[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
BJÖRN Bjarnason menntamálaráðherra ræður á vefsíðu sinni um umfjöllun fjölmiða um hin ýmsu mál og segir að sé maður kunnugur einhverju umfjöllunarefni, sjái menn umfjöllunina í allt öðru ljósi. Spurning vaknar því um hve alvarlega eigi að taka umfjöllun fjölmiðla um erlenda atburði.
BJÖRN segir: "Sjónvarpsstöðvar hér á landi sýndu á dögunum kafla úr þætti, sem franska einkastöðin Canal+ lét gera um Íslenska erfðagreiningu og átti meðal annars að sýna, að um fjárhagsleg tengsl fyrirtækisins og stjórnmálaflokka hefði verið að ræða. Nú hef ég ekki séð þennan þátt fyrir utan brotin, sem hér voru sýnd. Er mér sagt, að rætt hafi verið tvo Íslendinga í mynd í þættinum, þau Valdimar Jóhannesson, sem hefur verið í heilögu stríði við stjórnvöld vegna kvótamálanna og gekk í flokk með Sverri Hermannssyni, og Birnu Þórðardóttur, sem er kunnust fyrir framgöngu sína gegn NATO og varnarsamningnum við Bandaríkin. Þá var birt felumynd af manni, sem sagður var sitja á Alþingi, og sagði hann, að Íslensk erfðagreining hefði veitt íslenskum stjórnmálaflokkum fjárstuðning. Hins vegar létu sjónvarpsmennirnir til dæmis hjá líða að hafa nokkuð eftir Tómasi Inga Olrich alþingismanni, áttu þeir þó langt samtal við hann."

Traust á fjölmiðlum

OG ÁFRAM segir: "Traust á erlendum fjölmiðlum minnkar oft, þegar þeir taka sér fyrir hendur að fjalla um mál, sem maður þekkir af eigin raun. Er sérkennilegt, hve þeir leyfa sér að fara frjálslega með mál eða leggja út af þeim á skrýtinn hátt. Hins vegar hefur ekki skapast hér á landi í sjónvarpi sama hefð og víða annars staðar fyrir góðum og upplýsandi samtalsþáttum, þar sem þaulreyndir spyrjendur leiða fram þekkingu viðmælenda sinna, skoðanir þeirra eða lífsreynslu á skemmtilegan og fræðandi hátt. Á Breiðbandinu er nú unnt að fylgjast með BBC World, sem er alþjóðleg fréttasjónvarpsstöð BBC, keppinautur CNN og Sky News. Þar er gamalreyndur fréttamaður BBC World Service, Tim Sebastian, með viðtalsþáttinn Hardtalk, er hann meðal annars sýndur á kvöldin klukkan 19.30, þegar Kastljós og Stöð 2 keppa um athygli manns. Hef ég staðið mig að því að festast frekar við BBC World en íslensku stöðvarnar á þessum tíma." "Ýmsir þeir, sem eru að kvarta undan því, hvernig fjölmiðlamenn ganga að okkur stjórnmálamönnum, eru í raun fulltrúar sjónarmiða, sem hafa orðið undir í pólitískum umræðum og telja, að þeirra málstaður hefði sigrað, ef meira hefði verið saumað að málsvörum þeirra sjónarmiða, sem meirihluti á Alþingi eða annars staðar aðhyllist."