Á SÍÐASTA ári afgreiddi Útflutningsráð með formlegum hætti rétt tæpar 1.000 fyrirspurnir tengdar sjávarútvegi, þar af voru rúmlega 400 tilkomnar í gegnum NAS-verkefnið.
Á SÍÐASTA ári afgreiddi Útflutningsráð með formlegum hætti rétt tæpar 1.000 fyrirspurnir tengdar sjávarútvegi, þar af voru rúmlega 400 tilkomnar í gegnum NAS-verkefnið. Eru þá eru ótaldar fyrirspurnir sem fara beint til viðkomandi fyrirtækja sem þátt taka í verkefninu. Erlendar fyrirspurnir voru um helmingur eða 500. Í flestum tilvikum voru hinir erlendu aðilar að leita eftir upplýsingum og tengslum við íslenska fiskseljendur, véla- og tækjaframleiðendur fyrir fiskvinnslu og framleiðendur fiskibáta. Einnig var töluverður fjöldi fyrirspurna sem vörðuðu sjávarútveg á Íslandi almennt, s.s. um kvótakerfið, aflatölur, eignarhald erlendra aðila og fleira.

Íslensku fyrirspurnirnar beindust oftast að öflun upplýsinga og tengsla við einstök erlend fyrirtæki og markaði.

NAS-mappan, sem ásamt NAS-vefnum (www.nas.is) er helsta kynningargagn Útflutningsráðs á íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum, var í síðustu viku send til 140 erlenda sjávarútvegsfyrirtækja sem flest eru starfandi í Noregi, Færeyjum, Rússlandi og á Bretlandseyjum. Þau íslensku fyrirtæki sem þátt taka í NAS-verkefninu og áhuga hafa á að fá lista yfir viðkomandi erlendan markhóp geta sett sig í samband við Útflutningsráð.

Framundan er svo frekari dreifing og kynning á sjávarútvegssýningunum "Fishing 2000" í Glasgow og "Boston Seafood" í Boston.

Flestar heimsóknir frá Bandaríkjunum

Notkun erlendra aðila á NAS-vefnum er stöðugt að aukast og er greinilegt að vefurinn er orðinn fastur viðkomustaður margra erlendra aðila sem þurfa að leita upplýsinga um fyrirtæki og sjávarútveg á Íslandi. Flestar heimsóknir til NAS-vefjarins á árinu 1999 komu frá Bandaríkjunum, næst í röðinni voru Bretland, Kanada, Þýskaland, Noregur, Færeyjar, Svíþjóð, Grænland og Danmörk. Minni umferð, en þó nokkur, var frá t.d. Hollandi, Japan, Rússlandi, Finnlandi, Kína, Malasíu o.fl.