Brennivín frýs við -24°C Fyrirspurn barst varðandi íslenskt brennivín sem sett hafði verið í frystikistu þar sem bera átti drykkinn fram kaldan.

Brennivín frýs við -24°C

Fyrirspurn barst varðandi íslenskt brennivín sem sett hafði verið í frystikistu þar sem bera átti drykkinn fram kaldan. Vínið hafði hins vegar frosið og vildi viðkomandi fá skýringar á því hvers vegna það hefði gerst, því áfengi sem inniheldur 40% vínanda á ekki að frjósa við það hitastig sem venjulega er í heimilisfrystikistum.

Svar : "Brennivín inniheldur 40% vínanda sem gerir það að verkum að það frýs ekki fyrr en við -24°C," segir Jón Snorri Snorrason, framkvæmdastjóri Ölgerðarinnar Egils Skallagrímssonar, sem framleiðir Íslenskt brennivín. "Í þessu einstaka dæmi kemur fátt annað til greina en að frystikistan hafi einfaldlega verið stillt á mestu kælingu, en venjulegar heimiliskistur geta kælt allt niður í -26°C þrátt fyrir að mælt sé með því að hitastigið sé á bilinu -18--20°C. Það hefði auðveldað útskýringar ef hitastig í viðkomandi frystikistu hefði verið mælt, en fólk þarf alltaf að fylgjast með hitastigi í kistunum. Brennivín þykknar venjulega í frysti við -18°C en útilokað er að það frjósi við það hitastig."

Ferskir kjúklingar skemmast fljótt ef gat kemur á umbúðir

Ferskur kjúklingur var í vikunni keyptur á síðasta söludegi í Bónus í Hafnarfirði og reyndist hann úldinn þegar heim var komið. Kjúklingnum var skilað og fengin inneignarnóta. Kemur það oft fyrir að ferskir kjúklingar úldni innan leyfilegs sölutíma og hver er skýringin á því að sölutíminn er þá ekki styttur?

Svar : "Það kemur ekki oft fyrir að ferskir kjúklingar skemmist," segir Róbert Skúlason, verslunarstjóri í Bónus í Hafnarfirði. "Ferskum kjúklingum er pakkað í lofttæmdar umbúðir en ef gat kemur á þær og loft kemst að kjúklingnum, getur hann skemmst á skömmum tíma. Ég geri ráð fyrir að það hafi gerst í þessu tilfelli. Ferskir kjúklingar á síðasta söludegi eru fullkomlega góð vara.

Við erum með manneskju í starfi við að hafa eftirlit með kælivörunum sem fer því reglulega yfir kjötið. Skemmd vara á að sjálfsögðu ekki að vera í sölu heldur á að fjarlægja hana."