Bolton, sem Eiður Smári Guðjohnsen og Guðni Bergsson leika með, er úr leik í ensku deildabikarkeppninni.
Bolton, sem Eiður Smári Guðjohnsen og Guðni Bergsson leika með, er úr leik í ensku deildabikarkeppninni. Liðið tapaði 3:0 fyrir Tranmere í síðari undanúrslitaleik keppninnar í gærkvöldi, en leikurinn fór fram á heimavelli Tranmere, sem er komið í fyrsta skipti í úrslitaleik í stórkeppni í þau 80 ár sem það hefur tekið þátt í deildakeppninni. Tranmere mætir annað hvort Leicester eða Aston Villa, en liðin eiga eftir að leika síðari leik sinn í undanúrslitum.

Heimamenn, sem unnu fyrri leikinn 1:0 í Bolton, voru sterkari aðilinn í leiknum í gær og unnu sanngjarnan sigur. Þeir sóttu hart að Bolton frá upphafi og uppskáru mark eftir sex mínútur. Tranmere bætti við öðru marki fyrir leikhlé og því var á brattann að sækja fyrir Bolton. Heimamenn gáfu ekkert eftir í síðari hálfleik og bættu við þriðja markinu 20 mínútum fyrir leikslok við ákafan fögnuð áhorfenda. Eiður og Guðni léku allan leikinn.