DANSKA fyrirtækið Høygaard og Schults og Miðvangur ehf. áttu lægsta tilboðið eða 86% af kostnaðaráætlun í fyrsta áfanga stækkunar á Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Íslenskir aðalverktakar hf.
DANSKA fyrirtækið Høygaard og Schults og Miðvangur ehf. áttu lægsta tilboðið eða 86% af kostnaðaráætlun í fyrsta áfanga stækkunar á Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Íslenskir aðalverktakar hf. áttu lægsta tilboð í flughlöð við bygginguna eða 75% af kostnaðaráætlun.

Áætlaður kostnaður við fyrsta áfanga, uppbyggingu og frágang utanhúss, er rúmur 1,1 milljarður og kostnaður við flughlöð 113,4 milljónir króna. Byggingin verður á tveimur hæðum, um 6.900 fermetrar að stærð. Gert er ráð fyrir að þessum verkþætti verði lokið í desember nk.

Að sögn Ómars Ingvarssonar aðstoðarflugvallarstjóra hefur flugvélastæðum þegar verið fjölgað við flugstöðina vegna stækkunarinnar og verða þau tekin í notkun í vetur. Stæðin liggja meðfram byggingarsvæðinu við suður- og austurenda núverandi landgangs. "Það er í raun búið að steypa upp flugvélastæðin ásamt olíudreifingarkerfinu," sagði hann.

Tíu stæði eru við flugstöðina þar af fjögur án beinnar landgöngu og er farþegum ekið í sérstökum rútum, sem teknar voru í notkun í nóvember sl. frá flugstöðinni að vélunum. "Yfirleitt eru það minni vélarnar sem eru úti á vellinum en þær stærri leggja að flugstöðinni," sagði hann.