BANKAR og stærri verðbréfafyrirtæki hafa sett sér verklagsreglur, sem byggjast á lögum um verðbréfaviðskipti frá árinu 1996. Vera má, að verklagsreglurnar séu ekki nákvæmlega eins hjá fyrirtækjunum en ætla verður að mikið samræmi sé þar á milli m.a.
BANKAR og stærri verðbréfafyrirtæki hafa sett sér verklagsreglur, sem byggjast á lögum um verðbréfaviðskipti frá árinu 1996. Vera má, að verklagsreglurnar séu ekki nákvæmlega eins hjá fyrirtækjunum en ætla verður að mikið samræmi sé þar á milli m.a. vegna þess, að þáverandi bankaeftirlit yfirfór reglurnar hjá hverju þeirra fyrir sig.

Í 7. gr. verklagsreglna Búnaðarbanka Íslands hf. segir svo: "Starfsmönnum bankans er óheimilt að eiga viðskipti með önnur verðbréf en þau, sem skráð eru á opinberum verðbréfamarkaði eða ganga kaupum og sölum á öðrum skipulegum markaði, sem starfar reglulega og er opinn almenningi."

Í svari við fyrirspurn frá Morgunblaðinu upplýsti Stefán Pálsson, bankastjóri Búnaðarbankans, hér í blaðinu sl. laugardag, að nokkur hópur starfsmanna bankans hefði keypt á síðasta ári hlutabréf í móðurfélagi Íslenzkrar erfðagreiningar og fengið til þess undanþágu frá ofangreindum reglum.

Stefán Pálsson rökstuddi undanþágurnar með því, að ríkið sjálft hefði veitt starfsmönnum Búnaðarbanka og Landsbanka heimild til þess að eignast hluti í bönkunum í lokuðu útboði áður en bankarnir tveir höfðu verið skráðir á Verðbréfaþing.

Jafnframt kom fram, að ekki var um að ræða boð um undanþágur til allra starfsmanna bankans heldur var undanþága veitt þeim starfsmönnum, sem höfðu frumkvæði um að leita eftir því.

Í framhaldi af svörum bankastjóra Búnaðarbanka Íslands beindi Morgunblaðið sömu spurningu til annarra banka. Halldór J. Kristjánsson, bankastjóri Landsbanka Íslands, upplýsti að í einu tilviki, snemma á síðasta ári hefði starfsmönnum Landsbréfa verið veitt "afmörkuð undanþága gegn mjög stífum skilyrðum um langtímaeignarhald á viðkomandi bréfum".

Bjarni Ármannsson, forstjóri FBA, sagði í samtali við Morgunblaðið, að fyrirtækið hefði ekki veitt slíkar undanþágur nema í örfáum tilvikum, þar sem starfsmönnum hefði verið leyft að kaupa hluti í íþróttafélögum fyrir litlar fjárhæðir. Hann sagði jafnframt: "Við teljum okkur hreinlega ekki í stakk búin til þess, þar sem verklagsreglurnar eru staðfestar af Fjármálaeftirlitinu og sú stofnun hefur ekki staðfest neinar undanþáguheimildir frá þeim."

Í Morgunblaðinu í gær er upplýst, að Íslandsbanki hafi veitt undanþágur frá þessari reglu. Í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að hvorki Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis né Sparisjóður Hafnarfjarðar hafi sett verklagsreglur og þar af leiðandi hafa starfsmenn þeirra ekki þurft að leita eftir undanþágum. Hins vegar séu stífar verklagsreglur hjá Kaupþingi og ekki vitað til þess, að undanþágur hafi verið veittar frá þeim.

Í september sl. leitaði FBA eftir samþykki Fjármálaeftirlitsins við því að verklagsreglum bankans yrði breytt og starfsmenn gætu stundað viðskipti með óskráð bréf. Þeirri ósk var hafnað. Hins vegar virðist Fjármálaeftirlitið ekki hafa gert athugasemdir við undanþágur, sem aðrir bankar hafa veitt án þess að leita samþykkis þess. Þessi mismunun gagnvart einstökum fjármálafyrirtækjum vekur óneitanlega athygli.

Af þessu má ljóst vera, að fjármálafyrirtækin standa með mjög mismunandi hætti að þessum málum. Og augljóslega er mikill munur á því, hvort starfsmenn fá, væntanlega af tilfinningaástæðum, heimild til að kaupa hlutabréf í íþróttafélögum, þar sem hagnaðarvon sýnist vera mjög takmörkuð ef nokkur, eða hvort um er að ræða viðskipti með hlutabréf í fyrirtæki á borð við Íslenzka erfðagreiningu.

Þeir sem haft hafa aðstöðu til að kaupa hlutabréf í því fyrirtæki hafa augljóslega hagnast verulega og í sumum tilvikum um háar fjárhæðir.

Augljóst er, að óheppilega hefur verið staðið að þessum málum. Það er mikilvægt að reglurnar, sem settar eru séu skýrar og að þeim sé fylgt. Undanþágur vekja tortryggni. En jafnframt er þýðingarmikið, að reglurnar séu raunsæjar þannig að þær bjóði ekki heim tilraun til misnotkunar eða að fram hjá þeim sé farið.

Bersýnilegt er, að þessum umræðum er ekki lokið. Fyrir Alþingi liggur frumvarp, sem ætlað er að styrkja stöðu Fjármálaeftirlitsins. Ætla má, að Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra verði beðin um að gefa þinginu ítarlega skýrslu um þessi viðskipti. Jafnframt er ljóst, að fyrirtækin sjálf vinna að endurskoðun þessara reglna. Þar þarf að vera fullt samræmi á milli þannig að starfsmönnum innan einstakra fyrirtækja finnist ekki að þeim sé mismunað eða að mismunur sé á milli fjármálafyrirtækja, þannig að starfsmönnum finnist ekki að starfsfélagar þeirra í öðru fyrirtæki njóti forréttinda umfram þá. Í þessum efnum þarf að ríkja jafnræði, sem jafnframt stuðlar að trausti út á við.