Önnur útskorna hurðin á Landakirkju.
Önnur útskorna hurðin á Landakirkju.
Vestmannaeyjum - Við hátíðarmessu í Landakirkju á sunnudaginn voru vígðar nýjar hurðir á kirkjuna. Hurðirnar eru gefnar af Kvenfélagi Landakirkju en Sigurður Sigurðsson skar út í tré myndir á hurðirnar og gaf kirkjunni verk sín.
Vestmannaeyjum - Við hátíðarmessu í Landakirkju á sunnudaginn voru vígðar nýjar hurðir á kirkjuna. Hurðirnar eru gefnar af Kvenfélagi Landakirkju en Sigurður Sigurðsson skar út í tré myndir á hurðirnar og gaf kirkjunni verk sín. Séra Kristján Björnsson sóknarprestur sagði í stólræðu sinni sögu myndanna sem prýða hurðirnar og blessaði síðan hurðirnar og þá sem um þær fara.

Í samtali við Morgunblaðið sagði Séra Kristján að Kvenfélagið hefði aflað fjár til hurðakaupanna með vorsöfnun sinni á síðasta vori hjá einstaklingum og fyrirtækjum. Hann sagði að Tréverk í Eyjum hefði verið fengið til að smíða hurðirnar, sem eru gegnheilar eikarhurðir, en leitað hafi verið til Sigurðar til að fá hann til að skera út myndir í hurðirnar. Sigurður hafi tekið verkið að sér og síðan ákveðið að gefa vinnu sína við það til minningar um föðurafa sinn og -ömmu, Séra Oddgeir og Önnu Guðmundsen, en Séra Oddgeir var prestur á Ofanleiti í Eyjum í yfir þrjátíu ár.

Sex tréskurðarmyndir Sigurðar prýða hurðirnar, þrjár fulningar á hvorri hurð, og er myndefnið sótt í stórbrotna kirkjusögu Eyjanna og guðspjöllin. Séra Kristján sagði að tveimur myndum sem nú væru á hurðunum yrði skipt út fyrir aðrar sem Sigurður er með í útskurði og ætlunin væri að þær myndu eftir það prýða veggi kirkjunnar.

Hann sagði að hurðirnar væru miklir kjörgripir sem án efa yrðu meðal ómetanlegra hluta Landakirkju í framtíðinni. Kristján sagði ekki vanþörf á góðum hurðum í Landakirkju því kirkjusókn væri góð og margir færu því um þessar hurðir og nefndi því til stuðnings að á síðasta ári hefðu 20.000 manns verið skráðir þátttakendur í helgihaldi í kirkjunni.

Messan í Landakirkju á sunnudaginn varð enn tilkomumeiri og hátíðlegri fyrir þær sakir að kóramót kirkjukóra Kjalarnesprófastsdæmis var haldið í Eyjum um helgina. Þar voru kórarnir að æfa dagskrá vegna fimm kristnitökuhátíða sem haldnar verða í prófastsdæminu á árinu, en fyrsta hátíðin verður í Garðabæ um næstu helgi. 130 manna kór söng því við messuna og sagði Séra Kristján að söngur þessa stóra kórs hefði gert stundina enn hátíðlegri og tilkomumeiri.

Að lokinni messunni bauð Kvenfélag Landakirkju upp á kaffi og hurðartertu, en tertan, sem gerð var af Arnóri bakara, var í líki hurðar Landakirkju. Sagði séra Kristján að tertan hefði verið falleg eins og hurðirnar en líka afar bragðgóð.