PROCTER & Gamble, P&G, hætti í gær samrunaviðræðum við lyfjafyrirtækin Warner-Lambert Co. og American Home Products, en samruni þeirra hefði getað skapað eitt af stærstu lyfjafyrirtækjum heims, að því er fram kemur á fréttavef CNN.
PROCTER & Gamble, P&G, hætti í gær samrunaviðræðum við lyfjafyrirtækin Warner-Lambert Co. og American Home Products, en samruni þeirra hefði getað skapað eitt af stærstu lyfjafyrirtækjum heims, að því er fram kemur á fréttavef CNN.

Eftir fregnirnar tilkynnti Warner-Lambert að það hefði í hyggju að halda áfram viðræðum við Pfizer-lyfjafyrirtækið um yfirtökutilboð hins síðarnefnda á Warner-Lambert, sem hefur verið metið á um 5.600 milljarða króna.

Durk Jager, forstjóri P&G, sagði í gær að viðræðurnar hefðu staðið yfir í um þrjár vikur, en P&G hafði áhuga á að byggja upp lyfjaframleiðsludeild sína með kaupum á öðrum fyrirtækjum. Að sögn Jagers var viðræðum hætt vegna upplýsingaleka og bollalegginga í fjölmiðlum í framhaldi hans.

Greiningaraðilar á markaði telja hins vegar að viðbrögð hluthafa hafi einnig átt þátt í ákvörðun P&G, en hluthafar höfðu losað sig við hlutabréf P&G í stórum stíl vegna ótta við að samruninn við lyfjafyrirtækin kynni að hafa áhrif á vöxt hagnaðar P&G, auk þess sem hætta væri á kostnaðarsömu tilboðssstríði milli P&G og Pfizer um yfirráð yfir Warner-Lambert.