaði G fyrir gyðinga í vegabréf þeirra og þagði svo lengi þunnu hljóði um helförina.

Í ljósi þessa hafa margir Svíar spurt undanfarið af hverju sænska stjórnin hafi allt í einu nú svo mikinn áhuga á helförinni og sögu Svía á stríðsárunum.