ER ÞAÐ hlutverk hins opinbera að gæta þess sem er siðferðilega rétt með öllum tiltækum ráðum? Þessar spurningar hafa vaknað í Danmörku eftir að Frank Jensen dómsmálaráðherra kynnti nýtt frumvarp um breytingar á barnalögum.
ER ÞAÐ hlutverk hins opinbera að gæta þess sem er siðferðilega rétt með öllum tiltækum ráðum? Þessar spurningar hafa vaknað í Danmörku eftir að Frank Jensen dómsmálaráðherra kynnti nýtt frumvarp um breytingar á barnalögum.

Inntakið er að mæðrum sé skylt að upplýsa faðerni barna sinna. Viti þær ekki hver faðirinn sé eigi þær að afhenda yfirvöldum lista yfir rekkjufélaga sína um það leyti sem getnaður hafi átt sér stað, svo yfirvöld geti haft samband við mennina, krafið þá um DNA-próf og gert út um faðerni barnsins.

Neiti mæðurnar að upplýsa faðernið eða gefa þessar upplýsingar er ýtrasta afleiðing laganna að hægt sé að stefna mæðrunum og dæma þær í fangelsi. Sama gildir um karla, sem neita að taka þátt í faðernisprófi.

Hugmyndin á bak við frumvarpið er að það sé skýlaus réttur barna að vita faðerni sitt. Þarna takast á sjónarmið um réttindi barna annars vegar og hins vegar hvort það sé í verkahring hins opinbera að vernda þessi réttindi.

Árlega fæðast um 3.500 dönsk börn utan hjónabands. Í um einu prósenti þeirra tilfella gefa mæður ekki upp faðerni. Málið snýst því í raun um aðeins 35 börn, en af hálfu dómsmálaráðherra er lögð áhersla á, að hér sé um grundvallaratriði að ræða.

Opinber gæsla getur ekki komið í stað siðferðisvitundar

"Mér svelgdist fyrst á morgunkaffinu og rak svo upp skellihlátur," sagði Peter Kemp prófessor í heimspeki er hann var spurður álits á lagafrumvarpinu í hádegisfréttum danska útvarpsins. Hann benti á að það væri óðs manns æði af hinu opinbera að ætla að fara að elta konur á röndum til að krefja þær um svo persónulegar upplýsingar. Hugmyndin um að geta síðan gripið til refsinga gegn konum sem ekki vildu gefa þessar upplýsingar væri einfaldlega brjálæði.

Kemp benti á að það væri vissulega siðferðilega rétt að upplýsa börn um faðerni þeirra, en hér mætti ekki blanda saman því sem væri siðferðilega rétt og svo vöktun og gæslu hins opinbera. Hið opinbera gæti ekki tekið á sig ábyrgð á að framfylgja öllu, sem væri siðferðilega rétt og grípa til refsinga ef brugðið væri út af. Heimspekingurinn benti einnig á að það fælist tvöfeldni í því að nafnleynd sæðisgjafa sé lögvernduð, en ætla svo að krefja einstæðar mæður náttúrulega getinna barna um að upplýsa faðerni barna sinna.

Réttindi tryggð eða aðför gegn einstæðum mæðrum?

Í röðum þingmanna, sem danskir fjölmiðlar höfðu samband við, gætti ýmissa sjónarmiða með og á móti frumvarpinu. Ýmsum þótti að hér væri stigið mikilvægt skref í átt að jafnrétti foreldra, þar sem feður hefðu skýlausan rétt á að vita af föðurhlutverki sínu.

Einna harðorðust um nauðsyn á þessu lagafrumvarpi var Pernille Sams þingkona Íhaldsflokksins, sem sagði að konur gætu þá bara látið vera að sofa hjá ef þær vildu ekki segja frá því. Í samtali við Berlingske Tidende sagði Anne Baastrup þingkona Sósíalíska þjóðarflokksins hins vegar, að frumvarpið væri aðför að einstæðum mæðrum.