Elín Erna  Steinarsdóttir
Elín Erna Steinarsdóttir
Stjórnarherrar nútímans virðast halda, segir Elín Erna Steinarsdóttir, að þeir sjálfir þurfi ekki að fara eftir lögum eins og aðrir landsmenn.
UM ÞESSAR mundir horfa margir um öxl og reyna að meta fortíð, nútíð og framtíð. Þegar ég lít um öxl til unglingsára minna man ég þegar ég lærði í mannkynssögu um mismunandi tímabil og stjórnarfar einkum og sér í lagi í hinum vestræna heimi. Ég man líka hvað mér komu stjórnarhættir siðspillingar og valdníðslu einkennilega fyrir sjónir. Ég þakkaði fyrir að lifa í lýðræðisríki nútímans þar sem réttlæti ríkti og stéttaskipting var lítil og taldi ég að lýðræðið og frjáls samningsréttur mundi tryggja að svo yrði áfram.

Frá þessum tíma eru liðin rúm tuttugu ár og margt er breytt. Þeir sem meira mega sín í þjóðfélaginu hafa í raun tekið verkfallsréttinn af þeim sem minna mega sín því að hækkanirnar eru jafnóðum settar út í verðlagið og þeir sem meira hafa koma í kjölfarið og fá miklu hærri laun, samanber 30% hækkun æðstu stjórnenda landsins síðastliðið vor. Hins vegar segja ráðamenn að launafólk eigi nú að sýna ábyrgð og skynsemi og semja um innan við 5% hækkun svo halda megi kaupmætti þeim sem ráðamenn hafa nú þegið á silfurfati. Finnist einhverjum þetta óréttlæti þá er það bara öfund, honum væri nær að gleðjast með ráðamönnum yfir sannri "eignagleði" (áður nefnd græðgi) þeirra og dansa með þeim í kringum gullkálfinn.

Nú er einnig svo komið að ýmiss konar valdníðsla þrífst í skjóli lýðræðisins. Ráðamenn treysta á hverfult langtímaminni kjósenda og framkvæma mestu valdníðsluna á byrjun kjörtímabils og samtryggja sig líka gagnvart því siðleysi sem ríkir meðal þeirra. Þess vegna eiga kjósendur engan valkost og þar með virkar lýðræðið ekki. Þó að á lofti séu alvarlegar blikur vegna misskiptingar landsins gæða er hópur þeirra sem mikið bera úr býtum og eru þar af leiðandi værukærir það stór að frambjóðendur komast upp með að ræða ekki lykilmál fyrir kosningar og eiga þó trygg atkvæði fjölda fólks út á nafn flokksins en ekki kosningaloforð.

Í krafti þessara kjósenda geta valdhafar komist upp með ótrúlega hluti. Sem dæmi um það færa þeir stjórnarskrárbundnar eignir þjóðarinnar til örfárra manna sem sumir lifa flottar en nokkur lénsherra gerði fyrr á öldum og hafa þessir menn auk þess í hendi sér að leggja heilu byggðarlögin í auðn. Stjórnarherrarnir taka því næst eignarnámi með þjóðlendulögum sannanlegar eigur dreifbýlisfólks sem að undanförnu hefur barist í bökkum við að lifa af þeim. Líklegt má svo teljast að einkavæða þurfi þjóðlendurnar því að ríkið má ekki eiga neitt sem hugsanlega getur verið arðvænlegt. Á sama tíma og þessi eignaupptaka fer fram tala þeir um að styrkja þurfi byggð í landinu.

Eftir því sem ég best veit er það hlutverk alþingis að setja lög í landinu sem allir eiga að virða svo ekki skapist ringulreið í þjóðfélaginu. Stjórnarherrar nútímans virðast hins vegar halda að þeir sjálfir þurfi ekki að fara eftir þeim eins og aðrir landsmenn. Þeir eru ef til vill "jafnari en aðrir", svo vitnað sé í frægt skáldverk. Nýjasta dæmið um þetta er stöðuveiting í embætti seðlabankastjóra. Í lögum er kveðið á um að seðlabankastjórar skuli vera þrír. Það var því brot á lögum að auglýsa ekki stöðuna lausa þegar hún losnaði fyrir hálfu öðru ári eða í besta falli fullkomið ábyrgðarleysi af viðskiptaráðherra. Vilji einhver halda því fram að svo hafi ekki verið er sá hinn sami að segja að embættið sé einungis "gervistarf" eða eins konar stimpilklukka á atvinnuleysisbætur fyrir útbrunna stjórnmálamenn. Þessar atvinnuleysisbætur eru þó í allt öðrum verðflokki en almennar bætur sem ráðamenn ákveða að hægt sé að lifa af. Mér finnst því að þessir sömu ráðamenn ættu að geta þegið þessar almennu bætur eins og hver annar því þeir einir eru væntanlega búnir að reikna út hvernig lifa megi af þeim.

Að lokum vil ég segja þetta við þá sem áður hafa staðið að slíkum gjörningum, þá sem nú misbeittu valdi sínu og höfðu aðra umsækjendur að fíflum, og þá sem hyggjast komast í feit embætti í framtíðinni. Hvort sem umrætt embættisveitingarferli var lögbrot, ábyrgðarleysi eða staðan er óþörf (gerviembætti) er það óskandi að þið séuð komin svo langt á þroskabrautinni að þið kunnið að skammast ykkar. Það er líka hollt fyrir ykkur að vita að enginn ber virðingu fyrir siðspilltum "herrum". Gott fordæmi er sterkasta stjórntækið.

Höfundur er leikskólastjóri og leikskólasérkennari að mennt.