SKJÁR 1 og mbl.is standa fyrir nýjum vinsældalista með heitinu Topp 20 þar sem gestir mbl.is geta tekið þátt í vali á lögum á listann. Allir sem fara inn á mbl.
SKJÁR 1 og mbl.is standa fyrir nýjum vinsældalista með heitinu Topp 20 þar sem gestir mbl.is geta tekið þátt í vali á lögum á listann. Allir sem fara inn á mbl.is geta tekið þátt í að raða og velja lög á listann og nýttu rúmlega 600 manns sér þennan möguleika á þeirri einu viku sem liðin er frá því listinn var opnaður. Listinn er á stöðugri hreyfingu í heila viku en á hádegi á miðvikudögum er staðan tekin og á fimmtudögum sýnir Skjár 1 þátt með sama heiti. Í þættinum eru lög listans kynnt og sýnd myndbönd af völdum lögum.

Þeir sem vilja taka þátt í valinu geta farið inn á mbl.is, smellt þar á hnapp Topp 20 þar sem boðið er upp á að kjósa, skráð netfang sitt og fá þar með senda sérstaka kosningaslóð. Þá er hægt að velja þau lög sem viðkomandi finnst að eigi að skipa fimm efstu sætin og einnig er mögulegt að bæta við lögum á listann. Listinn er uppfærður á klukkustundar fresti þannig að hægt er að fylgjast með breytingunum sem verða með því að smella á Topp 20-hnappinn.