BOEING-flugvélaframleiðandinn í Seattle í Bandaríkjunum hefur lýst áhyggjum yfir töfum sem hafa orðið á því að bandarísk stjórnvöld setji evrópskum stjórnvöldum stólinn fyrir dyrnar vegna ódýrra lánveitinga þeirra til Airbus...
BOEING-flugvélaframleiðandinn í Seattle í Bandaríkjunum hefur lýst áhyggjum yfir töfum sem hafa orðið á því að bandarísk stjórnvöld setji evrópskum stjórnvöldum stólinn fyrir dyrnar vegna ódýrra lánveitinga þeirra til Airbus Industrie-flugvélaframleiðandans, sem þau telja að stangist á við gott viðskiptasiðferði.

Kvartanir Boeing eru vegna áhyggna fyrirtækisins að evrópsk stjórnvöld séu að undirbúa um 250 milljarða króna lán á lágum vöxtum til Airbus, til að auðvelda fyrirtækinu þróun hinnar nýju 650 sæta A-3XX breiðþotu. Ef Airbus lætur verða af áætlunum um smíði þotunnar kynni hún að keppa við 747 júmbóþotu Boeing-fyrirtækisins, segir í The Wall Street Journal.

Airbus verður einkafyrirtæki

Airbus er einnig að undirbúa að verða breytt í einkafyrirtæki, og eru stjórnendur Boeing áhyggjufullir yfir því að evrópskar ríkisstjórnir kunni að strika út gömul lán til að hjálpa fyrirtækinu á þeim tímamótum.

Bandarísk stjórnvöld tóku málið upp við evrópsk stjórnvöld seint á árinu 1998, og gáfu í skyn að þau kynnu að taka það upp að nýju seint á árinu 1999. En bandarísk stjórnvöld hafa ekkert gert í málinu síðan og hafa ekki tekið nein skref í átt til þess að leggja fram formlega kvörtun hjá Alþjóða viðskiptastofnuninni vegna lánveitinga til Airbus.

Nokkrir evrópskir embættismenn á sviði flugmála hafa sagt að ef bandarísk stjórnvöld leggja fram kvörtun væri rétt að leggja fram kvörtun á móti, þar sem beint væri sjónum að því hvort bandarísk stjórnvöld hefðu farið yfir mörkin hvað varðar óbeinan stuðning við Boeing.