Í MORGUN, 12. janúar, var ég að lesa Morgunblaðið er ég rek augun í grein frá Þóru þar sem hún tjáir sínar skoðanir á íslenskum unglingum og þeirra ökuháttum. Já, það má vel vera að 26% bílslysa verði hjá 17 til 20 ára ungmennum.
Í MORGUN, 12. janúar, var ég að lesa Morgunblaðið er ég rek augun í grein frá Þóru þar sem hún tjáir sínar skoðanir á íslenskum unglingum og þeirra ökuháttum.

Já, það má vel vera að 26% bílslysa verði hjá 17 til 20 ára ungmennum. Er ekki fullhart að dæma þar með alla unglinga? Af einni skoðanakönnun finnst Þóru að ungmenni eigi ekki að taka bílpróf undir 20 ára aldri. Ég játa það að það eru ekki öll 17 ára ungmenni tilbúin að keyra bíl, en þar með er ég að segja að margir eru tilbúnir. Það er ekki hægt að binda þroska við einhvern ákveðinn aldur, heldur er hann einstaklingsbundinn. Það er rangt að halda að ungmenni kunni ekki að keyra bíl og hafi einstaka ánægju af að setja sjálfa sig og aðra í hættu. Auðvitað eru einstaka tilfelli. Gætið að hverjir eru fyrirmyndin. Að keyra bíl er mikil ábyrgð og mér finnst það einungis vera í höndum þess sem er að keyra hvort hann sé tilbúinn til að takast á við það. Það er foreldranna að setja gott fordæmi og vara við hættunni sem fylgir því að keyra bíl.

Þóra spyr hvort við þurfum alla þessa bíla og hvort við ættum ekki að hreyfa okkur meira. Þóra, ég er 18 ára og hefði því átt að fá bílprófið mitt fyrir rúmu ári. Ég kaus heldur að nota almenningsvagna, því mér liggur ekkert á að "leika mér" að keyra og bíða eftir þínu dramatísku "leikslokum". Mér er stundum skutlað þangað sem ég þarf nauðsynlega að fara, en mér finnst það ekki ýta undir hreyfingarleysi. Ef þér líður illa með að skutla börnunum þínum eitthvað, hættu því þá! Ef þú hefur áhyggjur af því að börn þín fitni, settu þá takmörk fyrir sjónvarps- og tölvunotkun! Þetta er ekki vandamál íslenskra ungmenna, heldur einhverra sem einungis þú sérð.

Mér leikur forvitni á að vita hvar þú fékkst þær upplýsingar að íslensk börn væru orðin feitari en börn í Bandaríkjunum (Ameríka er heimsálfa). Þú tengir þá skoðun við hreyfingarleysi, þegar ég er viss um að skoðunin er mynduð án þess að hugsa út í þá sem geta ekkert gert að sinni líkamsstarfssemi. Við erum öll mismunandi. Þessi skoðanakönnun er fyrir þá sem eru trúgjarnir í stað þess að líta í kring um sig. Ég sé hreyfingarleysi alls ekki sem vandamál hér á landi, enda skiptir hvernig fólk er í laginu fólk ekki máli ef því finnst það ekki skipta máli, ekki satt? "Bílar og símar, þetta á ekki saman," þetta eru þín orð. Að tala í símann þegar verið er að keyra, skerðir einbeitningu. Þetta vita allir.

Þeir sem kjósa að tala í símann á meðan þeir keyra, vita að skert einbeitning getur haft slæmar afleiðingar í för með sér. Það sem ökumenn vita einnig, er að nú er boðið upp á þjónustu til að draga úr þessu að hluta til. Handfrjáls búnaður. Slíkur búnaður gerir fólki kleift að tala í símann sinn að vild með báðar hendur á stýri. Þeir sem kjósa að nýta sér ekki þessa þjónustu taka þá bara afleiðungunum.

Hvor okkar er fyrirmynd minnar kynslóðar?

GUÐNÝ SIGRÍÐUR

BJARNADÓTTIR,

Hnjúkaseli 4, Reykjavík.

Frá Guðnýju Sigríði Bjarnadóttur: