Þröstur Sigtryggsson
Þröstur Sigtryggsson
Rannsóknarnefnd sjóslysa ætti að taka álit sitt til endurskoðunar, segir Þröstur Sigtryggsson, og biðjast opinberlega afsökunar á orðalaginu í fyrstu málsgrein þess.
FYRIR stuttu barst mér í hendur skýrsla rannsóknarnefndar sjóslysa um strand Víkartinds og tilraunir varðskipsins Ægis til björgunar hinn 5. mars 1997. Skýrsla þessi mun hafa komið út á haustdögum 1999 og ætti því tímans vegna að geta verið vönduð að allri gerð. Svo er ekki. Ég fer samt ekki nánar út í það hér en mun aðeins ræða nefndarálitið um þátt Ægis og stjórnenda hans.

Nefndarálit:

"Nefndin telur að orsök slyssins megi rekja til ofdirfskufullrar sigling ar varðskipsins (feitletrun mín) við tilraun til að koma dráttartaug um borð í m.s. Víkartind þegar því var siglt aftur fyrir skipið og inn á grunnsævi í því veðri sem var á þeim tíma.

Nefndin telur að varðskip eins og Ægir sé ekki með fullnægjandi stjórn-búnað til siglingar við erfiðar aðstæður til björgunar þar sem um er að ræða eitt stýrisblað á milli tveggja skrúfa. Tveggja skrúfu skip þarf að vera búið tveimur stýrisblöðum, stýrisblað fyrir aftan hvora skrúfu.

Miðað við þær mælingar á togkrafti varðskipsins, sem fyrir hendi eru, dregur nefndin í efa að varðskipið hefði náð að draga m.s. Víkartind frá landi miðað við þá veðurhæð og sjólag sem var þegar tilraunin var gerð."

Álit þetta vekur nokkra furðu og mér er ekki ljóst hvernig nefndin kemst að þessari niðurstöðu. Það er ekki varðskipið sem tekur sig til og sýnir "ofdirfskufulla siglingu". því er stjórnað af skipherranum. En hvað er þá nefndin að segja? Hún er einfaldlega að segja að skipherrann hafi vitað hvað myndi gerast þegar hann hóf tilraunir til að koma dráttartaug um borð í Víkartind; slysið sé honum að kenna vegna þessarar fífldirfsku hans. En það kom ekkert, ég endurtek ekkert fram við sjóprófin er benti til þess að skipherrann hefði getað séð það hafrót og þá brotsjói fyrir, er skullu á varðskipinu í seinni ferð þess aftur fyrir Víkartind og ollu hinu hörmulega slysi.

Ég er handviss um það, að skipherranum, eins og reyndar öllum þeim, er stjórnað hafa vs. Ægi, voru ljósar þær takmarkanir sem eru á snúningsgetu og stjórnhæfni skipsins og tók fullt tillit til þeirra við þessar björgunartilraunir. Aðrar aðferðir við að koma dráttartaug um borð tel ég ekki hafa komið til greina þarna.

Það er gefið í skyn að tvö stýrisblöð á tveggja skrúfa skipi leysi allan vanda varðandi stjórnhæfni við aðstæður eins og þarna voru. Það er engan veginn gefið og fer meðal annars eftir byggingarlagi skipsins. Fleira þarf að koma til.

Ég hef ekki undir höndum niðurstöður mælinga á togkrafti Ægis né heldur hver framkvæmdi þær og hvernig. En miðað við reynslu mína af togkrafti hans þá dreg ég ekki "í efa að varðskipið hefði náð að draga Víkartind frá landi miðað við veðurhæð og sjólag" á staðnum.

Það á ekki að vera markmið svona rannsóknar að finna sökudólg.

Nefndin verður að rökstyðja álit sitt.

Rannsóknarnefnd sjóslysa ætti að taka þetta álit sitt til endurskoðunar og biðjast opinberlega afsökunar á orðalaginu í fyrstu málsgrein þess.

Höfundur er skipherra á eftirlaunum.