Leikstjóri: Roger Michell. Handrit: Anne Devlin, byggt á skáldsögu Mary Costello. Kvikmyndataka: John Daily. Tónlist: Trevor Jones. Aðalhlutverk: Julie Walters, Ciaran Hinds, Nuala O´Neill, Ciaran McMenamin. (98 mín.) England. Háskólabíó, 1999. Bönnuð börnum yngri en 12 ára.
Í ÞESSARI bresk/írsku mynd er sögð saga fjölskyldu sem flyst árið 1972 í hið kaþólska Andersontown-hverfi Belfastborgar, þar sem skærur milli írska lýðveldishersins og breska hersetuliðsins eru daglegt brauð. Fjölskyldan þráir ekkert heitara en að fá að lifa í friði en foreldrarnir eru ósammála um hvernig hann skal öðlast. Húsbóndinn vill engin afskipti hafa af átökunum, forða fjölskyldunni frá því að verða skotmark en eiginkonan er á öðru máli. Henni er ómögulegt að sitja aðgerðalaus á meðan skothríðin dynur yfir börnum þeirra og það sé einungis spursmál um hvenær þau verða í vegi fyrir henni.

Áhugavert sögusvið sem höfundar hafa ákveðið að nálgast á gráglettinn máta, sem er vel til fundið. Fáránleiki þessara langvinnu átaka er dreginn skýrum dráttum og er kaldhæðnin aldrei langt undan. Þrátt fyrir að greina megi á stöku stað klisjur eða "blarney" líkt og Írar sjálfir myndu kallað það er heildarsvipur myndarinnar sannfærandi og áhrifaríkur. Fáum orðum þarf að fara um vönduð og næm tilþrif leikara en geta verður aldeilis frábærrar tónlistar í myndinni, jafnt hinnar frumsömdu eftir Trevor Jones sem og eldri laga eftir hinn sjaldheyrða snilling John Martyn. Lágstemmdir og seiðandi gítartónarnir endurspegla ekki einungis tímasetningu sögunnar heldur undirstrika ennfremur á sérlega hrífandi máta einlæga friðarþrá fjölskyldunnar.

Skarphéðinn Guðmundsson